Mælingar á holdafari rjúpna 2019 – ákall til veiðimanna um aðstoð!

Frá 2006 til 2018 voru í gangi í Þingeyjarsýslum rannsóknir á heilbrigði rjúpunnar og tengslum heilbrigðis fuglanna og stofnbreytinga. Þessar rannsóknir hafa runnið sitt skeið en ætlunin er að halda áfram að meta holdafar fuglanna og það verður hluti af árlegri vöktun rjúpnastofnsins. Rannsóknir á heilbrigði rjúpunnar hafa sýnt skýr tengsl heilbrigðis og stofnbreytinga. Einn af þeim þáttum sem sýnir marktæk tengsl við stofnbreytingar og vetrarafföll er holdafar fuglanna. Holdafar endurspeglar hreysti eða lífvænleika rjúpna í upphafi vetrar. Fullorðnir fuglar eru almennt í betri holdum en ungir fuglar en enginn munur er á kynjum.

Mikill munur er á holdafari á milli ára og sömu breytingar hjá ungum fuglum og fullorðnum (sjá mynd).

Mynd. Holdafar rjúpna í Þingeyjarsýslum 2006 til 2017.

Til að halda áfram þessum mælingum leita ég til veiðimann um aðgang að fuglum sem þeir fella. Ég ætla mér í ár að mæla 100 – 150 fugla úr Þingeyjarsýslum. Fyrsta kastið leita ég eftir aðstoð sunnanmanna sem fara norður til veiða. Ætlun mín er að fá fuglana til mín á Náttúrufræðistofnun í Garðabæ og mæla þá þar. Fuglarnir þurfa að vera þýðir. Það sem ég geri við þá er að taka þrjú stærðarmál (hauslengd, vænglengd og ristarlengd) og vigta þá. Fyrir vigtun þreifa ég sarp og ef fæða er í sarpi þá fjarlægi ég hana með c. 1 cm löngum skurði í gegnum húð á hálsi og tæmi síðan sarpinn með teskeið. Fuglarnir verða geymdir í kæli meðan þeir eru á Náttúrufræðistofnun og að mælingu lokinni komið til síns heima.

Hafi menn áhuga á að taka þátt í þessu verkefni þá er hægt að ná í mig í síma 843 9935 eða í netpósti okn@ni.is.

Með kveðju,

Ólafur K. Nielsen

Share the Post:

Related Posts

Öld Fjallkonunnar

Á sama tíma að ári (öld) Umræðan um rjúpnastofninn, veiðiþol hans, framkvæmd og áhrif veiða er botnfrosin … líkt og

Read More