Rjúpnaspeki. Áttaviti fyrir veiðimenn. Pistill 1, byrjunarreitur

Nýafstaðnar karratalningar gefa tilefni til bjartsýni fyrir rjúpnaveiðina á komandi hausti, varpstofninn er í ágætu standi og er við það að ná þeim hæðum sem gjarnan er horft til í samanburði milli ára. Rjúpnaumræðan á það til að snúast um samanburð við “gömlu tímana” og um væntingar að einhvern tíman muni stofninn ná sér á það strik, annaðhvort af sjálfsdáðum eða með einhverskonar aðgerðum. Stundum er horft til stofnhámarksins 1955 þegar stofninn er sagður í sögulegu hámarki, en sú kynslóð veiðimanna sem upplifði stofnhámarkið 1986 minnist þess tíma einnig með söknuði, nóg var af rjúpu (hauststofn um 1,5 milljónir fugla), leyfilegt að veiða 69 daga (15. október – 22. desember) og litlar hömlur á veiðunum.

En hversu raunhæfar eru væntingar þeirra sem láta sig málið varða, hvaða forsendur er miðað við og eru þær byggðar á skilningi og innsýn í eðli þeirra breytinga sem stofninn hefur tekið síðan 1955, hvaða þættir hafa þar mest áhrif og með hvaða hætti mætti breyta til að ná settum og raunhæfum markmiðum?

Samanburðarhæfar talningar hófust árið 1981, fyrsta hauststofnahámarkið í þeirri talningaröð var árið 1986 (1,5 milljónir fugla) sem síðan hafa farið lækkandi (1998: 1.0 milljónir fugla; 2005: 800.000 fuglar) og í ár stefnir í að stofninn geti orðið rúm 1 milljón fugla (m.v. varpárangur sumarsins verði 6,6 ungar/hænu). Samkvæmt reglugerð hefur 12 daga veiðitímabili verið úthlutað í ár (26. október – 18. nóvember) sem eru fáir dagar m.v. fyrri tíma og um fátt eitt er rætt meira en dagafjöldann og hvort eða hvernig veiðar hafa áhrif á rjúpnastofninn. Inní þessa umræðu blandast margir þættir sem nauðsynlegt er að kunna skil á til að geta tekið virkan þátt í nauðsynlegri umræðu um veiðistjórnun almennt og hvernig skuli haga rjúpnaveiðum m.v. stöðu stofnsins hverju sinni.

Djúp gjá er á milli þeirra sem vilja takmarka veiðarnar enn frekar, jafnvel banna og þeirra sem telja að þáttur veiða sé veigaminni en haldið er fram, jafnvel engin. Raunveruleikinn er að öllum líkindum einhverstaðar þarna á milli og uppi eru margar tilgátur sem því miður eru of fáar studdar gögnum sem þó er nóg af, þökk sé fjárframlagi veiðimanna til vöktunar- og rannsóknaverkerfa í gegnum veiðikortakerfið.

Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) hefur haft veg og vanda að gagnasöfnun í gegnum vöktunaráætlunina og önnur rjúpnatengd verkefni (t.d. heilbrigðisrannsóknir), Umhverfisstofnun (UST) hefur svo haldið utanum gagnaöflun um veiðina sjálfa (veiðitölur eftir landshlutum og fjöldi sóknardaga). Upplýsingagildi gagnanna er þó talsvert meira en nýtt hefur verið í umræðunni til þessa, sem hefur skort breidd og mörgum steinum þarf að velta við eins og lesendur munu komast að. Veiðimenn sjálfir hafa fram til þessa ekki nýtt sér þessi gögn í málflutningi sínum nema að takmörkuðu leiti, enda er framsetning og túlkun þeirra upplýsinga sem gögnin framkalla engan vegin einföld og galopin fyrir túlkunum í sumum tilfellum.

Í sinni einföldustu mynd byggir umræðan á línuritum þeim sem sjá má á Mynd 1 og Mynd 2, þ.e. þar sem álykta má hversu varpstofninn er stór að vori og hvernig hauststofninn lítur út þegar tekið hefur verið tillit til nýliðunarinnar yfir sumarið.

Mynd 1: Myndritið sýnir niðurstöður árlegra karratalninga, þ.e. mat á stærð varpstofnsins yfir landið allt. Gildin taka í raun einungis mið af talningum á norðausturlandi, sem eru helstu varpstöðvar rjúpunnar, sem er síðan margfaldað með stuðli fyrir allt landið.
Mynd 2: Myndritið sýnir reiknaðan hauststofn í nóvember fyrir allt landið þegar búið er að taka inní niðurstöður ungatalningar í júlí/ágúst. Einungis gildi af norðausturlandi eru notuð við útreikningana sjálfa, sem síðan eru “extrapoleruð” yfir landið, líkt og gert er fyrir útreikning á varpstofn að vori. Ferillinn er í grunninn eins útlítandi og fyrir varpstofninn, en magnast og dofnar í takt við varpárangur (unga/hænu), t.d. árin 1989 og 1991 er ungahlutfall talsvert hærra en í meðalári og lyfta upp hauststofninn. Öfugt gerist svo t.d. árið 2011, þegar ungahlutfall er undir meðallagi og dregur hauststofninn niður.
Mynd 2: Myndritið sýnir reiknaðan hauststofn í nóvember fyrir allt landið þegar búið er að taka inní niðurstöður ungatalningar í júlí/ágúst. Einungis gildi af norðausturlandi eru notuð við útreikningana sjálfa, sem síðan eru “extrapoleruð” yfir landið, líkt og gert er fyrir útreikning á varpstofn að vori. Ferillinn er í grunninn eins útlítandi og fyrir varpstofninn, en magnast og dofnar í takt við varpárangur (unga/hænu), t.d. árin 1989 og 1991 er ungahlutfall talsvert hærra en í meðalári og lyfta upp hauststofninn. Öfugt gerist svo t.d. árið 2011, þegar ungahlutfall er undir meðallagi og dregur hauststofninn niður. 

Af þessum myndum sést að bæði varpstofn og hauststofn hafa í gegnum tíðina átt nokkuð í land að ná fyrri hæðum (1986), hámörkin hafa lækkað meðan botnarnir virðast stöðugir, en í ár eru ágætar líkur á að stofninn rjúfi 1 milljón fugla múrinn sem þykja stórfréttir miðað við það sem á undan er gengið. Undir yfirborði þessarar einföldu framsetningar er hinsvegar flókin atburðarás sem stýrir stofnstærðinni og séu gögnin rýnd kemur ýmislegt gagnlegt í ljós sem mun hafa áhrif á hvernig umræðan um ástand rjúpnastofninn og framkvæmd veiðanna (veiðistjórnunin) mun þróast á næstu árum.

Ekki verður hjá því komist að blanda fjölda leyfilegra veiðidaga, fyrirkomulagi veiðitímabila og heildarveiði inn í þessa umræðu. Mynd 3, 4, 5 sýna hvernig fjöldi veiðidaga hefur breyst , hvernig veiðitímabilum hefur verið stýrt og tölulegt yfirlit yfir heildarveiðina sem þetta fyrirkomulag hefur skilað í gegnum árin (þar sem gögn eru aðgengileg).

Mynd 3: Myndritið sýnir hvernig fjöldi leyfilegra veiðidaga hefur tekið breytingum á s.l. 150 árum. Á fyrri hluta þessa tímabils er ólíklegt að rjúpnaveiðar hafi verið stundaðar allan ársins hring, sérstaklega þar sem rjúpan var aðallega veidd til útflutnings og þurfti að vera í hvítum ham þegar hún var seld. Einnig er líklegt að veiðitími hafi tekið mið af því hvenær skip sigldu frá Íslandi. Bent er á að fjöldi veiðidaga innan hvers veiðitímabils náði fram yfir áramót allt til ársins 1920 þegar veiðar voru bannaðar tímabundið og var síðan leyft frá 15. október til 31. Desember (77 dagar) fram til ársins 1954, þegar veiðitíminn var styttur til 22. desember (69 dagar). Frá árinu 2005 hefur veiðitíminn tekið endurteknum breytingum. 
Mynd 4: Myndritið sýnir hvernig veiðitímabil hafa tekið breytingum á s.l. 150 árum, þar sem miðað er við “Rjúpnaárið” sem hefst 20. apríl (dagur 1) og markar veiðilaust tímabil fram á haust. Þá tekur við veiðitímabil, en frá 2007 hefur veiðitímabilið verið brotið upp. Að lokum tekur við veiðilaust tímabil fram að lokum “Rjúpnaársins” 19. apríl. 
Mynd 5: Myndritið sýnir skráðar útflutningstölur annarsvegar og skáðar veiðitölur hinsvegar. Útflutningstölurnar ættu að gefa nokkuð góða mynd af umfangi veiðanna á þessu tímabili og staðfesta einnig eðli stofnbreytinga með reglulegum hámörkum og lágmörkum. Um kvart milljón fugla (250.000) voru veiddar um miðbik annars áratugar síðustu aldar en áætlað er að um 50.000 fuglar hafi veiðst 2017 (skv. síðustu staðfestu tölum). 

Til framtíðar er nauðsynlegt að veiðimenn átti sig á tilgangi, útfærslu og mikilvægi gagnasöfnunarinnar, öðlist skilning á innihaldi gagnanna, framsetningu niðurstaða og ályktana með gagnrýnu hugarfari, geri sig gildandi í umræðunni og sýna fræðimönnum bæði aðhald og stuðning við þeirra mikilvægu vinnu. Málflutningur veiðimanna verður að byggjast á skilningi á fyrirliggjandi gögnum og hvernig þau eru notuð til framsetningar á upplýsingum. Þá aðeins getur þekking veiðimanna nýst til fullnustu séu tilgátur þeirra studdar gögnum og því þurfa veiðimenn að staldra aðeins við og ná áttum áður en lengra er haldið.

Veiðimenn eru komnir lengra í þessarri rýni en menn kunna að halda, en fagráð SKOTVÍS hefur síðan 2011 unnið markvisst að því að varpa ljósi á upplýsingagildi fyrirliggjandi gagna og hefur birt greinar í Tímaritinu SKOTVÍS um niðurstöður sínar (2013 og 2015), þar sem er varpað skýrara ljósi á ástand rjúpnastofnsins og áhrifum vegna veiða. Aukinn skilningur og þekking er að skapast innan SKOTVÍS og á næstu vikum verða birtir vikulegir pistlar sem er aftrakstur þessarar vinnu, um helstu atriði sem veiðimenn nútíðar og framtíðar þurfa að kunna skil á til að skilja til fullnustu grunn umræðunnar sem halda þarf uppi.

Í þessum pistlum verður leitast við að einfalda framsetningu á helstu niðurstöðum fræðimanna og setja túlkanir í samhengi við upplifun veiðimanna, ásamt nokkrum nýjum áhugaverðum og mikilvægum túlkunum sem hafa ekki ratað í sviðsljósið, en mun nú vonandi verða þess valdandi að umræðan um rjúpnastofninn auðgist frekar. Hugmyndin er að skapa forsendur fyrir veiðimenn og aðra áhugasama til að öðlast betri innsýn og yfirsýn yfir málaflokkinn, þeir taki virkari þátt í umræðunni og miðli af reynslu sinni næstu árin með sterkri tilvísun í sömu gögn og NÍ/UST notast við í sinni vinnu.

Áður en lengra er haldið vil ég þakka Ólafi K. Nielsen fyrir aðstoðina í þessu ferli fyrir að góðfúslega láta SKOTVÍS í té þau gögn sem lögð eru til grundvallar í þessum pistlum, fyrir óteljandi samtöl og lærdómsrík skoðanaskipti og sýnda þolinmæði við að útskýra aðferðafræði vöktunarplnasins sem veita svo ómetanlega innsýn inní flókið ferli.

Í næsta pistli verður gefin innsýn í öflun vöktunargagna sem er grunnurinn að frekari umræðu.

Share the Post:

Related Posts

Skotvopnanámskeið

Ríkislögreglustjóri hefur gert samning við SKOTVÍS um að félagið haldi utan um skotvopnanámskeið. Jafnframt hafa SKOTVÍS og UST gert samkomulag um

Read More

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More