• skotvis@skotvis.is

Brot úr sögu Skotvís

Skotveiðifélag Íslands (SKOTVÍS) var stofnað 23. september árið 1978. Aðdragandi stofnunar félagsins var ærin og margir undirbúningsfundir haldnir og flestir í húsnæði Hafró á Skúlagötu, enda voru fiskifræðingar stofnunarinnar helstu hvatamenn stofnun þess og þar var vagga félagsins fyrstu árin. Menn voru mjög metnaðarfullir í þá daga og hugsað fyrir öllu, en fyrirmynd að lögum félagsins var sótt til nýstofnaðs félags stangaveiðimanna og í smiðju frænda okkar á Norðurlöndum. Strax var farið í það að hanna merki félagsins sem hefur svo sannarlega staðist tímans tönn. Þar er skotmaðurinn sýndur með brugðna byssu til hálfs, standandi í bláu tæru vatni með grænt laufblað sér á hægri hönd. Þetta á að tákna virðingu mannsins fyrir náttúrunni. Formenn félagsins hafa verið þeir:

 • Sólmundur Tr Einarsson
 • Finnur Torfi Hjörleifsson
 • Sverrir Scheving Thorsteinsson
 • Páll Dungal
 • Hallgrímur Marinósson
 • Ólafur Jónsson
 • Bjarni Kristjánsson
 • Ólafur Karvel Pálsson
 • Sigmar B. Hauksson
 • Elvar Árni Lund
 • Dúi J. Landmark
 • Indriði Ragnar Grétarsson
 • Áki Ármann Jónsson (núverandi)

Tilgangur félagsins frá upphafi hefur verið að stuðla að sameiningu skotveiðimanna og áhugamanna um skotveiðar og náttúruvernd og standa vörð um hagsmuni þeirra.

Þessum tilgangi hyggst svo félagið ná með eftirfarandi hætti:

 1. Stuðla að útgáfustarfsemi og almennri fræðslu um málefni, sem snerta skotveiðar, náttúruvernd og almennan fróðleik um dýralíf landsins.
 2. Eiga samvinnu við önnur félög og samtök innlend og erlend, sem hafa málefni tengd áhugamálum skotveiðimann á stefnuskrám sínum.
 3. Stuðla að rannsóknum á og gagnasöfnun um stofna veiðidýra.
 4. Eiga samvinnu við önnur félög og opinbera aðila um setningu laga og reglugerða um almannarétt, náttúruvernd, friðun og veiðar dýra og meðferð skotvopna.
 5. Aðstoða við stofnun landshlutafélaga um skotveiðar og styðja við starfsemi þeirra.
 6. Greiða fyrir aðgangi veiðimanna að veiðilöndum.
 7. Gangast fyrir kynningu og fræðslu fyrir almenning um skotveiðar.
 8. Stuðla að aukinni hagkvæmni innkaupa fyrir félaga.

Svo mörg voru þau orð og svo getur maður spurt hvernig hefur til tekist á þessum rúmlega þremur áratugum. Því er ekki auðsvarað en eitt er víst að félagið er orðið virt sem samtök skotveiðimanna á Íslandi og er tekið mark á okkur í viðleitni félagsins til að bæta umgengni við landið og þjóðina.

Til félagsins er leitað með ýmsar ályktanir og álitsgerðir til hins opinbera og eins um aðstoð til félagsmanna og mörg mál hafa verið í brennidepli. Samt má ekki sofna á verðinum og ávallt verðum við að vera vakandi fyrir rétti okkar og virðingu. Áður voru landréttarmálin í öndvegi og nú eru það þjóðlendumálin sem brenna á okkur. Sífellt verðum við fyrir aðkasti hvað varðar ýmis brot samfara veiðum á umgengni við landið og samskipti við þjóðina. Þar má nefna veiðimennsku hinna vélvæddu sem ekkert er skylt við veiðimennsku, en utanvegaakstur hverskonar á breyttum og óbreyttum jeppum, torfæruhjólum, fjór- eða sexhjólum eða vélsleðum er algjörlega ótækt og ber okkur að vinna gegn því. Eins ætti að taka í hvívetna tillit til annarra sem ferðast um landið og umfram allt að nota réttu byssurnar við veiðarnar. Félagsmönnum og öðrum skotveiðimönnum er uppálagt að rækta með sér góða siði við veiðarnar, en erfitt er að fyrirbyggja að svartir sauðir kunni að skemma fyrir og það er tekið eftir því.

Skotveiðifélag Íslands er framsækið og nútímaleg samtök manna sem vilja nytja íslenska náttúru með virðingu og skila landinu eins ósnortnu og hægt er til komandi kynslóða, en til þess að það megi takast verða allir meðlimir þess að leggjast á plóginn. Skotveiðifélag Íslands býður öllum þeim sem vilja hlíta reglum þess og siðum að gerast meðlimir og leggja starfinu lið og móta framtíð skotveiða á Íslandi.

Wordpress Social Share Plugin powered by Ultimatelysocial