Heiðagæsastofninn stendur sem fyrr mjög sterkur og taldi hann um hálfa milljón fugla skv. talningum ársins 2019. Íslenski grágæsastofninn náði hins vegar hámarki árið 2011 með 112.000 fuglum. Síðan þá hefur grágæs fækkað og árið 2018 bentu talningar til þess að stofninn væri kominn niður í 58.000 fugla. Árið 2019 rétti stofninn heldur úr kútnum og voru þá taldar 73.000 grágæsir í nóvember, en talningar ársins 2020 benda til þess að nú sé hann um 60.000 fuglar.
Ekki er ljóst hvað veldur þessari fækkun á grágæs, en til að varpa ljósi á málið hefur Ísland tekið höndum saman við nágranna okkar á Bretlandseyjum með aukinni vöktun og nánara samstarfi. Á vormánuðum náðist samkomulag um merkingarátak sem mun vonandi veita frekari upplýsingar. Í þessu ljósi vill Umhverfisstofnun og SKOTVÍS hvetja veiðimenn til að gæta hófs við grágæsaveiðar á meðan gagnasöfnun stendur yfir.