Svartfugl

Svartfugl er frábær villibráð. Stofnar svartfugla eru sterkir hér við land og auðvelt að komast á svartfuglsveiðar. Svartfugl má matreiða á ótal vegu þó bestur sé hann steiktur. Mörgum finnst lýsisbragð af svartfugl­inum og er hann því ekki eins vinsæl villibráð eins og til dæmis rjúpur og gæsir. Auðvelt er að losna við lýsisbragðið. Frumskilyrði er að hreinsa vel alla fitu af svartfuglsbringunum. Þá er tilvalið að leggja bringurnar í góðan kryddlög.

 

SÍTRÓNULÖGUR

 • 2 ½ dl    hvítvín
 • 1 dl    ferskur sítrónusafi
 • 1 dl    ólívuolía
 • 1 msk    rifinn börkur af sítrónu
 • ½ dl    hökkuð myntublöð
 • ½ dl    fínt hakkaður laukur
 • 1 msk    ferskt rósmarín (ef notað er þurrt rósmarín er nóg að hafa ½ msk)
 • 1 msk    salt
 • 1 tsk    hvítur pipar

Þessu er öllu blandað vel saman og svart­fuglsbringurnar, t.d. af lunda, langvíu eða stuttvíu, látnar liggja í leginum. Fyrst í 3 tíma við stofuhita og svo í 12 – 24 tíma í ísskáp. Síðan má glóðarsteikja bringurnar á grilli eða á pönnu. Nauðsynlegt er þó að þær séu rétt aðeins rauðar. Þessi kryddlögur dregur allt lýsisbragð úr kjötinu og gefur því einkar gott bragð. Til þess að bragð kjötsins fái notið sín er gott að hafa bragðmikla sósu með.

 

ENGIFERSMJÖRSÓSA

(fyrir 4)

 • 4 msk    smjör
 • 4 msk    rifin engiferrót
 • 1 dl    soja sósa

A    Smjörið er brætt í potti og þegar það er bráðið er engiferinn settur í pottin.
B     Setjið því næst soja sósuna í pottinn og látið sósuna sjóða við vægan hita í 10 mínútur.
Þetta er bragðmikil sósa og sé hún höfð með svartfuglinum er ágætt að hafa soðnar hrísgrjónanúðlur með eða soðin hrísgrjón.

Share the Post:

Related Posts

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More