Svartfugl a la Kína

Fyrir nokkrum árum bað ég kínverskan matreiðslumann, sem starfaði hér á landi um tíma, að matreiða fyrir okkur félagana svartfugl.
Satt best að segja var útkoman ekkert sérstaklega spennandi.
En Kínverjinn gafst ekki upp, hann bað okkur um fleiri bringur og hélt áfram að gera tilraunir.
Viku síðar heimsóttum við hann aftur og þá gaf hann okkur að borða þennan rétt sem var og er frábær, prófið bara sjálf.

Í réttinn þarf:
700 g svartfuglsbringur
1 gulrót skorin í þunnar sneiðar
1/2 kúrbítur (zucchini) skorinn í sneiðar
1/2 blaðlaukur (púrra) skorinn í sneiðar
1 rauð paprika skorin í ca 1×1/2 cm. bita
100 g sveppir skornir í bita
1 msk rifin engiferrót
1 + 2 msk púðursykur
1 dl + 2 msk soyjasósa
matarolía
250 g hrísgrjónanúðlur (Blue Dragon Stir Fry Rice Noodles)

Steikið bringurnar á vel heitri pönnu í 1 1/2 mínútu á hvorri hlið.
Takið þær svo af pönnunni, haldið þeim heitum í volgum ofni (40°C).
Því næst er allt grænmetið, nema sveppirnir, steikt á pönnunni ásamt rifinni engiferrót, 1 msk af púðursykri og 1 dl af soyasósu. Sveppirnir eru steiktir á annarri pönnu og þeim svo blandað saman við grænmetið. Setjið núðlurnar í pott með sjóðandi vatni. Færið þær svo upp úr og látið kalt vatn renna á þær. Klippið síðan núðlurnar niður í 10 cm spotta og blandið þeim saman við grænmetið og sveppina.
Skerið niður svartfuglsbringurnar í 1 cm þykkar sneiðar.
Hitið 2 msk af púðursykri á pönnu, hrærið 2 msk af soyasósu saman við sykurinn. Þegar púðursykurinn er uppleystur eru svartfuglssneiðarnar snöggsteiktar á pönnunni. Sneiðarnar eru svo settar á pönnuna með grænmetinu og hrísgrjónanúðlunum.

Þar með er rétturinn tilbúinn.

Sigmar B. Hauksson

Share the Post:

Related Posts

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More