Hreindýrahjarta með sveskjum og rjómasósu

Meðal frumbyggja og þjóða sem afkomu sína á veiðum þykja innyfli veiðidýranna hvað ljúffengust til matar.
Best þykir lifrin en einnig er hjartað eftirsótt. Margir veiðimenn nýta ekki hjarta veiðidýranna sem þeir fella. Þeir sem nýta þau skera þau oftast niður í strimla og steikja á pönnu og sjóða síðan.
Í Skandinavíu tíðkast að reykja hjarta hreindýranna eða salta. Hjartað er svo soðið og kælt, skorið niður og notað sem álegg á brauð.
Hjartað er vöðvi sem er í stöðugri notkunn og er því mjög bragðmikið kjöt.
Galdurinn við að matreiða það er sá að það þarf mjög langan suðutíma við vægan hita.
Hér kemur uppskrift að rétti sem er aldeilis frábær þó svo að það taki nokkurn tíma að matreiða hann. Það borgar sig svo sannarlega og þið verðið ekki fyrir vonbrigðum. Þar sem hjörtu hreindýranna eru misstór er uppskriftin ekki nákvæm.

Það sem í réttinn þarf er þetta:
1 hreindýrshjarta
steinlausar sveskjur
smjör
rjómi
rifsberjahlaup
hveiti
salt og pipar

Hreinsið hjartað eins vel og unnt er og skerið æðar og himnur úr því.
Hjartað er nú fyllt með sveskjum og síðan þarf að loka hjartanu. Það má gera með því að binda það saman með bómullarþræði en best er þó að sauma það saman með nál og grófum bómullarþræði.
Hjartað er nú steikt upp úr smjöri og kryddað með salti og pipar. Þá er hitinn lækkaður og 1 -2 dl. af vatni sett í pottinn. Hjartað er nú látið malla í pottinum í 2 1/2 tíma.
Eins og áður sagði þá þarf hitinn að vera vægur og potturinn sem er notaður þarf að vera með þykkum botni. Þá verður af og til að hræra í pottinum og snúa hjartanu. Lok verður að vera á pottinum og ekki má þorna í honum, ef þurfa þykir þá er smjörklípu bætt í pottinn eða aðeins meiru af vatni.
Eftir 2 1/2 tíma er hjartað tekið upp úr pottinum og vafið inn í álpappír og þannig haldið heitu.
Hitinn er nú hækkaður undir pottinum og rjóminn settur í hann. Hrærið vel í sósunni þar til rjóminn fer að þykkna. Þá er sósan þykkt ef þurfa þykir með hveiti. Sósan er síðan bragðbætt með rifsberjahlaupi, salti og pipar.
Hjartað er síðan skorið í sneiðar og borið fram með sósunni, soðnum nýjum kartöflum í hýðinnu eða kartöflumús. Einnig er afar gott að bera fram waldorf-salat með þessum ljúffenga rétti.

Sigmar B. Hauksson

Share the Post:

Related Posts

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More