Á sama tíma að ári (öld)
Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og við séum einskis vísari frá þeim tíma sem skriflegar heimildir af áhyggjum af afdrifum stofnsins fóru að líta dagsins ljós. Þessi umræða var á eldi árið 1898.
„Það er ekkert vafamál, að þessum fuglum er stöðugt að fækka, og að þeir verði gereyddir með tímanum, ef þessari óskynsamlegu drápsaðferð er haldið áfram. Ætti því að friða rjúpuna algerlega í 5 ár eða lengr, og breyta friðunartímanum síðan þannig, að aðeins mætti veiða rjúpur 3 mánuði úr árinu: jan, febr og marz.“ (Fjallkonan, 12. Tölublað (22. Mars 1898) … sjá tímarit.is).
SKOTVÍS hefur kynnt sér flest þau gögn sem til eru um rjúpuna og keyrt saman mismunandi gagnasöfn til að komast til botns í ráðgátunni um áhrif veiða á rjúpnastofninn. Tilgangurinn með þessum skrifum er ekki að þreyta menn með talnaspeki, en miklu fremur að gera tilraun til að setja fram lykilpunkta sem nútíma veiðistjórnun þarf að taka tillit til.
Því skal haldið til haga að Umhverfisstofnun sem fer með tillögugerð að framkvæmd veiða, sem síðar er afgreidd að lokinni (og viðbúinni) pólitískri hreinsun ráðherra, hefur unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir rjúpuna sem mun vonandi líta dagsins ljós sem fyrst. Væntingar eru til þess að sú áætlun skapi grundvöll fyrir veiðistjórnun í anda “Adaptive Wildlife Management” og gefur því sterk fyrirheit um að framtíðarveiðistjórnun snúist um aðlögun aðferða að aðgengilegri þekkingu byggðri á gögnum, en ekki keyrð á klisjukenndri nálgun.
Frá því “Fjallkonan” lagði til friðun rjúpunnar fyrir tæpum 125 árum, hefur leyfilegum veiðidögum fækkað úr 223 (21.ágú – 31.mar) í 22 daga. Þá hafði veiðitíminn skömmu áður (1882) verið styttur úr 365 dögum. Þó slíkur fjöldi daga séu óraunhæfir, þá er engin spurning að nýtilegur veiðitími hefur stórminnkað og ef veiðar hafa þau meintu áhrif sem þeim er ætlað og Fjallkonan vísar í, þá ættu áhrif færri leyfilegra veiðadaga að hafa haft gríðarleg áhrif á rjúpnastofninn.
SKOTVÍS hefur lagt mikla vinnu í að kanna áhrif fjölda leyfilegra veiðidaga á sóknardaga hjá veiðimönnum. Þessum gögnum hefur verið safnað í gegn um veiðikortakerfið auk annarra kannana meðal veiðimanna. Og niðurstaðan er einföld.
“Fjöldi leyfilegra veiðidaga hefur engin áhrif á sókn veiðimanna, sem er í kringum 3,4 dagar”.
Niðurstaða sem allar stofnanir og ráðuneyti hafa staðfest.
Það er aðalfréttin í rúmlega 100 ára veiðistjórnun á rjúpu.
En “Fjallkonan” horfir ekki á fréttir né hlustar á röksemdir.
En hver eru raunveruleg áhrif veiða, það minnkar jú allt sem af er tekið. Veiðimenn tala gjarnan um að náttúruleg afföll séu svo há að veiðar skipti þar litlu sem engu máli, en stenst sú tilgáta skoðun? Auðvitað eru einhverjar rjúpur sem hefðu lifað fram á vor ef veiðum væri sleppt, en hvernig lítur það reikningsdæmi út þegar náttúrulega sveiflan þvælist svona fyrir?
Við þeirri spurningu er í raun einfalt svar.
Ímyndum okkur stofn sem er grisjaður tilviljanakennt að hausti (segjum 10%), óháð kyni, aldri eða öðrum þáttum sem aðgreinir einstaklingana. Eftirlifandi stofn fer svo inn í veturinn og verður fyrir náttúrulegum skakkaföllum sem bitna mismikið á einstaklingunum eftir kyni, aldri ásamt öðrum aðgreinandi þáttum … og eftir stendur varpstofn að vori.
Hver voru áhrif veiðanna? Ef veiðarnar voru “non-selective”, má segja að þær hafi ekki skekkt samsetningu stofnsins sem fer inn í veturinn og því má ætla að varpstofninn rýrni sem nemur grisjunarhlutfallinu að hausti. Óþarfi að flækja þetta frekar í bili.
Spurningin sem þarf að svara er því einföld.
Hversu mikið mega veiðar rýra varpstofn áður en þær hafa “skilgreind áhrif” á sveiflu rjúpnastofnsins?
Stærð stofnsins skiptir engu í þessu samhengi, því hann fylgir náttúrulegum ferlum og veiðarnar hafa frá árinu 2005 rýrt varpstofna um 6-12% (með örfáum undantekningum … ÓHÁÐ stofnstærð og ÓHÁÐ fjölda leyfilegra veiðidaga).
Fyrir árin 2003/2004 var þetta hlutfall 25% að jafnaði (með fáum undantekningum), sem lækkaði við innleiðingu sölubanns og seinkun veiðitímans (ekki fækkun veiðdaga). Rýrnun af völdum veiða er því langt undir náttúrulegum árlegum heildarsveiflum sem eru margfaldar á við rýrnun vegna veiða (yfirleitt á bilinu -50/+50%) … ÓHÁÐ stofnstærð.
Og ef einhver er að velta fyrir sér hvort veiðimönnum sé að fjölga, þá er svarið við þeirri spurningu nei (um 4.500 að meðaltali, og enn færri þegar stofninn er í niðursveiflu) … þessi fjöldi er sá sami og árið 1995, auk þess sem meðalaldur veiðimanna hefur hækkað um 8 ár frá árinu 1995.
Ætli ræða fjallkonununnar hafi breyst við þennan aukna skilning?
Ekki er svo að sjá, gamla handritið er ódauðleg klisja sem japlað er á út í hið óendanlega.
Sú staðreynd að rjúpnastofninum sé að hraka verður samt ekki umflúin, þjóðsagnakenndir sem og sögulegir toppar láta á sér standa … og það sama má segja um veiðarnar, sem hafa einfaldlega fylgt stofnþróun sem orsakast ekki af veiðiálagi heldur náttúrulegum ferlum.
Fíllinn í stofunni er að viðkoman yfir varptímann hefur hrunið, samfellt síðan 2005, sem aftur veldur margvíslegum breytingum á eðli stofnbreytinga (færri samfelld ár í uppsveiflu/niðursveiflu) sem faglega umræðan þarf að taka tillit til.
Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun hafa lagt mikla vinnu í að safna mikilvægum gögnum um rjúpnastofninn og rjúpnaveiðar, nú er kominn tími á að nýta upplýsingarnar úr þessum gögnum og setja raunhæfari markmið sem taka tillit til núverandi stöðu stofnsins og hvaða möguleika núverandi skorður setja honum.
Er raunhæft að stefna á 2 milljónir rjúpna toppi uppsveiflu þegar viðkoman er svona lág? Er raunhæft að safna rjúpum þegar niðursveiflan gengisfellir þann “sparnað” í óðaverðbólgu? Hverju er hægt að stjórna til að hafa áhrif á útkomu?
Umræðan snýst ekki lengur um “helling af rjúpum” og fortíðarþrá. Kerfið hefur aðlagað sig að nýjum aðstæðum og veiðar hafa þar mjög takmörkuð áhrif. Markverðasta veiðistjórnunin fram til þessa var að ná veiðihlutfallinu úr 25% niður í 10% (sölubann , áskorun til veiðimanna um hóflegar veiðar og seinkun veiðitíma), sem reyndist vera nauðsynleg aðgerð til að aðlagast lægri viðkomu yfir sumarið, ástand sem engin skýring hefur enn fundist á.
Umræðan þarf því að taka nýja stefnu og takast á við raunverulegu vandamálin. Sú stefnubreyting þarf að rúmast innan nýrrar stjórnunar- og verndaráætlunar UST, en ekki byggja á 125 ára gamalli ræðu “Fjallkonunnar”.