Um veiðar á hreindýrum, lífvænleika hreindýrskálfa og stjórnun hreindýrastofnsins.

Ole Anton Bieltvedt skrifar í Morgunblaðið 29.júlí um hreindýraveiðar og þá sérstaklega um veiðar á hreindýrskúm og dýraníð veiðimanna. Ole Anton er annt og umhugað um velferð dýra og er það vel.SKOTVÍS setur velferð dýra og siðfræði veiða í forgang í sínu fræðslustarfi og stefnumótun. Þessi málaflokkur er því skotveiðimönnum hugleikinn.

Það örlar þó á misskilningi í greininni sem við teljum rétt að benda á. Kálfarnir eru ekki 8 vikna við upphaf veiða og særð dýr sem eru felld eru á veiðitíma er dýravelferð en ekki dýraníð.

Miðburður nefnist það er helmingur hreinkúa tveggja ára og eldri er borinn. Miðburður ræðst að miklu leyti af tímasetningu fengitíma sem aftur ræðst af ástandi kúnna á haustin (Reimers 1989). Árið 2005 var miðburður kúa á Vestur-Öræfum 13. maí t.d.

Júní og júlí telja saman 61 dag og ef bætt er 9 dögum maí (sem er lokaburðartími kálfa að öllu jöfnu) þá eru dagarnir um 70 sem gera 10 vikur.

Fyrstu 10 daga veiðitímans eru um 80-100 kýr felldar svo langstærstur hluti kvótans er felldur þegar kálfarnir eru fullra 12 vikna. Með hlýnandi loftslagi hefur burðartími kúa færst framar á vorið og á sínum tíma var það metið svo að 10 vikna kálfar væru orðnir sjálfbærir og því óþarfi að fella þá með kúnum. Ekkert hefur komið fram sem bendir til annars.

Hreindýraveiðimenn vilja fella bráðina á sem sársaukaminnstan hátt og án þess að valda öðrum dýrum í hjörðinni óþarfa röskun. Því barðist SKOTVÍS fyrir því að heimilt er nú að nota hljóðdeyfa við veiðar. Með slíkri notkun verður hjörðin mun rólegri og minnst truflun verður af veiðunum.

Ef dýr særist við veiðarnar þá kappkosta veiðimenn og leiðsögumenn þeirra að fella dýrið hið fyrsta. Líklega er Ole að vísa til þeirra dýra þegar hann talar um “gömul skotsár” hjá 30 dýrum.

Einnig eru dýr felld sem hafa flækt sig í vír eða slasast á annan hátt og ekki er hægt að bjarga. Þetta fellur seint undir dýraníð. Það dylst engum að Ole er andstæðingu allra veiða og ber ég virðingu fyrir slíkum sjónarmiður, en rétt skal vera rétt og það að snúa út úr opinberum tölum er ekki málefnalegt og ekki ásættanlegt að bera slíkar rangfærslur ítrekað á borð til að afla sínum skoðunum fylgi. Svona málflutningur skaðar einungis hans málstað til langframa.

SKOTVÍS hefur varað við að stytta virkan veiðitíma því þá er hætta á að daglegt álag á einstakar hjarðir verði of mikið. Þegar talað er um virkan veiðitíma þá er ekki saman að jafna tveimur fyrstu vikum ágúst og tveimur síðustu vikum september vegna minnkandi dagsbirtu. Stækkandi kvótar á takmörkuðum veiðitíma kalla líka á að dýrin fái ekki næga hvíld til að nærast. Það hlýtur að vera kappsmál að dýrin fái örugglega næði til að hvílast og beita sér.

Áhrif hreindýra á beitarland hafa verið nokkuð skoðuð. Þau nærast 50-70% á svipaðri fæðu og sauðfé. En þau eru sérstaklega viðkvæm fyrir sinni eigin ofbeit þar sem þau nærast mikið á fléttum sem eru mjög seinvaxnar tegundir. Því er það þekkt að hreindýrastofnar geta hrunið þegar slíkt ástand skapast. Til að halda stofninum utan marka ofbeitar er veitt úr honum árlega að fengnum tillögum Náttúrustofu Austurlands og Hreindýraráð fjallar síðan um. Tillögur um kvóta berast síðan ráðherra frá Umhverfisstofnun. Ferlið er vandað og ítarlegt og ákvörðun um veiðar og kvóta eru ekki úr lausu lofti gripnar. SKOTVÍS ber fullt traust til þessa ferlis og styður ákvörðun ráðherra.

Að lokum bendi ég á texta um hreindýr sem birtist á bls 194 í skýrslu sem unnin var fyrir umhverfis og auðlindaráðuneytið og kom út 2013.

“Ekki er kveðið á um verndun hreindýra í þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og hafðir voru til hliðsjónar við vinnu nefndarinnar. Hins vegar eru hreindýr framandi tegund í íslenskri náttúru sem gæti orðiðágeng vegna beitaráhrifa ef stofninum er ekki stjórnað. Samkvæmt samningnum um líffræðilega fjölbreytni ber því skylda til að tryggja að hreindýrastofninn verði ekki svo stór að hann valdi tjóni, fyrst og fremst á gróðri.”

Nýlega var í fréttum hungurdauði 200 hreindýra á Svalbarða en það er þekkt að hreindýrin geta fallið í stórum stíl ef hjörðin er of stór fyrir beitarlandið.

Líklega vill Ole Anton ekki að hreindýrum fjölgi svo stjórnlaust á Íslandi að þau verði hungri að bráð eins og hlutskipti hreindýranna á Svalbarða urðu?

Kannski er betra að stjórna hreindýrastofninum innan núverandi kerfis öllum til hagsbóta.

*Höfundur er líffræðingur, fyrrum Veiðistjóri og formaður SKOTVÍS.*

 

Share the Post:

Related Posts

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More