Um framtíð skotveiða

“Þá er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi.”

Ofangreint slagorð SKOTVÍS fangar vel þau grunngildi sem siðareglur félagsins byggja á. Dýravernd, náttúruvernd, almenn fræðsla, virðing og góð nýting bráðar eru meginþema þeirra.

Í haust fagnar SKOTVÍS 40 ára afmæli sínu sem framvörður skotveiðimanna á Íslandi. Frá upphafi hefur félagið haft siðareglur sínar í öndvegi og stuðlað að bættri skotveiðimenningu. Árlega kemur út SKOTVÍS blaðið og á afmælinu í haust þann 23. september mun blaðið koma út veglegra en nokkru sinni.

En hver verður framtíð skotveiða á Íslandi? Hvar og hvað verður leyft að veiða og verður yfirhöfuð leyfilegt að veiða?
Fyrir okkur skotveiðimenn er vert að velta þessum spurningum upp. Aðstæður í samfélaginu hafa breyst hratt síðustu ár sem og viðhorf almennings og stjórnvalda til skotveiða. Það viðhorf ræðst af mörgum þáttum, en þeir mikilvægustu eru án efa flutningur fólks úr dreifbýli í þéttbýli. Rannsóknir í Svíþjóð og USA sýna fram á að viðhorf til skotveiða verður neikvæðara með hverri kynslóð sem elst upp í þéttbýli og hafa minni tengsl við náttúruna. Þráðurinn við náttúruna og sjálfbæra lifnaðarhætti er að slitna.

Skýrt dæmi um þessa þróun er teiknimyndin um Bamba sem kom út 1942. Stórmerkileg mynd sem var fyrsta teiknimyndin sem teiknuð var í þrívídd og naut mikilla vinsælda. Dýrin voru persónugerð, öll voru þau vinir en veiðimaðurinn vondur. Þegar Bambi fæðist er sviðsetningin eins og úr biblíunni, hann er í miðju með öll dýrin í kring og faðirinn lengra í burtu, uppi á hæð og horfir á. Frelsarinn er fæddur. Sú augljósa staðreynd að náttúran er grimm, dýr éta önnur dýr lifandi og rífa á hol er óralangt í burtu frá þessum Disney veruleika.

Afleiðingin varð mikil andstaða við dádýraveiðar í USA og mikið dró úr veiðunum. Dádýrunum fjölgaði hratt eftir það og í dag er þetta stórt vandamál á vegum. Um 1.200.000 tilvik eru skráð árlega þar sem árekstur verður á milli dádýra og farartækja og um 200 manns láta lífið í þessum árekstrum. Árlega er um 3 milljarða USD eytt í aðgerðir til að koma í veg fyrir eða draga úr þessum skaða. Kaldhæðnin í þessu öllu saman er sú staðreynd að bókin um Bamba er skrifuð af austurrískum veiðimanni sem vildi sýna fram á sjálfbærni veiða og veiðimanninn sem hluta af náttúrulegri hringrás.

Mig langar að biðja alla veiðimenn um að hafa í huga að það svigrúm sem veiðimenn höfðu fyrir aðeins fáeinum árum var umtalsvert meira en við búum við í dag.

Það er einhvern veginn þannig að nánast allar breytingar sem gerðar eru á veiðilöggjöf, reglugerðum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á skotveiðar eru í sömu áttina, þ.e. að minnka, stytta, draga úr og hefta aðgengi.

Við skotveiðimenn höfum í þessum efnum sýnt ótrúlegt langlundargeð og látið breytingarnar yfir okkur ganga án mikilla mótmæla með þá von í brjósti að einn daginn breytist umræðan og skilningurinn aukist. Að þegar talað er af stolti um veiðimannasamfélagið Ísland, sem byggði upp velferðarsamfélag með öflugum sjávarútvegi byggt á fiskveiðum, þá muni menn eftir því að í landinu er ekki síður merkileg hefð og saga tengd skotveiðum. Því þegar forfeður okkar drógu björg í bú leituðu þeir ekki bara á sjóinn, heldur líka í móa, mela, hlíðar og fjöll þar sem þeir skutu, háfuðu eða einfaldlega smöluðu saman fuglum sem nýttir voru til matar.

Það skiptir okkur sem samfélag máli að sú hefð og þekking sem veiðimenn búa yfir hverfi ekki, því þar með myndi skilningur okkur á því hver við vorum og hvaðan við komum minnka til muna.

Nú liggja fyrir hugmyndir um stofnun miðhálendisþjóðgarðs og endurskoðun á löggjöf um veiðistjórnun ásamt endurskoðun á skotvopnalöggjöf.
Það er ljóst að þörfin fyrir SKOTVÍS sem hagsmunasamtök veiðimanna hefur aldrei verið meiri og sú þörf á aðeins eftir að vaxa.

Veiðimenn verða að opna sig og taka virkari þátt í umræðunni. Ef við tölum ekki okkar máli og verjum rétt okkar mun enginn gera það, framtíð skotveiða er í okkar höndum. Gangið í SKOTVÍS.

Share the Post:

Related Posts

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More