Flokkur: Fréttir

Aðalfundur SKOTVÍS 2019

Aðalfundur SKOTVÍS var haldin á fimmtudagskvöld 28. febrúar síðastliðinn.

Vel var mætt og heiðraði hæstvirtur umhverfisráðherra okkur með komu sinni. Við kunnum honum okkar bestu þakkir fyrir að gefa okkur tíma í sinni þéttu dagskrá.
Á fundinum kom fram að rekstur félagsins gekk mjög vel á seinasta ári og einnig fjölgaði félögum um 33%. Virkir félagar eru núna 1.700 í SKOTVÍS og um 1.000 í SKOTREYN.
Metfjölgun og metrekstrarhagnaður á einu og sama árinu.

Á fundinum var skrifað undir samstarfssamning milli SKOTVÍS og Bogveiðifélags Íslands.

Ný stjórn var kjörinn og hana skipa:
Áki Ármann Jónsson, formaður
Jón Víðir Hauksson, varaformaður
Jón Þór Víglundsson, gjaldkeri
Einar Kr. Haraldsson
Bjarnþóra María Pálsdóttir
Þórey Inga Helgadóttir
Ívar Pálsson

Stjórnin mun verða kynnt nánar í næstu viku á heimasíðu SKOTVÍS og Facebook.
Í fyrsta sinn eru tvær konur í stjórn SKOTVÍS, ánægjuleg tákn tíðarandans. Æ fleiri konur leggja fyrir sig skotveiði og er það vel. Fyrsti stjórnarfundur hefur verið boðaður á mánudagskvöld og þar mun stjórnin skipta með sér verkum.

Langtímamarkmið félagsins eru að reka skrifstofu og hafa allavega eitt stöðugildi. Fræðsla til veiðimanna og úrvinnsla veiðigagna eru forgangsverkefni félagsins.

Skotvís – Ársreikningur 2018 m undirrit skoð.manna
Fundargerð aðalfundar 2019

Categories: Fréttir

Hreindýrakvóti ársins loks kominn

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið hreindýrakvóta fyrir 2019 að fengnum tillögum frá Umhverfisstofnun. Heimilt verður að veiða allt að 1451 dýr á árinu, 1043 kú og 408 tarfa. Um er að ræða sama fjölda dýra og hreindýrakvóti fyrra árs kvað á um.

Veiðin skiptist milli níu veiðisvæða og eru mörk þeirra og fjöldi dýra á hverju svæði tilgreind nánar í meðfylgjandi auglýsingu.

Heimildirnar eru veittar með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun veiðiheimilda. Þá hefur ráðuneytið verið með í skoðun áhrif kúaveiða á kálfa. Niðurstöður þeirrar athugunar geta mögulega haft áhrif á veiðitíma hreindýra, sem kveðið er á um í reglugerð.

Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Óheimilt er að veiða kálfa.

Umhverfisstofnun auglýsir og sér um sölu allra veiðiheimildanna.

Veiðimenn geta sótt um hér.

Categories: Fréttir

Styrkir til félagsins

Umhverfis-og auðlindaráðuneytið hefur nú birt úthlutun rekstar-og verkefnastyrkja til frjálsra félagasamtaka.
SKOTVÍS fékk 400.000- í rekstrarstyrk frá ráðuneytinu.
Sótt var um fjóra verkefnastyrki og fengust 350.000- í árlega rjúpnatalningu félagsins og 450.000- í útskipti á plasti í forhlöðum haglaskota.
SKOTVÍS hefur látið gott af sér leiða, unnið hörðum höndum að samfélagslegum verkefnum með uppbyggilegum hætti og áorkað miklu á 40 árum.
Fjárveitingin er viðurkenning á starfi félagsins, gildum þess, vinnubrögðum og árangri í náttúruverndar-og umhverfismálum.
Úthlutunin undirstrikar traust til SKOTVÍS um að halda því starfi áfram næstu 40 árin, í það minnsta.

Categories: Fréttir

Rjúpnagögn og gagn

Hér má finna glærur Arne Sólmundssonar frá fyrirlestri hans á Hrafnaþingi NÍ 23. jan 2019.

 

 

 

 

Categories: Fréttir

Aðalfundur SKOTVÍS verður 28. febrúar n.k.

Stjórn SKOTVÍS auglýsir aðalfund félagsins, sem verður haldinn þann 28. febrúar n.k. kl 20:00.

Dagskrá og staðsetning verður auglýst nánar er nær dregur.

Samkvæmt lögum félagsins skal kjósa á aðalfundi 3 stjórnarmenn til 2ja ára í senn, og formann og varaformann til eins árs.

Áhugasamir félagsmenn eru hvattir til að senda tilkynningu um framboð sitt til stjórnar á netfangið skotvis@skotvis.is

Við viljum sérstaklega hvetja konur til að gefa kost á sér til stjórnarstarfa.

Fundinum verður streymt beint á FB síðu SKOTVÍS, og stjórn er að vinna að viðbótum við heimasíðuna svo fjarstaddir félagsmenn geti greitt atkvæði á fundinum.

Categories: Fréttir

Öryggi á rjúpnaveiðum frá Safe Travel

Skotveiði er útivist þar sem huga þarf að réttum búnaði og öryggisatriðum, auk þess að sýna ábyrga hegðun vegna skotvopna og ganga vel um landið. Veiðimenn þurfa að kynna sér vel þau svæði sem þeir ætla að fara á, fylgjast vel með veðurspá og og jafnframt athuga hvernig aðstæður, færð og veður hefur verið undanfarna daga.

Athugið að snjóflóðahætta leynist víða til fjalla og langflest snjóflóð fara af stað af manna völdum, þ.e.a.s. fólk á göngu eða skíðum setur þau af stað og lendir oftast sjálft í flóðinu.

Hafa skal eftirfarandi alltaf í huga:

  • Kannaðu vel aðstæður á veiðisvæðinu og fylgstu með veðurspá.
  • Á veturna til fjalla er oft snjóflóðahætta. Haltu þig við flatari svæði.
  • Farðu aldrei einn til veiða og sýndu aðgát ef margir eru við veiðar á svæðinu.
  • Vertu með kort, áttavita og GPS tæki (nóg af auka rafhlöðum) og vertu viss um að þú kunnir að nota það.
  • Vertu með 112 Iceland appið í símanum þínum.
  • Vertu rétt klæddur, nýttu þér útbúnaðarlista og vertu með aukafatnað og nesti sem dugar þér allavega 24 klst lengur en þú ætlar að vera. Lagskiptur fatnaður getur skipt sköpum.
  • Skildu eftir ferðaáætlun hjá einhverjum sem brugðist við ef á þarf að halda t.d. hér á Safetravel.is
  • Vertu með réttan öryggisbúnað s.s. síma (ásamt hleðslubanka fyrir hann eða auka rafhlöðu), neyðarblys, sjúkratösku og annað sem þarf.
  • Veiðitímabilið er takmarkað. Láttu ekki áhuga eða þrýsting ýta þér út í veður eða aðstæður sem gætu skapað þér hættu eingöngu vegna þess að tímabilið er stutt eða því er að ljúka.
  • Kynntu þér siðareglur skotveiðimanna og umgengni um skotvopn t.d. á heimasíðu Skotvís

Categories: Fréttir

Hentistefna eða veiðistjórnun?

Þann 12. September sl. boðaði Náttúrufræðistofnun Íslands til samráðsfundar þar sem farið var yfir ástand rjúpnastofnsins og metin áhrif veiðistjórnunar. Þar kom fram að sjaldan hefur veiðistofn rjúpu verið stærri frá upphafi talninga og mat kynnti NÍ ráðleggingar sínar um að veiða 89.000 rjúpur. Í rökstuðningi NÍ kom fram að ljóst væri eftir að sölubann var sett á rjúpu, að fjöldi veiðidaga skipti ekki lengur máli. Sóknin væri sú sama. Veiðimenn sýndu ábyrgð og stunduðu hóflegar veiðar. Góður samhljómur var á fundinum og engin ágreiningur.
13. september, tæpum sólarhring eftir samráðsfundinn, sendir NÍ svo umhverfisráðherra tillögur sínar og er þá skyndilega komin á þá skoðun að beita skuli varúðarreglu og að veiðiþol rjúpnastofnisn sé nú 67.000 fuglar. Dægursveifla ráðgjafar NÍ er því 22.000 fuglar. Og þrátt fyrir að í greinargerð með ráðgjöf sinni komi skýrt fram að fjöldi veiðidaga hafi engin áhrif á veiðar vill NÍ samt sem áður EKKI leggja til fjölgun veiðidaga.
�Athygli vekur að stofnunin kýs nú að nota ekki gögn um viðkomu rjúpnastofnsins á NA-landi, eins og ætíð, enda gagnasafnið þar miklu stærra og þar af leiðandi áreiðanlegra. Í stað þess ákveður NÍ að breyta til og nota viðkomu frá suðvesturlandi til að reikna út veiðiþolið.. Rökstuðningur NÍ er að sökum slæmrar tíðar á SV-landi í sumar sé rétt að beita varúðarreglu. Að mati SKOTVÍS er hér um hentistefnu en ekki vísindalega veiðistjórnun að ræða. Að beita varúðarreglu þegar ljóst er að veiðstofn rúpu hefur sjaldan verið stærri frá því að markvissar talningar hófust, getur ekki verið trúverðugt. Er réttlætanlegt að beita “varúðarreglu” þegar stofninn er í hámarki og rjúpu fjölgar um allt land? Að mati SKOTVÍS þá er verið að gengisfella varúðaregluna með slíkri hentistefnu.
SKOTVÍS furðar sig á þessari breytingu á aðferðafræði frá fyrri útreikningum varðandi veiðiþolið. Hvað breytist á einum sólarhring? Hvaða nýju gögn komu fram sem ekki voru kynnt á fundinum?
SKOTVÍS hreinlega skilur ekki ráðgjöf NÍ sem lítur framhjá eigin niðurstöðum hvað varðar fjölda veiðdaga.
SKOTVÍS hefur annan skilning á eðli samráðsfunda, þeir eiga að vera vettvangur sátta, upplýsinga og samráðs. NÍ hefur algerlega brugðist trausti skotveiðimanna með þessari framkomu og verður erfitt að vinna það upp aftur.
SKOTVÍS telur talsvert rúm vera fyrir fjölgun veiðidaga en sættir sig við fjölgun á 12 dögum í 18 á þessu hausti. Veiðidagar á rjúpu voru 68 fyrir 2003.
SKOTVÍS minnir á að félagið talaði mjög fyrir núverandi veiðikortakerfi, byrjaði fræðslu fyrir veiðimenn, hefur ávalt haft siðareglur sínar til grundvallar allri veiði og hvatt til hófsamra veiða. SKOTVÍS studdi einnig sölubann á rjúpu dyggilega enda langstærsti þátturinn í núverandi veiðistjórnun á rjúpu.
Þrátt fyrir þessa annmarka á ráðgjöf NÍ hvetur SKOTVÍS veiðimenn til að veiða hóflega nú í haust, ganga vel um veiðislóð, hirða upp notuð skothylki, bæði sín og annara.�Góður skotveiðimaður kynnir sér lög og reglur og siðareglur SKOTVÍS áður en haldið er til veiða, kemur vel fram og er veiðimönnum til sóma.
SKOTVÍS skorar á ráðherra og stjórnvöld að hefja sem fyrst vinnu við stjórnunar-og verndaráætlanir fyrir veiðistofna og sérstaklega rjúpuna.

Categories: Fréttir

SKOTVÍS 40 ára.

SKOTVÍS eru hagsmunasamtök skotveiðimanna og berjast fyrir réttindum hins almenna skotveiðimanns til veiða í náttúru Íslands. Félagsmenn eru rúmlega 4.000 en rúmlega 1.400 eru virkir. Um þessar mundir er félagið 40 ára og laugardaginn 22. september sl. var glæsileg afmælisveisla á Nauthól fyrir alla félagsmenn.  Fyrsta árið er frítt fyrir nýliða í boði HLAÐ. Einnig mun verða dregin út fjögur 10.000- króna úttektirt í Melabúðinni þegar við náum 1.500 virkum félagsmönnum.  Í veislunni héldu formaður SKOTVÍS og umhverfisráðherra ræður og Ari Eldjárn mætti og skaut léttum skotum í allar áttir.

 

 

Margt hefur áunnist á liðnum árum fyrir tilstuðlan SKOTVÍS. Hinn almenni skotveiðimaður getur nú sótt um hreindýraleyfi en ekki er langt síðan að þeim var bara úthlutað til fámenns hóps. Einnig má nú nota hljóðdeyfa við hreindýraveiðar. Námskeið fyrir skotveiðimenn eru nú haldin um allt land sem og skotvopnanámskeið en félagið var einmitt brautryðjandi á þessu sviði. Veiðikortakerfinu var komið á 1995 fyrir tilstuðlan SKOTVÍS sem var grunnur að skráningu á veiðitölum og styrkja til rannsókna á veiðitegundum. Svo mætti lengi telja en hér er stiklað á stóru.

Helstu áskoranir til framtíðar eru endurskoðun á veiðilöggjöfinni, stofnun Þjóðgarðastofnunar og miðhálendisþjóðgarðs. Mikilvægt er að rödd skotveiðimannsins fái þar að hljóma og tekið sé tillit til þeirra sem og annara hópa útisvistarfólks.

Félagið er um þessar mundir að opna skrifstofu í Ármúla 7 og stendur til að vera með skotveiðiskóla, nýta netið meira til kennslu ásamt nýjum kennsluháttum. Einnig hefur mikil vinna verið lögð í það að greina gögn um rjúpnavöktun og rjúpnaveiði og er niðurstaða okkar sú að dagafjöldi á rjúpnaveiðum skipti ekki máli þegar kemur að veiðiálagi. Með sölubanni sem SKOTVÍS barðist fyrir breyttist veiðihegðun það mikið að í bestu árum nær rjúpnaveiði ekki helming af því sem áður var.

Opna þarf betur fyrir heiðagæsaveiði á hálendinu, stofninn er komin í hálfa milljón fugla og ólíðandi að reynt sé að takmarka eða skerða rétt veiðimanna til að sækja í þá tegund.

SKOTVÍS skilgreinir sig sem umhverfis-og náttúruverndarsamtök og hefur hafið samstarf við skotvopnaverslanir og innflytjendur um að mninnka innflutning á haglaskotum sem nota plastforhlöð. Við viljum minnka og helst hætta allri plastnotkun við veiðar. SKOTVÍS hefur einnig sent Fuglavernd uppkast að samningi á milli félaganna þar sem þau skuldbinda sig til að vinna saman að sameiginlegum markmiðum sem eru að vernda búsvæði fugla, votlendi og vernda líffræðilegan fjölbreytileika. Það er nefnilega fleira sem sameinar þessi tvö félög en sundrar.

Félagið hefur staðið fyrir ýmsum siðbótum og má þar nefna átakið “Láttu ekki þitt eftir liggja” þar sem veiðimenn voru hvattir til að hirða upp eftir sig skothylki og forhlöð í náttúrunni bæði eftir sig og aðra. Einnig að taka með allt rusl sem þeir fundu á veiðislóð. Þetta heitir í dag að plokka…

Categories: Fréttir

Hlað greiðir fyrsta félagsgjald nýrra félaga.

Skotvís og Hlað veiðiverslun hafa gert með sér samkomulag um að Hlað bjóði öllum þeim sem ganga í félagið, fyrsta árið frítt. Samningurinn gildir um þá nýja félaga sem ganga í félagið næsta árið.

Ferlið er sjálfvirkt, einungis þarf að skrá sig í félagið hér.

Stjórn Skotvís bindur miklar vonir við þennan samning og færir þeim Hlaðmönnum bestu þakkir fyrir samstarfið.

Framundan eru stór verkefni í hagsmunagæslu fyrir skotveiðimenn og því nauðsynlegt fyrir alla veiðimenn að fylkja sér bak við félagið. Rétturinn til veiða er ekki sjálfgefinn.

Categories: Fréttir

Tilkynning frá stjórn Skotvís

Af tilefni umræðu á Skotveiðispjallinu á Fésbókinni þá vill stjórn Skotvís koma eftirfarandi á framfæri. Samkvæmt úrskurði Forsætisráðuneytis 11.10.2016 þá er óhemilt að selja veiðileyfi til fuglaveiða á þjóðlendum þrátt fyrir að þær séu í afréttareign eða í annarri óbeinni eign. Einnig er óheimilt að hindra för og eða rukka almenning fyrir að keyra þá vegi eða slóða sem liggja að viðkomandi þjóðlendum. En heimilt að er loka vegum/slóðum vegna aurbleytu eða annað og skal það yfir alla ganga sem þurfa um þann veg/slóða. Með t.d skála þá eru þeir eign Upprekstrarfélaga og er þeim í sjálfvald sett hverjum þau leigja. þrátt fyrir viðkomandi skáli sé á miðri þjóðlendu. Í þessu tilviki er um að ræða Víðidalstunguheiði og skal þess getið að hún er að hluta eignalönd og annars vegar þjóðlenda. á Vef óbyggðanefndar er að hægt að sjá nákvæman úrskurð um Víðidalstunguheiði og kort sem sýnir mörkin. Í dag vantar námkvæmari kort sem sýna gps punkta þjóðlendna og eignalanda og hefur Skotvís hafið skoðun á því hvernig er hægt að bæta úr því fyrir veiðimenn. Að þessu sögðu þá hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir íbúa sveitafélaga ef það er farið að takmarka afnot íbúa þess og eða rukka fyrir afnot á svæði sem hefur í áranna rás verið talinn réttur hvers og eins í að afla sér matar í íslenskri náttúru. Hvað kemur næst á að banna berjatínslu í landi sveitafélagsins nema að fólk borgi fyrir það, þetta hlýtur vera sambærilegt og ef um skotveiðar er að ræða ef ekki þá er um grófa mismunun á hópi fólks ræða. En stjórn mun fylgjast með þessu máli .Fyrir hönd stjórn SKOTVÍS. Indriði Ragnar Grétarsson​ formaður Skotvís.

Categories: Fréttir

Social media & sharing icons powered by UltimatelySocial