Rjúpnaspeki, áttaviti fyrir veiðimenn. Pistill 3, Sveifluvakinn, samband affalla og nýliðunar

Lífshlaup rjúpunnar er markað lágum lífslíkum þar sem náttúruleg öfl valda háum afföllum og ólíklegt er að rjúpan nái meiri en 3-4 ára aldri. Sveiflukennd vetrarafföll 1. árs fugls (77% hauststofnsins síðan 2005) er helsti drifkraftur stofnstærðarsveiflna og lifir engin rjúpa fulla sveiflu með bæði “hámörkum” og “lágmörkum”.

Afföll eldri fugla hafa tekið meiri sveiflum síðan 2003 en áratugina þar á undan og vetrarafföll beggja aldurshópa veturinn 2017/2018 hafa aldrei mælst lægri síðan vöktun hófst árið 1981.

Eins og gefið var í skyn í inngangi þessa pistils, drífa vetrarafföll 1.árs fugls öðrum þáttum fremur áfram sveiflurnar og reglulega verður vending í afföllum. Við vendinguna breytist jafnvægið milli vetraraffalla og nýliðunar sem veldur breytingum á leitni sveiflunnar. Í niðursveiflu hættir nýliðunin að halda í við vetrarafföllin og í uppsveiflu eru vetrarafföllin lægri en nýliðunin. Á myndum 9 og 10 má sjá hvernig þessir útreikningar hafa verið útfærðir í aðdragana 1986 hámarksins og við vendinguna í kjölfarið.

Mynd 9: Myndritið sýnir hvernig rjúpnastofn stækkar þegar “réttu skilyrðin” eru fyrir hendi (t.d. aðdragandi 1986 hámarksins). Meðalafföll 1.árs fugls voru að meðaltali 80% og nýliðunin um 8.3 ungar/hænu í sex ár samfellt. Á hverju ári varð því góð hlutfallsleg aukning – ATH. 1986 hámarkið var hærra vegna betri skilyrða en meðaltal 6 áranna (tæp 1.5 milljón fugla).
Mynd 10: Myndritið sýnir hvernig rjúpnastofn minnkar þegar umpólun í vetrarafföllum á sér stað. Meðalafföll voru að meðaltali 89/62% og nýliðunin um 8.1 ungar/hænu í sex ár samfellt. Á hverju ári varð hlutfallsleg fækkun þar til botni var náð 1992.

Í gegnum tíðina hafa vendingar í vetrarafföllum 1.árs fugls verið megindrifkraftur sveiflubreytinga í rjúpnastofninum og sést vel á myndum 11a og 11b hvernig vetrarafföll þessa aldurshóps tekur stökkbreytingum með reglulegu millibili. Vetrarafföllin taka ekki smáum árlegum breytingum milli hámarka og lágmarka, heldur er eitthvað sem veldur snöggum breytingum sem keyrir stofninn upp og niður, en þessar vendingar eru háðar jafnvægi milli vetraraffalla og nýliðunar. Þetta mynstur gefur því sterka vísbendingu um tímasetningu á upphafi og lokum uppsveiflu/niðursveiflu.

Mynd 11a / 11b: Myndritin sýna greinilegar vendingar í vetrarafföllum 1.árs fugls fyrstu tvo áratugina, en myndin verður ekki eins skörp yfir eftir það. Athyglisvert er að skoða tímabilið 2007-2017, en líta má á það sem eitt langt uppbyggingartímabil, þar sem vetrarafföllin eru nánast öll í lægri kantinum með örfáum undantekningum – ATH. í þessarri túlkun eru ekki litið á einstök frávik sem upphaf sveiflubreytinga.

Á myndum 11a/11b er miðað við að vending eigi sér stað við 85% mörkin (afföll 1.árs fugls) og afföll haldist öðru hvoru megin við þessi vendimörk í nokkur samfelld ár meðan sveiflan líður hjá og leitni hennar breytist. Gert er ráð fyrir að einstök ár breyti ekki leitni stefnunnar fyrr en þau eru orðin samliggjandi 2 ár eða fleiri. Af myndum 11a/11b sést að skilin eru greinileg fram til 1998 hámarksins, þegar þetta mynstur verður ógreinilegra. Má með þessarri nálgun álykta sem svo að í raun hafi átt sér stað samfelld 11 ára uppsveifla (með tveimur ósamliggjandi undanteknignum). Uppsveiflan hafi í raun staðið tvöfalt lengur en í aðdraganda 1986 hámarksins og með álíka lágum meðalafföllum yfir allt þetta tímabil (79% m.v. 80% í aðdraganda 1986 hámarksins). Maður skyldi því ætla að 1986 hámarkinu skyldi náð fyrir alllöngu … og haldið áfram að slá ný met! En málin hafa flækst í seinni tíð, kerfislægar breytingar hafa átt sér stað sem hafa hægt á uppsveiflum og breytt vendimörkunum!

Í pistli 2 var minnst á þá þróun að nýliðun hafi farið hrakandi (sjá mynd 6) og ef vendimörkin á mynd 11b er notuð til viðmiðunar fyrir útreikning á meðalvarpárangri í aðdraganda hámarka og lágmarka má mun greinilegra hversu mikil sumarafföllin hafa aukist samellt síðan 2003 lægðinni lauk (mynd 12), eða úr 8.3 ungum/hænu í 6.6 ungum/hænu … eða um rúmlega 20%!

Mynd 12: Myndritin sýna greinilegar breytingar á nýliðun til lækkunar.

Þó vetrarafföll séu nú á pari við aðdragana 1986 hámarksins, þá skekkist jafnvægi affalla og nýliðunar þegar nýliðunin versnar sem þessu nemur og vendimörkin lækka, þ.e. lægri afföll þarf til að venda leitni sveiflunnar (mynd 13).

Mynd 13: Myndritið sýnir hvar vendimörkin liggja hjá 1.árs fuglinum þegar nýliðunin (ungar/hænu) er borin saman við vetrarafföll 1.árs fugls. ATH: Eldri fugl er um 25% af hauststofni og eru afföll hans öllu jafna lægri og hafa einhver áhrif á raunmyndina.

Af þessu sést að hærri afföll kalla á sterkari nýliðun og því lækka vendimörkin fyrir vetrarafföllin þegar nýliðunin veikist, m.ö.o. þarf lægri afföll til að snúa stofninum í niðursveiflu og þessi mörk hafa síðan 1986 lækkað úr 86% afföllum í 82% þar sem nýliðunin hefur lækkað úr 8,3 ungum/hænu í 6,6 unga/hænu. Á mynd 14 má sjá hversu nálægt meðalvetrarafföllin eru vendimörkum í aðdraganda hámarka/lágmarka.

Mynd 14: Myndritið sýnir vendimörkin, þ.e. þau mörk affalla sem stuðla að sveiflubreytingum þegar búið er að taka tillit til styrks nýliðunarinnar. Af þessu sést að aðdragandinn að hámarki 2018 hefur verið hægur, enda meðalafföllinn rétt undir vendimörkum. Vöxturinn var mun hraðari í aðdraganda 1986, 1998 og 2005.

Af mynd 14 sést að þó vetrarafföllin á tímabilinu 2008-2018 hafa verið lág í sögulegu samhengi, þá dugar það ekki til vegna lélegs varpárangurs og slakrar nýliðunar. Þegar þetta tímabil er skoðað nánar og vendimörkin reiknuð nákvæmar, sést að sveiflurnar taka breytingum, verða reglulegar en styttri. Mynd 15 er endurgerð og nákvæmari en mynd 14.

Mynd 15: Myndritið sýnir afstöðu vetraraffalla m.v. vendimörk (reiknuð útfrá nýliðun). Eftir því sem vetrarafföllin eru fjær vendimörkunum, þess öflugri verður mögnun/dempun sveiflunar, t.d. fyrir vetrarafföll veturinn 2017/2018.

Það er nokkuð ljóst að hærri afföll kalla á sterkari nýliðun og því lækka vendimörkin fyrir vetrarafföllin þegar nýliðunin veikist, m.ö.o. það þarf lægri afföll til að snúa stofninum í niðursveiflu og þessi mörk hafa síðan 1986 lækkað úr 86% afföllum í 82% þar sem nýliðunin hefur lækkað úr 8,3 ungum/hænu í 6,6 unga/hænu … eða sem nemur 4 prósentustigum í heildarvetrarafföllum og munar um minna.

Eins og sjá má, er hægt að lesa ýmislegt útúr vöktunargögnum, en í næsta pistli verður farið yfir hvernig megi meta áhrif veiða á rjúpnastofninn.

Share the Post:

Related Posts

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More