Fuglaflensa og veiðar

Í vor komu upp staðfest tilfelli fuglaflensu í farfuglum þegar þeir komu til landsins. Talsvert fannst af dauðri súlu, og einhver tilfelli hafa komið upp um að helsingi hafi drepist, líklegast úr sjúkdómnum. Þau sem stunda veiðar á villtum andfuglum hafa að vonum áhyggjur af því hvort sjúkdómurinn hafi áhrif á veiðar í haust.

Fuglaflensa er í raun skæð inflúensuveira sem fyrst og fremst berst fugla á milli. Hún smitast fyrst og fremst milli fugla, til dæmis með dropasmiti eða driti þeirra.

Það afbrigði sem nú er í gangi, er ekki það sama og var útbreitt fyrir um 20 árum og olli talsverðum veikindum í fólki. Veiran sem nú veldur sýkingum í fuglum er tegunda sérhæfð, sem þýðir að hún simitast ekki auðveldlega á milli tegunda.

Ekki hefur til að mynda verið sýnt fram á að fólk hafi smitast af henni, utan mögulega eins tilviks, þar sem um einstakling var að ræða sem var í miklu samneyti við sýkta fugla.

Þegar þessi orð eru rituð eru engin áform uppi um bann við veiðum á andfuglum, og frá því fyrstu fréttir bárust af sýktum fuglum í vor, hefur í raun lítið frést. Líklegast er að flestir þeir einstaklingar sem lögðu sýktir af stað til Íslands, hafi hreinlega ekki lifað ferðalagið af. En þó nokkur smit voru vissulega staðfest.

Við veiðar í haust er því rétt að hafa varann á sér. Á vef MAST, er birt yfirlit yfir staðfest smit á landinu í kortasjá. Þar má sjá að flest smitin sem staðfest hafa verið jákvæð, eru á Reykjanesi, nokkur á Snæfellsnesi og svo hafa greinst smit í Eyjafirði og við Skjálfandaflóa. Á Suð-austurlandi hafa einnig greinst nokkur jákvæð smit, en ekkert á svæðinu frá Höfn og norður að Skjálfandaflóa.

Jarle Reiersen, héraðsdýralæknir Suðausturumdæmis hjá Matvælastofnun segir að talsvert hafi fundist af dauðum villtum fuglum, sem sýkst hafi af veirunni. Til dæmis hafi áhrifin á Skúminn verði talsverð og kríur hafi líka sýkst. Ekki hafi fundist mikið af dauðum gæsum, en eitthvað af Helsingja.

Hann tekur fram að veiran fjölgi sér ekki eftir dauða hýsils. Það er, veira fjölgar sér ekki í dauðum fuglum.

Matvælastofnun beinir því til þeirra sem veiða villta fugla að láta vita, ef grunur leikur á að smitaður fugl hafi veiðst. Einkennin lýsa sér meðal annars í úfnum fiðurham, hósta eða hnerra, blæðingum í húð og niðurgangi.

Endur og gæsir smitast sjaldnar og ef um smit er að ræða geta einkennin verið mjög væg.

En tilmæli MAST til þeirra sem halda til veiða eru að gæta ávallt smitvarna við meðhöndlun á fugli sem grunur leikur á að sé smitaður, og tilkynna til Matvælastofnunar. Stofnuninni er ekki kleift að taka sýni úr öllum tilkynntum fuglum, en það verður metið hverju sinni.

Gætið sóttvarna við meðhöndlun og verkun á fuglunum. Notið til dæmis hanska og grímu. Mikilvægt er að sótthreinsa vel verkfæri og vinnuumhverfi að lokinni verkun.

Gætið fyllsta hreinlætis við eldun, varist krosssmit og að kjötið sé nægjanlega eldað.

Hér er rétt að taka frama að engin dæmi eru um að fólk smitist af fuglaflensu við neyslu afurða af fuglum. Jarle segir að lítil ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að veiran smitist í menn við neyslu afurða. Ef kjötið er eldað vel eru litlar sem engar líkur, og jafnvel þó gæsabringa sé grafin eða reykt. Það helgast fyrst og fremst af því hve tegundar sérhæfð þessi veira er.

Mikilvægt er þó að hafa í huga að smitið berst fyrst og fremst með skít fuglanna. Því er rétt að endurtaka leiðbeiningar um að gæta fyllsta hreinlætis við meðhöndlun og aðgerð.

Það sama gildir um innmat eins og lifur. Engin ástæða er til að henda henni. Ef ætlunin er að hirða fóarn, er hins vegar rétt að hreinsa það vel og gæta þess að kross smit verði frá fóarni yfir í bringu eða annað kjöt sem ætlunin er að elda vægt.

Margir nota hund við veiðar á andfuglum. Mjög ólíklegt er að önnur dýr en fuglar, smitist af fuglaflensu. Það afbrigði sem hingað kom og er nú hvað útbreiddast í Evrópu, smitast aðallega milli fugla. Magar hunda eru mjög súrir og veiran fjölgar sér ekki í hundum. Engin sérstök ástæða er því til að hafa áhyggjur af hundum, jafnvel þó þeir gæði sér á gæsaskít á veiðum.

Hafið í huga að þið getið borið smit af sýktum fugli annað, til dæmis í alifugla.

Share the Post:

Related Posts

Skotvopnanámskeið

Ríkislögreglustjóri hefur gert samning við SKOTVÍS um að félagið haldi utan um skotvopnanámskeið. Jafnframt hafa SKOTVÍS og UST gert samkomulag um

Read More

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More