Rjúpnaspeki, áttaviti fyrir veiðimenn. Pistill 4 – Fyrirkomulag veiða og áhrif

Það minnkar sem af er tekið” og það á við um rjúpnastofninn eins og annað og umræðan um áhrif veiða er ekki bara mikilvæg, heldur nauðsynleg. Enn mikilvægara er að veiðimenn séu meðvitaðir og virkir í umræðunni um áhrif veiða og taki frumkvæði í nauðsynlegum aðgerðum ef rjúpnastofninum stafar hætta af rangri framkvæmd veiða eða öðrum þáttum.

 

Í fyrri pistlum var farið yfir hvernig samspil heildarvetraraffalla og nýliðunar stjórna leitni stofnstærðarsveiflunnar og hvernig vendipunktar breytast með lækkandi nýliðun. Á undanförnum áratug (síðan 2005) hefur mynstur heildarvetraraffalla tekið miklum breytingum, afföllin hafa heilt yfir lækkað og samkvæmt vöktunargögnum hefur ekki orðið vart við “dæmigerða niðursveiflu” frá friðunarárunum 2003/2004. Þvert á móti, má með hefðbundunum skilgreiningum á uppsveiflu/niðursveiflu færa rök fyrir því að rjúpnastofninn hafi búið við nánast samfellda uppsveiflu frá árinu 2007. Sumarafföll hafa hinsvegar aukist talsvert á sama tíma og framkallað 20% rýrnun í nýliðun sem hafa breytt eðli sveiflnanna og komið í veg fyrir myndarlegar uppsveiflur.

 

Menn hafa í rúma öld spurt sig hver áhrif veiða séu á rjúpnastofninn og að hve miklu leiti veiðar og annað afrán stýrir nýliðun, afföllum og sveiflum. Í þessum pistli er leitast við að leita svara við þeirri spurningu, áfram á grundvelli aðgengilegra gagna.

Nýliðun í hópi veiðimanna

Árlega bætast við um 6-700 nýir einstaklingar sem öðlast réttindi til veiða með kaupum á veiðikorti, en endurnýja þarf veiðikortið árlega. Ólíkt því sem margir halda, hefur fjöldi veiðikortahafa engu að síður staðið í stað (rúmlega 11.000) síðan veiðikortakerfið var tekið upp árið 1995. Það sama á við um þann hóp veiðikortahafa sem stundar rjúpnaveiðar, en tæpur helmingur veiðikortahafa gengur til rjúpna (mynd 16) og fer fækkandi og hafa aldrei verið færri frá 1995. Af mynd 16 má sjá að þriðjungur veiðikortahafa skráir enga veiði eða skilar engum skýrslum, en þeir sem ekki skila skýrslum fá ekki veiðikortið endurnýjað.

Mynd 16: Myndritið sýnir að fjöldi veiðikortahafa stendur nánast í sömu tölu 2016 og árið 1995. Stórt hlutfall veiðikortahafa skráir enga veiði (1/3) og fjöldi rjúpnaveiðimanna fer fækkandi með árunum.

Þessar háa velta í gegnum veiðikortakerfið þykir benda til þess að stór hluti þeirra sem öðlast réttindi til veiða endast ekki til langframa, því sami fjöldi virðist hellast úr lestinni á einhverju stigi. Til samanburðar má benda á að síðan 1995 hefur íslendingum fjölgað úr 270.000 í 350.000 (tæp 30% aukning), meðan fjöldi virkra skotveiðimanna hefur haldist í stað, en fækkað hlutfallslega, eða úr 4,5% í 3,4%.

 

Fróðlegt væri að leita skýringa á þessu, en ein tilgátan er sú að samfélagslegar breytingar á s.l. tveimur áratugum hafi breyst þ.a. frítíma er ráðstafað með öðrum hætti en áður tíðkaðist. Á mynd 17 má sjá aldursdreifingu veiðikortahafa árin 1995 annarsvegar og 2014 hinsvegar (með tæplega 20 ára millibili), sem sýnir að meðalaldur veiðikortahafa hefur færst ofar á þeim rúmu tveimur áratugum sem veiðikortakerfið hefur verið við lýði.

 

Þeirri tilgátu hefur verið varpað fram að nýir veiðikortahafar á árum áður hafi verið í betri aðstöðu til að öðlast nægilega veiðireynslu og fengið þannig hvatningu til að halda áfram ástundun veiða, meðan nýrri árgangar búa við meiri takmarkanir (fjöldi veiðidaga og aðgengi að veiðilendum), öðlast minni reynslu og ílengjast því síður í skotveiðum.

Mynd 17: Myndritið ber saman aldursdreifingu veiðikortahafa með tæplega 20 ára millibili. Miðgildi ársins 1995 er 38 ára (meðaltal 40 ára), en miðgildið hefur færst til um 8 ár og er 46 ára (meðaltal 46 ára) fyrir árið 2014. Þegar aldursdreifing 1995 er skoðuð, má sjá að tiltölulega mikil nýliðun hafi átt sér stað á árunum fyrir 1995 meðal yngri veiðimanna.

Nýliðun meðal kvenna hefur hinsvegar aukist mikið á þessu sama tímabili, en fjöldi þeirra sem taka veiðikortanámskeiðið hefur vaxið úr 3% í 11% og mun hlutfall kvenna í hópi veiðikortahafa vonandi einnig aukast í kjölfarið.

 

Þetta er aðeins tvö dæmi um hvernig megi nota gögn UST til að átta sig á samsetningu veiðikortahafa og rannsaka hvernig samfélagslegar breytingar hafa áhrif á hegðun og samsetningu veiðimanna, en víða er farið að taka tillit til slíkra þátta við veiðistjórnun.

 

Mikilvægt er að árétta að þessi gögn eru ekki persónurekjanleg!

Afföll vegna veiða

Bein afföll (heildarveiði) vegna veiða er nokkuð þekkt stærð og hefur verið síðan veiðikortakerfið var tekið upp 1995 og veiðimenn hófu að skrá feng sinn hjá embætti veiðistjóra, sjá mynd 5 í pistli 1. Árið 2002 var einnig tekin upp skráning sóknardaga.

 

Fram til 2003 hafði ekki mikið verið hróflað við fyrirkomulagi veiða, en í kjölfar friðunaráranna 2003/2004 var farið í róttækar breytingar á framkvæmd þeirrra. Ekki var einungis fækkað veiðidögum (mynd 18 a/b), heldur var einnig ýmislegt reynt með dreifingu þessarra daga (fríhelgar, 3ja daga helgar, 2ja daga helgar o.s.frv.), auk þess sem veiðitímabilinu var seinkað mismikið og sölubann var innleitt.

Mynd 18a/b: Myndritin sýna breytingar á fjölda daga og veiðitímabilum. Frá árinu 2007 var byrjað að brjóta upp samfellda veiðidaga, þ.a. eingöngu var leyfilegt að veiða ákveðna daga og gerðar voru tilraunir með fríhelgar (árin 2011 og 2012). Dagur 180 frá upphafi rjúpnaárs (20. apríl) markar 15. október og farið var að seinka veiðitímabilinu um 1-2 vikur.

Frá 2005 hafa því verið gerðar margar athyglisverðar tilraunir með fyrirkomulag veiða, en merkilegustu niðurstöðurnar úr þessum tilraunum voru einkum tvær, sem sjá má á mynd 19:

  1. Afföll vegna veiða hafa síðan 2005 lengstaf verið undir 10% af hauststofni (nóv) óháð stofnstærð (mynd 19, rauð lína), meðan veiðiafföllin voru á bilinu 20-30% fyrir þann tíma, lækkandi hlutfall með stærri stofni (mynd 19, blá lína).
  2. Breytingar á leyfilegum dagafjölda til veiða (9-47 dagar) hefur engin áhrif haft á veiðiafföll, sem eru rétt undir 10% af hauststofni óháð fjölda leyfilegra veiðidaga. Erfiðara er að fullyrða um hvort óhætt sé að fjölga dögum umfram 47 og hverfa aftur til fyrirkomulags fyrir 2005, þar sem gögn vantar til að styðja slíkar tilgátur. Um þetta er ítarlegri grein í tölublaði 2013 Tímaritsins SKOTVÍS sem lesendum er bent á að kynna sér.
Mynd 19: Myndritið ber saman samband veiðiaffalla og stofnstærðar fyrir (blátt) og eftir (rautt) 2003/2004.

Þar sem fækkun veiðidaga skýra ekki lægri veiðiafföll, er talið að skýringa sé helst að leita í öðrum breytingum sem gerðar voru samhliða dagabreytingunum, en þá var einnig neðagreindum úrræðum beitt:

  • Sölubann til að draga úr atvinnuveiðum.
  • Samfelldir leyfilegir veiðidagar brotnir upp.
  • 1-2 vikna seinkun á upphafi veiðitíma (frá 15. október).

 

Með ofangreindum úrræðum voru hvatar fyrir ástundun “atvinnuveiða” í upphafi veiðitímabils fjarlægðir, einmitt á þeim tíma (frá 15. október) þegar fuglinn er hvað mest í hópum. Ekki var lengur mögulegt að stunda samfelldar veiðar á fjarlægum veiðslóðum, auk þess sem sölubann komi í veg fyrir sölu á fugli. Ekki er heldur ólíklegt að seinkun veiðitímans um 1-2 vikur hafi gert veiðar óskilvirkari þar sem fuglinn er farinn að dreifast meira undir lok október, þ.e. færri fuglar á hvern sóknardag (mynd 21).

 

Ráðstöfun frítíma veiðimanna hefur einnig verið að breytast síðan 1981 með þeim hætti að veiðimenn virðast ráðstafa að meðaltali 4 dögum til veiða óháð fjölda leyfilegra veiðidaga í stað 7-11 áður (mynd 20).

Mynd 20: Myndritið ber saman fjölda sóknardaga á veiðimann í áranna rás. ATH: gagnasafnið frá árunum 1971-1985 byggir á talsvert færri veiðimönnum (20), meðan nýrra gagnasafn er talsvert stærra (1700).
Mynd 21: Myndritið ber saman meðaldagsveiði á veiðimann í áranna rás. ATH: gagnasafnið frá árunum 1971-1985 byggir á talsvert færri veiðimönnum (20), meðan nýrra gagnasafn er talsvert stærra (1700).

Svo virðist sem blanda af ofangreindum aðgerðum og breytt ráðstöfun frítíma hafi haft meiri áhrif á sókn og veiðiafföll en beinn niðurskurður á fjölda veiðidaga. Ofangreind stjórntæki sem og breyting á hegðun veiðimanna hafi virkað betur en fækkun veiðidaga til að ná veiðum niður um a.m.k. 50% og sýna neytendakannanir að uppgefnar veiðitölur eru í góðu samræmi við neyslukannanir sem gerðar eru á vegum UST.

 

Allar þessar aðgerðir (nema fækkun daga) skila sér í lægri veiðiafföllum og  þar með lækkun heildarvetraraffalla (mynd 11a í pistli 3), en að hvaða marki? Lækkuð veiðiafföll færast ekki óskipt til varpstofns næsta vors, stór hluti þessarra affalla hefði orðið óháð veiðum. Mynd 22 útskýrir ágætlega hver áhrif veiða eru á varpstofn næsta árs, en hún byggir á þeirri nálgun að sé ákveðið hlutfall hauststofnsins numið burt (með veiðum), megi gera ráð fyrir því að sá hluti (veiðin) hefði hlotið sömu örlög og eftirlifandi stofn fram að vori, hefði ekki verið veitt, þ.e. orðið fyrir álíka afföllum. Þannig hefðu 10% veiðiafföll af hauststofni samsvarað 10% minnkun varpstofns næsta vors hefði ekki verið veitt.

Mynd 22: Myndritið sýnir heildarvetrarafföll hjá báðum aldurshópum og hvernig varpstofn að vori fengi viðbót væri ekki veitt. Af þessu sést að m.v. 10% veiðiafföll (af hauststofni), þá rýrnar varpstofn sem nemur því hlutfalli en ekki þeirri heildarveiði.

Mynd 23 sýnir svo hversu stór hluti heildarvetraraffalla má heimfæra beint á veiðar m.v. ofangreindar forsendur og hversu nálægt veiðarnar færa heildarvetrarafföllin að umpólunarmörkunum sem rætt var um í pistli 3 (mynd 15).

Mynd 23: Myndritið sýnir hvernig þáttur veiða af heildarvetrarafföllum breytist með veiðiálagi í uppsveiflu og niðursveiflu. Punktalínan sýnir hvernig þessi mynd breytist þegar ungahlutfallið lækkar úr 80% í 75%. M.v. núverandi veiðiálag er framlag veiða til heildaraffalla í uppsveiflu 2.3% af 90% og í niðursveiflu 1.1% af 80%.

Þegar veiðiafföll lækkuðu um 15 prósentustig við aðgerðirnar í kjölfar friðunaráranna (úr 25% í 10%), höfðu þau áhrif til lækkunar heildarvetraraffalla 1.árs fugls sem nemur lækkun úr 3.3% í 1.1% í niðursveiflu (2.2 prósentustig) og lækkun úr 7.0% í 2.3% í uppsveiflu (4.7 prósentustig).

 

Áhrifa 2.2-4.7 prósentustiga lækkunar í heildarvetrarafföllum ætti að gæta í vöktunargögnum (mynd 15), en kanna þyrfti betur hvort sú sé raunin. Hafa verður í huga að veiðihlutfall er stærð sem annarsvegar er metin útfrá heildarveiðitölum og hinsvegar áætlaðri stofnstærð útfrá vöktunargögnum. Öll skekkja í áætlaðri stofnstærð hefur því áhrif á veiðihlutfallið og ef margföldunarstuðullinn sem getið er um í pistli 2 er of lágur, hefur það áhrif á útreikning heildarstofns til lækkunar, sem aftur hefur áhrif á hlutfall veiða til hækkunar, sem aftur ýkir áhrif veiða.

 

Mynd 24 er uppfærð útgáfa af mynd 15 þar sem búið er að bæta við gagnaseríu sem sýnir sviðsmynd af heildarvetrarafföllum séu engar veiðar stundaðar (grænir punktar).

Mynd 24: Myndritið sýnir glöggt hversu lítil áhrif núverandi veiðar (ca. 10% af hauststofni síðan 2005) hafa á sveiflur rjúpnastofnsins. Veiðar hafa engin áhrif á leitni sveiflunnar þar sem heildarvetrarafföll með og án veiða eru ávallt sömu megin vendipunktar. Séu veiðar auknar að því marki sem var stundað fyrir friðunarárin 2003/2004, eykst munurinn. Sá munur ætti þó að vera í lagi svo framarlega sem nýliðunin fari aftur í fyrra horf.

Veiðistjórnun hefur í gegnum tíðina byggt á þeirri hugmyndafræði að veiðimenn gangi oftar til rjúpnaveiða hafi þeir til þess fleiri daga og veiði þar af leiðandi fleiri rjúpur. Ofangreind greining styður ekki þessa tilgátu. Það eru hinsvegar aðrir þættir en stytting veiðitíma sem eru líklegri til að ná tilætluðum árangri í veiðistjórnun og hafa gert s.s. sölubann. Breytingar í samfélagsgerð veiðimanna og breyttur hvati til veiða spila líka stóra rullu í breyttu landslagi veiðanna.

Því er lagt til að haga veiðistjórnun í samræmi við aukna þekkingu á þessu sviði og að veiðistjórnun hugi betur að orsökum og afleiðingum lægri nýliðunar (aukin sumarafföll) sem er meginorsök rjúpnaþurrðar undanfarin áratug.

 

Í næsta pistli verður farið yfir hvernig megi nálgast áhrif annarra afræningja, þ.e. fálka og refs.

Share the Post:

Related Posts

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More