Í pistli 1 var undirstrikað mikilvægi þess að veiðimenn afli sér þekkingar á eðli stofnstærðarbreytinga rjúpnastofnsins. Birt voru tvö myndrit þar sem samband varpstofns og hauststofns var útskýrt í grófum dráttum og sjá má að stofninn rís og hnígur með reglulegu millibili (óreglulegu í seinni tíð).
Þessi einfalda framsetning á ástandi rjúpnastofnsins er þó engan vegin nægjanleg til að fóðra nauðsynlega umræðu um eðli stofnstærðarbreytinga og áhrifaþætti breytinganna. Nauðsynlegt er að rýna betur undir yfirborðið.
Í þessum pistli verður farið yfir hvernig gögnin verða til og í hvaða tilgangi, þ.e. vöktunarplanið sem hefur verið framkvæmt með sama hætti síðan 1981. Vöktunaráætlunin miðar að því að afla gagna með skilvirkum hætti um þætti sem nægja til að varpa ljósi á stofnstærðarbreytingar milli ára, þ.e. stofnstærð, ungahlutföll, sumarafföll, vetrarafföl, nýliðun, afrán o.s.frv. … breytur sem hafa mikið upplýsingagildi.
Vöktunin fer fram með margvíslegum hætti og eru eftirfarandi tímapunktar mikilvægir fyrir vöktunaráætlunina:
-
- 20. apríl – 20. maí Karratalning og aldursgreining (1.árs fuglar / eldri)
- Júlí/Ágúst Ungatalning (ungar/hænu)
- Nóvember Aldursgreining innsendra vængja frá veiðimönnum
“Rjúpnaárið” hefst 20. apríl ár hvert, en um það leiti sest karrinn upp, er mjög sýnilegur að morgni og kveldi og því auðvelt að telja á þeim tíma. Talið er á rúmlega 40 skilgreindum talningarsvæðum (reitatalning, vegsnið, göngusnið) víða um land, en flest svæðanna hafa verið talin samfellt í mörg ár, sumhver í áratugi. Lagt hefur verið upp með að viðhalda sama fyrirkomulagi milli ára í þeim tilgangi að gera hverskyns samanburð mögulegan og því er nálguninni ekki breytt nema að mjög vel athuguðu máli. Áhugasömum er bent á árlega fréttatilkynningu NÍ um niðurstöður talningana , þar sem fram koma talningastaðir og helstu niðurstöður.
Fyrirkomulag karratalningar að vori hefur stundum sætt gagnrýni á þeirri forsendu að til séu betri aðferðir, t.d. að betra sé að nota hunda til að finna fleiri rjúpur, en hér er mikilvægt að hafa í huga að tilgangurinn er ekki sá að finna sem flestar rjúpur, heldur að viðhalda stöðugri aðferð sem getur mælt marktækan mun milli ára, þar sem búið er að taka burt sem flestar breytur, s.s. með því að telja alltaf á sama svæði við sömu skilyrði, sama árstíma, sama tíma dags, eftir sömu ferlum og helst með sama mannskap. Þessi aðferð hefur gefist vel og tryggt að gögnin sem safnast saman séu samanburðarhæf milli ára.
Félagmenn SKOTVÍS hafa tekið virkan þátt í þessum talningum um árabil og hafa haft umsjón með talningarsvæðinu í Fitjárdal síðan 2006 auk svæðis við Þingvelli. Með þátttöku í talningum gefst félagsmönnum tækifæri til að kynnast þessari aðferðafræði betur og vonandi munu fleiri félagsmenn taka þátt í þessu starfi þegar fram líða stundir.
Rétt er að halda til haga að þó talið sé á rúmlega 40 svæðum eru eingöngu talningagögn frá norðausturlandi lögð til grundvallar við stofnmatið, enda er þéttleiki varpstofnsins þéttastur í þeim landshluta og helsta útúngunarstöð rjúpunnar og mikil þekking sem hefur safnast upp um það svæði. Þessi nálgun er einnig útskýrð með þeim rökum að stofnþróun er nægilega lík milli landshluta til að halda líkanagerðinni einfaldari. Önnur svæði eru fyrst og fremst notuð til að sannreyna hvernig mismunandi landshlutar koma út úr talningum til samanburðar og sannreyna þessa forsendu.
Ungahlutföll (hlutfall 1.árs fugls) er afar mikilvæg breyta við meta tímasetningu vetraraffalla, sumarafföll (júni/ágúst) og vetrarafföll (ágúst-apríl). Þar sem rjúpan er mjög skammlífur fugl (3-4 ár), er stofninum skipt upp í tvo aldurshópa, 1.árs fugl annars vegar og eldri fugl hinsvegar.
- Fyrsti tímapunktur ungahlutfallsmælingar er gert um mánaðarmótin júlí/ágúst, en þá er norðausturland og suðvesturland talið og fjöldi unga með hverri hænu talið (mynd 6) og ungahlutfall á varppar reiknað (mynd 7, heil græn lina). Tímgunarhlutfall rjúpunnar er almennt mjög hátt (90-95%) og eru ungalausar hænur teknar með í þetta meðaltal. Síðsumartalningin gefur því mynd af varpárangrinum (mynd 6) sem skiptir miklu máli fyrir margföldun varpstofnsins yfir í hauststofninn.
- Annar tímapunktur ungahlutfallsmælingar er framkvæmdur á veiðitíma, en þá er gerð aldursgreining á innsendum vængjasýnum úr afla veiðimanna (október/nóvember) (mynd 7, brotin appelsínugul lína).
- Þriðji tímapunktur ungahlutfallsmælingar er framkvæmdur samhliða karratalningunni árið efir (mynd 9, rauð punktalína). Mat á ungahlutfalli að vori er afar erfitt og tímafrekt í framkvæmd og því eingöngu framkvæmt á norðausturlandi af reyndu talningarfólki, og suðvesturlandi til samanburðar. Þúsundir ljósmynda í hárri upplausn eru teknar af körrum og þeir aldursgreindir út frá vængjum fuglanna, auk þess sem hræ eru aldursgreind.
Eins og sjá má á mynd 6 hefur varpárangri hrakað og á mynd 7 (heil græn lína) sést að lengst af hefur ungahlutfallið verið i kringum 80% en hefur lækkað umtalsvert frá árinu 2005. Eðlilegt er að stöku sumur fari illa vegna veðuraðstæðna, en samfelldur viðkomubrestur hefur afgerandi áhrif á margföldunaráhrifin yfir í hauststofninn (sérstaklega yfir lengri tíma) og svo aftur á varpstofninn árið eftir.
Á mynd 7 sést hvernig ungahlutfallið lækkar og tekur meiri sveiflum þegar líða tekur á “Rjúpnaárið”. Uppistaða stofnsins í sumarlok er um 75-80% 1.árs fugl og sé ungahlutfall þessarra þriggja tímapunkta borið saman fyrir hvert ár má sjá að lítill munur er á ungahlutfalli síðsumars og framyfir veiðitíma, sem gefur til kynna að afföll 1.árs fuglsins eru ekki mikil umfram eldri fuglinn, þ.e. 1.árs fuglinn er ekki að hríðfalla umfram eldri fuglinn á þessu tímabili. Mikil breyting verður hinsvegar á ungahlutfallinu eftir að veiðitíma lýkur og fram á vor (desember-apríl), sem staðfestir að mestu afföllin í stofninum (uppistaðan er 1.árs fugl) verða á þessu tímabili.
Þessi framsetning kollvarpar hugmyndum sem oft hefur verið haldið fram um að 1.árs fuglinn verði að jafnaði fyrir talsvert meiri afföllum en eldri fugl á frá sumri fram að veiðitíma. Ef mikil afföll eiga sér stað á þessu tímabili, þurfa þau að eiga sér stað samtímis hjá báðum aldurshópum.
Með hlutfallaútreikningi á aldurshlutföllum og mismun karratalninga milli ára má reikna vetrarafföll mismunandi aldurshópa (mynd 8) frá árinu áður. Ekki verður farið í þessa útreikningar hér, en áhugasömum er bent á eftirfarandi heimildir:
- Fjölrit NÍ 39 – Vöktun rjúpnastofnsins, ÓKN 1999
- Fjölrit NÍ 47 – Vöktun rjúpnastofnsins 1999-2003, ÓKN, JB, KM 2004
Þó meira fari fyrir öfgum í afföllum eldri fugls í seinni tíð (mynd 8, blá lína), þá eru vetrarafföll 1.árs fugls (mynd 8, rauð lína) megindrifkraftur stofnsveiflna af þeirri einföldu ástæðu að afföllin eru ávallt hærri í þeim aldurshópi, auk þess sem sá aldurshópur telur 80% hauststofnsins .
Margar kenningar eru uppi um ástæður hárra affalla hjá báðum aldurshópum, en nýlegar rannsóknir á vegum NÍ benda til mikillar fylgni milli heilbrigðisástands rjúpunnar í október og þeirra affalla sem stofninn verður svo fyrir á tímabilinu desember-apríl. Því virðist nokkuð líklegt að heilbrigðisþættir séu helstu orsakavaldar sveiflna hjá stofninum (uppistaðan er 1.árs fugl, 75-80%). Afrán, þ.á.m. veiðar er ekki beinn sveifluvaldur líkt og heilbrigðisþættir, en hefur hinsvegar áhrif á mögnun/dempun sveiflna og getur fært til þann punkt þar sem umpólun úr niðursveiflu í uppsveiflu á sér stað og öfugt. Það er umhugsunarvert þegar litið er til þess hversu litlar breytingar á vetrarafföllum þarf til hjá 1.árs fuglinum til að uppsveifla snúist i niðursveiflu og öfugt. Nánar verður fjallað um þetta atriði í næsta pistli og farið verður dýpra í eðli sveiflanna, þ.e. sveifluvakann (vetrarafföllin) og sveiflumögnunina (nýliðun/afföll) og hvernig samband þessarra breyta hafa áhrif á sveiflurnar.
SAMANTEKT:
- 1.árs fugl er uppistaðan í hauststofninum, hefur verið um 80% á árunum 1981-2004, en hefur farið lækkandi síðan 2005.
- Afföll 1.árs fugls eru hærri en hjá eldri fugli.
- Vetrarafföll skýrast líklega af heilbrigðisþáttum sem eru mælanlegir snemma að hausti (október).
- Vetrarafföll 1.árs fugls stýra leitni sveiflunnar.
- Mestu vetrarafföllin hjá 1.árs fugli eiga ser stað a tímabilinu desember-april.
- Varpárangur/sumarafföll og afrán hafa áhrif á mögnun/dempun sveiflunnar.