Heilsteikt villigæs

Margir veiðimenn hafa lent í þeim hremmingum að heilsteikja jólagæsina og bera á borð eða bjóða gestum í mat fullir stolts yfir bráð síðasta veiðitímabils en hafa síðan lent í ólseigum fugli.
Þá hefur ánægjan yfir annars gómsætri villibráð fokið út í veður og vind. Margir kenna því þá um að fuglinn sé of gamall, en þótt aldur hans eigi oft hluta til af sökinni er hann ekki endilega eina ástæðan.
Matreiðsluaðferðin er oftar en ekki þar sem gerir fuglinn seigan. Of hár ofnhiti og of stuttur steikingartími valda því að kjötið þornar of mikið og sinar, t.d. í lærum, skreppa saman og stífna.
Við lægri hita og lengri steikingartíma ná þessar sinar að meyrna og til að koma í veg fyrir þornun má gufusteikja fuglinn og núa haminn með sykri en það kemur í veg fyrir uppgufun úr kjötinu.
Hér á eftir fylgir uppskrift að heilsteiktri gæs upp á gamla mátann.

1 stk. gæs, reytt og sviðin
1 gulrót
2 sellerístönglar
1/2 laukur
5 einiber
1 láviðarlauf
1 stk. rósmarín
2 stk. blóðberg (má nota timian)
1 glas vatn
salt, pipar, sykur

Blandið saman salti, pipar og sykri og núið því í haminn á gæsinni, sem þið setjið síðan í steikingarpott. Þegar gæsin er elduð bráðnar sykurinn og myndar hjúp á hamnum sem varnar uppgufun og kemur í veg fyrir að kjötið þorni.
Grófsaxið gulrótin, selleríið og laukinn og látið það í steikingarpottinn ásamt einiberjunum, láviðarlaufinu, blóðberginu og rósmaríninu.
Hellið því næst vatninu út í og setjið lokið yfir. Steikið við 110° til 115° hita í u.þ.b. 3 tíma. Síðustu 10 mín. er hitinn hækkaður í 180° og lokið tekið af.
Soðið af fuglinum er síðan notað í sósu, sem er þykkt og krydduð eftir smekk hvers og eins. T.d. má bæta í hana gráðosti, rifberjahlaupi, portvíni eða rjóma.

Share the Post:

Related Posts

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More