Category: Uncategorized

Ítölsk gæs

Berin eru einu ávextirnir í íslenskri náttúru. Aðalbláber þykja best íslenskra berja. Hér kemur skemmtileg uppskrift frá Ítalíu sem hefur verið aðlöguð íslenskum aðstæðum. Í þessari uppskrift eru það aðalbláberin sem gefa tóninn. Þetta er einstaklega einföld uppskrift en aldeilis frábær. Það sem þarf er:

 • 2 gæsabringur eða um 800 gr
 • 2 msk    ólívuolía
 • 4 msk    balsam edik
 • 1 dl    aðalbláber
 • ½ tsk    kanell
 • salt og pipar

 

 1. Bringurnar eru steiktar í pönnu með háum börmum. Setjið ólívuolíu á pönnuna. Því næst eru bringurnar settar á pönnuna með skinnhliðina niður. Eftir u.þ.b. 3 mínútur er hitinn lækkaður og bring­urnar steiktar við vægan hita í u.þ.b. 10 mínútur. Aukið því næst hitann aftur og snúið bringunum við og steikið í u.þ.b. 5 mínútur. Bringurnar eru settar í eldfast fat og haldið heitum í ofni við u.þ.b. 40°.
 2. Hellið allri fitu af pönnunni. Setjið því næst balsam edik, aðalbláber, salt, pipar og kanel á pönnuna. Sósan er soðin niður við vægan hita í 10 – 15 mínútur.

Til að gera þessa sósu ennþá ljúffeng­ari má bæta við hana ½ dl af púrtvíni og einni msk af soja sósu. Pannan er því næst tekin af hell­unni og 50 gr af smjöri hrært saman við hana.
Sósunni er skipt á fjóra diska og gæsabringurnar skornar í þunnar sneiðar sem eru lagðar ofan á sósuna. Með þessum rétti er gott að hafa rauðkál, rauðvínssoðnar perur og kartöflumús.

Svartfugl

Svartfugl er frábær villibráð. Stofnar svartfugla eru sterkir hér við land og auðvelt að komast á svartfuglsveiðar. Svartfugl má matreiða á ótal vegu þó bestur sé hann steiktur. Mörgum finnst lýsisbragð af svartfugl­inum og er hann því ekki eins vinsæl villibráð eins og til dæmis rjúpur og gæsir. Auðvelt er að losna við lýsisbragðið. Frumskilyrði er að hreinsa vel alla fitu af svartfuglsbringunum. Þá er tilvalið að leggja bringurnar í góðan kryddlög.

 

SÍTRÓNULÖGUR

 • 2 ½ dl    hvítvín
 • 1 dl    ferskur sítrónusafi
 • 1 dl    ólívuolía
 • 1 msk    rifinn börkur af sítrónu
 • ½ dl    hökkuð myntublöð
 • ½ dl    fínt hakkaður laukur
 • 1 msk    ferskt rósmarín (ef notað er þurrt rósmarín er nóg að hafa ½ msk)
 • 1 msk    salt
 • 1 tsk    hvítur pipar

Þessu er öllu blandað vel saman og svart­fuglsbringurnar, t.d. af lunda, langvíu eða stuttvíu, látnar liggja í leginum. Fyrst í 3 tíma við stofuhita og svo í 12 – 24 tíma í ísskáp. Síðan má glóðarsteikja bringurnar á grilli eða á pönnu. Nauðsynlegt er þó að þær séu rétt aðeins rauðar. Þessi kryddlögur dregur allt lýsisbragð úr kjötinu og gefur því einkar gott bragð. Til þess að bragð kjötsins fái notið sín er gott að hafa bragðmikla sósu með.

 

ENGIFERSMJÖRSÓSA

(fyrir 4)

 • 4 msk    smjör
 • 4 msk    rifin engiferrót
 • 1 dl    soja sósa

A    Smjörið er brætt í potti og þegar það er bráðið er engiferinn settur í pottin.
B     Setjið því næst soja sósuna í pottinn og látið sósuna sjóða við vægan hita í 10 mínútur.
Þetta er bragðmikil sósa og sé hún höfð með svartfuglinum er ágætt að hafa soðnar hrísgrjónanúðlur með eða soðin hrísgrjón.

Grafin rjúpa

Innihald

½ dl. salt
½ dl. sykur
½ msk. grófmulin græn piparkorn
1 msk. grófmulin svört piparkorn
1 tsk. hvítlauksduft
8 mulin einiber
1 tsk. timian
1 dl. fínsöxuð fersk steinselja
1 dl. saxað ferskt dill

Lýsing

1. Blandið þessu öllu vel saman. Skerið bringurnar úr rjúpunum og þerrið þær með hreinum klút.
2. Hyljið bringurnar í kryddblöndunni. Þessi skammtur ætti að duga fyrir 500 gr. af rjúpnabringum. Gott er að setja bringurnar í gler eða stálfat með loki.
3. Fatið með bringunum er sett inn í ísskáp. Bringurnar eru látnar liggja í þessari blöndu í sólarhring. Þeim er snúið tvisvar.

Þegar bringurnar eru bornar á borð eru þær skornar í örþunnar sneiðar á ská yfir vöðvann.
Með þessum bragðmikla og góða forrétti má hafa eggjahræru, gott gróft brauð og íslenskt smjör.
Ef þið viljið geyma bringurnar lengur er það mesta af kryddblöndunni skafið af þeim og þær geymdar í góðu íláti í ísskáp.

Olgeir Gestsson.

Wordpress Social Share Plugin powered by Ultimatelysocial