Category: Fréttir

Aðalfundur SKOTVÍS verður 28. febrúar n.k.

Stjórn SKOTVÍS auglýsir aðalfund félagsins, sem verður haldinn þann 28. febrúar n.k. kl 20:00.

Dagskrá og staðsetning verður auglýst nánar er nær dregur.

Samkvæmt lögum félagsins skal kjósa á aðalfundi 3 stjórnarmenn til 2ja ára í senn, og formann og varaformann til eins árs.

Áhugasamir félagsmenn eru hvattir til að senda tilkynningu um framboð sitt til stjórnar á netfangið skotvis@skotvis.is

Við viljum sérstaklega hvetja konur til að gefa kost á sér til stjórnarstarfa.

Fundinum verður streymt beint á FB síðu SKOTVÍS, og stjórn er að vinna að viðbótum við heimasíðuna svo fjarstaddir félagsmenn geti greitt atkvæði á fundinum.

Categories: Fréttir

Öryggi á rjúpnaveiðum frá Safe Travel

Skotveiði er útivist þar sem huga þarf að réttum búnaði og öryggisatriðum, auk þess að sýna ábyrga hegðun vegna skotvopna og ganga vel um landið. Veiðimenn þurfa að kynna sér vel þau svæði sem þeir ætla að fara á, fylgjast vel með veðurspá og og jafnframt athuga hvernig aðstæður, færð og veður hefur verið undanfarna daga.

Athugið að snjóflóðahætta leynist víða til fjalla og langflest snjóflóð fara af stað af manna völdum, þ.e.a.s. fólk á göngu eða skíðum setur þau af stað og lendir oftast sjálft í flóðinu.

Hafa skal eftirfarandi alltaf í huga:

  • Kannaðu vel aðstæður á veiðisvæðinu og fylgstu með veðurspá.
  • Á veturna til fjalla er oft snjóflóðahætta. Haltu þig við flatari svæði.
  • Farðu aldrei einn til veiða og sýndu aðgát ef margir eru við veiðar á svæðinu.
  • Vertu með kort, áttavita og GPS tæki (nóg af auka rafhlöðum) og vertu viss um að þú kunnir að nota það.
  • Vertu með 112 Iceland appið í símanum þínum.
  • Vertu rétt klæddur, nýttu þér útbúnaðarlista og vertu með aukafatnað og nesti sem dugar þér allavega 24 klst lengur en þú ætlar að vera. Lagskiptur fatnaður getur skipt sköpum.
  • Skildu eftir ferðaáætlun hjá einhverjum sem brugðist við ef á þarf að halda t.d. hér á Safetravel.is
  • Vertu með réttan öryggisbúnað s.s. síma (ásamt hleðslubanka fyrir hann eða auka rafhlöðu), neyðarblys, sjúkratösku og annað sem þarf.
  • Veiðitímabilið er takmarkað. Láttu ekki áhuga eða þrýsting ýta þér út í veður eða aðstæður sem gætu skapað þér hættu eingöngu vegna þess að tímabilið er stutt eða því er að ljúka.
  • Kynntu þér siðareglur skotveiðimanna og umgengni um skotvopn t.d. á heimasíðu Skotvís

Categories: Fréttir

Hentistefna eða veiðistjórnun?

Þann 12. September sl. boðaði Náttúrufræðistofnun Íslands til samráðsfundar þar sem farið var yfir ástand rjúpnastofnsins og metin áhrif veiðistjórnunar. Þar kom fram að sjaldan hefur veiðistofn rjúpu verið stærri frá upphafi talninga og mat kynnti NÍ ráðleggingar sínar um að veiða 89.000 rjúpur. Í rökstuðningi NÍ kom fram að ljóst væri eftir að sölubann var sett á rjúpu, að fjöldi veiðidaga skipti ekki lengur máli. Sóknin væri sú sama. Veiðimenn sýndu ábyrgð og stunduðu hóflegar veiðar. Góður samhljómur var á fundinum og engin ágreiningur.
13. september, tæpum sólarhring eftir samráðsfundinn, sendir NÍ svo umhverfisráðherra tillögur sínar og er þá skyndilega komin á þá skoðun að beita skuli varúðarreglu og að veiðiþol rjúpnastofnisn sé nú 67.000 fuglar. Dægursveifla ráðgjafar NÍ er því 22.000 fuglar. Og þrátt fyrir að í greinargerð með ráðgjöf sinni komi skýrt fram að fjöldi veiðidaga hafi engin áhrif á veiðar vill NÍ samt sem áður EKKI leggja til fjölgun veiðidaga.
�Athygli vekur að stofnunin kýs nú að nota ekki gögn um viðkomu rjúpnastofnsins á NA-landi, eins og ætíð, enda gagnasafnið þar miklu stærra og þar af leiðandi áreiðanlegra. Í stað þess ákveður NÍ að breyta til og nota viðkomu frá suðvesturlandi til að reikna út veiðiþolið.. Rökstuðningur NÍ er að sökum slæmrar tíðar á SV-landi í sumar sé rétt að beita varúðarreglu. Að mati SKOTVÍS er hér um hentistefnu en ekki vísindalega veiðistjórnun að ræða. Að beita varúðarreglu þegar ljóst er að veiðstofn rúpu hefur sjaldan verið stærri frá því að markvissar talningar hófust, getur ekki verið trúverðugt. Er réttlætanlegt að beita “varúðarreglu” þegar stofninn er í hámarki og rjúpu fjölgar um allt land? Að mati SKOTVÍS þá er verið að gengisfella varúðaregluna með slíkri hentistefnu.
SKOTVÍS furðar sig á þessari breytingu á aðferðafræði frá fyrri útreikningum varðandi veiðiþolið. Hvað breytist á einum sólarhring? Hvaða nýju gögn komu fram sem ekki voru kynnt á fundinum?
SKOTVÍS hreinlega skilur ekki ráðgjöf NÍ sem lítur framhjá eigin niðurstöðum hvað varðar fjölda veiðdaga.
SKOTVÍS hefur annan skilning á eðli samráðsfunda, þeir eiga að vera vettvangur sátta, upplýsinga og samráðs. NÍ hefur algerlega brugðist trausti skotveiðimanna með þessari framkomu og verður erfitt að vinna það upp aftur.
SKOTVÍS telur talsvert rúm vera fyrir fjölgun veiðidaga en sættir sig við fjölgun á 12 dögum í 18 á þessu hausti. Veiðidagar á rjúpu voru 68 fyrir 2003.
SKOTVÍS minnir á að félagið talaði mjög fyrir núverandi veiðikortakerfi, byrjaði fræðslu fyrir veiðimenn, hefur ávalt haft siðareglur sínar til grundvallar allri veiði og hvatt til hófsamra veiða. SKOTVÍS studdi einnig sölubann á rjúpu dyggilega enda langstærsti þátturinn í núverandi veiðistjórnun á rjúpu.
Þrátt fyrir þessa annmarka á ráðgjöf NÍ hvetur SKOTVÍS veiðimenn til að veiða hóflega nú í haust, ganga vel um veiðislóð, hirða upp notuð skothylki, bæði sín og annara.�Góður skotveiðimaður kynnir sér lög og reglur og siðareglur SKOTVÍS áður en haldið er til veiða, kemur vel fram og er veiðimönnum til sóma.
SKOTVÍS skorar á ráðherra og stjórnvöld að hefja sem fyrst vinnu við stjórnunar-og verndaráætlanir fyrir veiðistofna og sérstaklega rjúpuna.

Categories: Fréttir

SKOTVÍS 40 ára.

SKOTVÍS eru hagsmunasamtök skotveiðimanna og berjast fyrir réttindum hins almenna skotveiðimanns til veiða í náttúru Íslands. Félagsmenn eru rúmlega 4.000 en rúmlega 1.400 eru virkir. Um þessar mundir er félagið 40 ára og laugardaginn 22. september sl. var glæsileg afmælisveisla á Nauthól fyrir alla félagsmenn.  Fyrsta árið er frítt fyrir nýliða í boði HLAÐ. Einnig mun verða dregin út fjögur 10.000- króna úttektirt í Melabúðinni þegar við náum 1.500 virkum félagsmönnum.  Í veislunni héldu formaður SKOTVÍS og umhverfisráðherra ræður og Ari Eldjárn mætti og skaut léttum skotum í allar áttir.

 

 

Margt hefur áunnist á liðnum árum fyrir tilstuðlan SKOTVÍS. Hinn almenni skotveiðimaður getur nú sótt um hreindýraleyfi en ekki er langt síðan að þeim var bara úthlutað til fámenns hóps. Einnig má nú nota hljóðdeyfa við hreindýraveiðar. Námskeið fyrir skotveiðimenn eru nú haldin um allt land sem og skotvopnanámskeið en félagið var einmitt brautryðjandi á þessu sviði. Veiðikortakerfinu var komið á 1995 fyrir tilstuðlan SKOTVÍS sem var grunnur að skráningu á veiðitölum og styrkja til rannsókna á veiðitegundum. Svo mætti lengi telja en hér er stiklað á stóru.

Helstu áskoranir til framtíðar eru endurskoðun á veiðilöggjöfinni, stofnun Þjóðgarðastofnunar og miðhálendisþjóðgarðs. Mikilvægt er að rödd skotveiðimannsins fái þar að hljóma og tekið sé tillit til þeirra sem og annara hópa útisvistarfólks.

Félagið er um þessar mundir að opna skrifstofu í Ármúla 7 og stendur til að vera með skotveiðiskóla, nýta netið meira til kennslu ásamt nýjum kennsluháttum. Einnig hefur mikil vinna verið lögð í það að greina gögn um rjúpnavöktun og rjúpnaveiði og er niðurstaða okkar sú að dagafjöldi á rjúpnaveiðum skipti ekki máli þegar kemur að veiðiálagi. Með sölubanni sem SKOTVÍS barðist fyrir breyttist veiðihegðun það mikið að í bestu árum nær rjúpnaveiði ekki helming af því sem áður var.

Opna þarf betur fyrir heiðagæsaveiði á hálendinu, stofninn er komin í hálfa milljón fugla og ólíðandi að reynt sé að takmarka eða skerða rétt veiðimanna til að sækja í þá tegund.

SKOTVÍS skilgreinir sig sem umhverfis-og náttúruverndarsamtök og hefur hafið samstarf við skotvopnaverslanir og innflytjendur um að mninnka innflutning á haglaskotum sem nota plastforhlöð. Við viljum minnka og helst hætta allri plastnotkun við veiðar. SKOTVÍS hefur einnig sent Fuglavernd uppkast að samningi á milli félaganna þar sem þau skuldbinda sig til að vinna saman að sameiginlegum markmiðum sem eru að vernda búsvæði fugla, votlendi og vernda líffræðilegan fjölbreytileika. Það er nefnilega fleira sem sameinar þessi tvö félög en sundrar.

Félagið hefur staðið fyrir ýmsum siðbótum og má þar nefna átakið “Láttu ekki þitt eftir liggja” þar sem veiðimenn voru hvattir til að hirða upp eftir sig skothylki og forhlöð í náttúrunni bæði eftir sig og aðra. Einnig að taka með allt rusl sem þeir fundu á veiðislóð. Þetta heitir í dag að plokka…

Categories: Fréttir

Hlað greiðir fyrsta félagsgjald nýrra félaga.

Skotvís og Hlað veiðiverslun hafa gert með sér samkomulag um að Hlað bjóði öllum þeim sem ganga í félagið, fyrsta árið frítt. Samningurinn gildir um þá nýja félaga sem ganga í félagið næsta árið.

Ferlið er sjálfvirkt, einungis þarf að skrá sig í félagið hér.

Stjórn Skotvís bindur miklar vonir við þennan samning og færir þeim Hlaðmönnum bestu þakkir fyrir samstarfið.

Framundan eru stór verkefni í hagsmunagæslu fyrir skotveiðimenn og því nauðsynlegt fyrir alla veiðimenn að fylkja sér bak við félagið. Rétturinn til veiða er ekki sjálfgefinn.

Categories: Fréttir

Tilkynning frá stjórn Skotvís

Af tilefni umræðu á Skotveiðispjallinu á Fésbókinni þá vill stjórn Skotvís koma eftirfarandi á framfæri. Samkvæmt úrskurði Forsætisráðuneytis 11.10.2016 þá er óhemilt að selja veiðileyfi til fuglaveiða á þjóðlendum þrátt fyrir að þær séu í afréttareign eða í annarri óbeinni eign. Einnig er óheimilt að hindra för og eða rukka almenning fyrir að keyra þá vegi eða slóða sem liggja að viðkomandi þjóðlendum. En heimilt að er loka vegum/slóðum vegna aurbleytu eða annað og skal það yfir alla ganga sem þurfa um þann veg/slóða. Með t.d skála þá eru þeir eign Upprekstrarfélaga og er þeim í sjálfvald sett hverjum þau leigja. þrátt fyrir viðkomandi skáli sé á miðri þjóðlendu. Í þessu tilviki er um að ræða Víðidalstunguheiði og skal þess getið að hún er að hluta eignalönd og annars vegar þjóðlenda. á Vef óbyggðanefndar er að hægt að sjá nákvæman úrskurð um Víðidalstunguheiði og kort sem sýnir mörkin. Í dag vantar námkvæmari kort sem sýna gps punkta þjóðlendna og eignalanda og hefur Skotvís hafið skoðun á því hvernig er hægt að bæta úr því fyrir veiðimenn. Að þessu sögðu þá hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir íbúa sveitafélaga ef það er farið að takmarka afnot íbúa þess og eða rukka fyrir afnot á svæði sem hefur í áranna rás verið talinn réttur hvers og eins í að afla sér matar í íslenskri náttúru. Hvað kemur næst á að banna berjatínslu í landi sveitafélagsins nema að fólk borgi fyrir það, þetta hlýtur vera sambærilegt og ef um skotveiðar er að ræða ef ekki þá er um grófa mismunun á hópi fólks ræða. En stjórn mun fylgjast með þessu máli .Fyrir hönd stjórn SKOTVÍS. Indriði Ragnar Grétarsson​ formaður Skotvís.

Categories: Fréttir

Fundargerð aðalfundar 2018

Aðalfundur Skotveiðifélag Íslands 2018.

Fundurinn var haldinn að Ofanleiti 2 í Reykjavík og kl. 14.00.

Samkvæmt fundarboði var gert ráð fyrir erindi frá Umhverfisstofnun og að hefðbundin aðalfundarstörf hæfust kl. 14.50. Fulltrúi Umhverfsstofnunar forfallaðist en sýndar voru glærur frá honum sem talað hafði verið yfir.

Eftir sýninguna urðu almennar umræður um Miðhálendisþjóðgarð, en Einar Haralds og Arne Sólmundsson fjölluðu m.a. um ráðstöfun fjár sem veiðimenn leggja til og ætti að nýtast þeim. Um þetta væru UST og SKOTVÍS væru samstíga.

Indriði Grétarsson, formaður SKOTVÍS setti formlegan fund kl. 14.50 og lagði til að Rúnar Bachman yrði kjörinn fundarstjóri. Var hann kjörinn með lófataki.

Gerði hann að tillögu sinni að Ívar Pálsson yrði kjörinn fundarritari. Var hann kjörinn með lófataki.

Fundarstjóri óskaði eftir upplýsingum um hvort einhver hefði athugasemd við fundarboðun eða lögmæti fundar. Engar athugasemdir komu fram og því var gengið til dagskrár.

1. Skýrsla stjórnar

Formaður gerði grein fyrir starfsemi félagsins. Störf hefðu verið með hefðbundnu sniði. Formaður fór á fund hjá Nordisk Jægersamvirke og FACE. Gerði hann stuttlega grein fyrir því og m.a. hversu pólitískt starfið væri. Mikil áhersla væri á tengslanet inn í stjórnmálaflokka. Þróun erlendis væri samvinnu á víðari grundvelli milli ólíkra aðila og samtaka. Norðurlöndin væru t.d. að vinna saman að skotvopnalöggjöf. Samstarf væri á milli bogveiði og skotvopnasamtaka. Mörg skotveiðifélög væru í samstarfi við fuglaverndarsamtök. Eftir ferðina hafi verið settur á stofn vinnuhópur um hin ýmsu mál sem vinna þurfti að hagsmunum félagsins. Haldinn var fundur um málin með þessum aðilum. M.a var rætt um samstarf við fuglavernd og um veiðistjórnun. Mikli vinna hafi farið fram við nýtt félagakerfi. Mikil umræða hafi verið um friðun svartfugls. Félagið hafi tekið undir sjónarmið um friðun tiltekinna tegunda. Um sumarið hafi komið upp umræða um þjóðlendur og eignarlönd m.a. í Vestur-Húnavatnssýslu. Samstarf við fuglavernd hafi farið af stað með fundum og tölvupóstsamskiptum. Skotvís blaðið kom út en dreifing þess mistókst og enn hafi ekki verið greitt úr því. Ráðstefna um veiðistjórnun hafi farið fram í haust. Mikil samleið virtist með skoðunum SKOTVÍS og Umhverfisstofnunar. Mörg verkefni séu framundan t.d. hvað varðar veiðistjórnun, skotvopnalög o.fl. Samningur hefur verið gerður við Loftmyndir um að sýna mörk eignarlanda en stefnt hefur verið að því um langa hríð. Félögum hefur fjölgað og telur formaður það m.a. að þakka sýnileika á veiðikortanámskeiðum. Formaður hefur starfað í 6 ár fyrir hönd félagsins en mun ekki gefa kost á sér aftur. Þakkar hann traust og samstarf á liðnum árum.

Nokkrar umræður urðu um skýrslu stjórnar. Ívar Pálsson spurði m.a. um samninginn við Loftmyndir þ.e. hvað fælist í honum. Formaður svaraði því til að ætlunin væri að skrá með nákvæmum hætti mörk þjóðlendna og eignarlanda. Ekki væri ákveðið hvernig aðgangi yrði stýrt.

2. Ársreikningar

Gjaldkeri gerði grein fyrir ársreikningi. Meðal annar kom fram að félagsmönnum hafi fjölgað 1070 í um 1300. Rekstartap væri upp á kr. 227.703- fyrir utan fjármagnsliði en upp á kr. 58.644 eftir fjármagnsliði. Eignir félagsins næmu kr. 6.853.991-. Fram kom að skoðunarmenn hefðu ekki skrifað undir reikninginn eigin hendi en báðir staðfest hann munnlega. Annar skoðunarmaðurinn var á fundinum og staðfesti þetta. Skoðunarmenn myndu skrifa undir við heimkomu annars þeirra sem staddur var erlendis.

Spurt var um styrk til SKOTREYNAR. Skotreyn sótti um kr. 3.000.000,- Stjórn ákvað að styrkja félagið um kr. 1.500.000- enda yrði ekki veittur sérstakur styrkur til félagsins næstu þrjú árin þ.e. 2017 -2019. Styrkurinn var vegna ýmissa framkvæmda. Nokkrar umræður urðu um þetta m.a. farið yfir söguna í samstarfi félaganna.

Gjaldkeri vakti athygli á að samstarfssamningur SKOTVÍS og Skotreyn rynni út á árinu.

Arne spurði um hvernig stjórn liti á þetta samstarf. Vinna hefði verið lögð í að skoða þetta samstarf. Kjarninn væri öflun félagsmanna. Stjórn hlynnt samstarfinu. Nokkrar umræður urðu um þetta.

Elvar Árni óskað stjórn til hamingju með að félagmenn hefði líklega ekki verið fleiri. Taldi mikilvægt að halda í samstarfið við Skotreyn.

Arne spurði um greiðsluna til Sögunefndarinnar (greiðsla til aðila sem ráðinn var til að rita sögu SKOTVÍS að fjárhæð kr. 1.000.000) hvort það væri einskiptisgreiðsla. Indriði gerði grein fyrir. Ívar og Sólmundur fóru yfir stöðuna. Bíður ákv. stjórnar að taka ákv. frekari greiðslur og fjárhagsáætlun sem sögunefndin hefur lagt til. Fundarmenn tóku undir að mikilvægt væri að ljúka ritun sögunnar. Dúi tók undir það hjá Ívari og Sólmundi að mikilvægt væri að klára að rita söguna. Hvernig staðið væri að útgáfu væri svo sérstakt mál.

Ársreikningurinn var borinn upp til samþykktar og var samþykktur með lófataki.

3. Tillaga að lagabreytingu

Svohljóðandi lagabreyting var kynnt með fundarboði og liggur fyrir fundinum til afgreiðslu:

Við 7. gr. bætist svohljóðandi málsliður:

“Formanni skal greidd þóknun fyrir starf sitt sem ákveðin skal á aðalfundi.”

Í samræmi við breytingu á 7. gr. er lagt til að bætt verði við nýjum málslið sem yrði nr. 5 við 13. gr. sem yrði svohljóðandi og númer annarra töluliða 13. gr. breytast til samræmis:

„5. Ákvörðun um þóknun formanns.“

Greinargerð með tillögu stjórnar: Rætt hefur verið um að ráða félaginu á ný framkvæmdastjóra eða starfsmann enda mikið af verkefnum framundan. Tillaga stjórnar er að í stað þess taki formaður að sér það hlutverk og fá þá greitt fyrir starf sitt sem formaður.

Formaður gerði grein fyrir tillögunni um greiðslur til formanns. Mikilvægt að taka á þessu því ekki lengur sem sjálfsögðum hlut að menn gæfu vinnu sína því mikil vinna væri hjá formanni á vinnutíma. Ívari Pálssyni hafi verið fenginn til að orða tillöguna. Stjórn vildi varpa þessu fram til umræðu og skoðunar.

Elvar, spurði um hvort skoðað hefði verið hvernig önnur félög gerðu þetta. Formaður svaraði því til að þetta væri á ýmsan hátt.

Arne tók undir að það væri ekki spurning um að tímarnir væru breyttir. Verkefnin þess eðlis að kallaði á starfsmann. Spurning um þessa eðlisbreytingu. Taldi að koma þyrfti skýrar fram hjá stjórn hvert er stefnt væri t.d. með aðra stjórnarmenn. Eru talsverðar rekstarlegar forsendur fyrir félagið. Hvað með tekjur á móti?

Frank, spurði um hvað væri verið að hugsa um í fjárhæð og hvort gert væri ráð fyrir að aðrir fengju greitt?

Formaðu gerði grein fyrir því að stjórnin hefði viljað taka upp þessa umræðu en upphæð hefði ekki rædd. Vissulega mætti ræða um aðra líka.

Ívar fór yfir að hann hefði talið að rétt væri að gerð yrði lagbreyting ef það ætti að gera þetta þar sem um væri að ræða grundvallarbreytingu frá því sem verið hefði. Hann hefði orðað tillöguna en ekki lagt mat á forsendur hennar.

Dúi fór yfir hugmynd um þetta þ.e. að stofna starfshóp sem hann hafði áður varpaði fram til strategíunefndar Skotvís. Las hann upp hugleiðingar sínar um þetta sem hann hafði sent hópnum. Taldi þetta skipta öllu máli til að endurnýja félagið og til að koma í veg fyrir „stofnhrun“ í félaginu en félagsmenn væru flestir á miðjum aldri og eldri. Fjárhagur félagsins standi hins vegar ekki undir þessu eins og það er í dag. Hefndargjöf að borga hluta því þá verði gerðar kröfur sem erfitt sé fyrir formann að standa undir. Verður að afla teknanna fyrst.

Dúi lagði fram svohljóðandibreytingartillögu:

Legg til frestun á afgreiðslu tillögunnar og henni vísað til stjórnar til frekari úrvinnslu.

Jón Þór, tók undir með Dúa. Telur nálgunina of þrönga. Mögulega betra að hafa starfsmann því annars útilokar það mögulega ýmsa starfsmenn.

Einar Haraldsson, tók undir með Dúa en vill ekki að leiði til frestunar um ár.

Dúi, ef ráðinn yrði starfsmaður gæti það mögulega verið betra að greiðslur færu til hans en stjórnar.

Elvar, ekkert í lögum sem bannar slíkar greiðslur. Mál leysa með því að vísa tillögu til stjórnar.

Frank, óljóst hvað menn vinna. Leggur til að fenginn verði aðili til að vinna að stefnumótun í þessu.

Sólmundur, heppilegra að leita til aðila að utan þ.e. sérfræðinga.

Hjörtur: Heppilegra að ráðinn starfsmaður en að hluti stjórnar fái greitt. Á að ráða inn tímabundna sérfræðinga eftir þörfum.

Jón Víðir: Það var starfsmaður. Hver er munurinn og hver var reynslan af því. Sniðugt að skoða í því samhengi.

Arne, tekur undir allt sem Elvar sagði. Ræddi um fjárhagsáætlun, kannski betra að leggja meiri áherslu á fjárhagsáætlun. Þegar hann var í stjórn var leitað til verktaka og það heppnaðist vel.

ÍP fór aðeins yfir forsögu þess að setja í lög.

Áki, vildi koma á framfæri að hann bæri kannski einhverja ábyrgð á því að mikið liggi við. Verður að fá starfsmann nú á þessu ári því margt sé framundan. Er of seint á næsta ári. Farið hafi verið á leit við hann að hann tæki að sér formennsku. Hann væri sjálfstætt starfandi og erfitt yrði fyrir hann að ýta verkefnum til hliðar án þess að fá eitthvað greitt t.d. kr. 100.000 á mánuði. Sett hafi verið fé í sögu SKOTVÍS og til Skotreynar án þess að ákv. á aðalfundi. Ekki sé hægt að bíða.

Elvar, nýmæli að greitt fyrir stjórn en ekki nýmæli að greitt sé fyrir vinnu. Ekki ástæða til að breyta lögum. Greitt fyrir ýmislegt en ekki lobbyisma. Hugsanlegt að greitt hafi verið fyrir fundi þegar stjórnvöld hættu að greiða. Nú eru allir fundir á dagvinnutíma. Sjálfsagt að stjórnin móti tillögu sem lögð verði fyrir félagsfund.

Arne, telur rétt að engan tíma megi missa. Var búinn að semja ályktun. Ekki breyta lögum en fundurinn verður að ákveða. Fundurinn hefur heimild til að setja fjármuni í þetta. Rétt hjá Áka að það þurfi að byrja strax.

Indriði tekur undir það sem að framan er rakið og lagði áherslu á að stjórn hefði viljað fá umræður um málið.

Arne lagði fram svohljóðandi tillögu:

„Ályktun aðalfundar SKOTVÍS 2018, laugardaginn 3. febrúar 2018.

Aðalfundur er sammála túlkun fráfarandi stjórnar að nauðsynlegt sé fyrir stjórn að hafa svigrúm til að inna af hendi greiðslur til stjórnarmanna sem taka að sér ákveðin og skilgreind verkefni fyrir hönd félagsins. Aðalfundur felur því stjórn að semja starfsreglur. Taka þarf afstöðu til þeirrar meginreglu að félagsmenn fái öllu jafna ekki greiðslur fyrir vinnuframlag sitt í þágu félagsins og að eingöngu sé greitt fyrir beinan útlagðan kostnað. Því þurfi starfsreglur að skilgreina vel ramman í kringum fyrirkomulag greiðslna og aðlaga lög félagsins þ.a. þau styðji við slíka framkvæmd. Einnig þarf að tryggja að allur kostnaður sem hlýst af slíkum greiðslum, sé tilgreindur í fjárhagsáætlun. Nauðsynlegt er að starfsreglur (með heimild í lögum) taki á því hver hafi heimild til að skuldbinda félagið þegar kemur að greiðslum sem þessum (sérstaklega stjórnarmanna) og hnykkja þarf á því hvernig staðið er að samþykkt fjárhagsáætlunar sem getið er um í núverandi lögum félagsins.

Vegna þess hversu mörg áríðandi og tímafrek mál bíða, leggur aðalfundur til að 1.200.000,- (að hámarki) verði varið til slíkra greiðslna þar til starfsreglur hafa verið samþykktar. Stjórn er því falið að fara með ráðstöfun þessarar upphæðar þangað til.“

Töluverðar umræður urðu um tillöguna.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Tillögu stjórnar að lagabreytingu hafnað með öllum greiddum atkvæðum.

4. Félagsgjöld

Tillaga um að félagsgjöld verði óbreytt kr. 6.000,-.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

5. Kosning stjórnar

Í framboði til formanns var Áki Ármann Jónsson.

Var hann kosinn með öllum greiddum atkvæðum.

Í framboði til varaformanns var Jón Víðir Hauksson.

Var hann kosinn með öllum greiddum atkvæðum.

Í framboði til meðstjórnenda voru:

Nanna Traustadóttir

Jón Þór Víglundsson

Einar Haraldsson

Voru þau kosinn með öllum greiddum atkvæðum.

Emil Birgir Hallgrímsson og Sigurbjörn Snjólfsson, sitja áfram en þeir voru kjörnir til tveggja ára árið 2017.

6. Kosning skoðunarmanna

Kosnir voru:

Frank Þór Franksson

Kolbeinn Friðriksson

Til vara:

Einar Hrafn Jóhannesson

7. Önnur mál

· Þarf SKOTVÍS að endurskilgreina sig?

Indriði fór yfir, nokkrar umræður urðu um þetta. Ákveðin skref stigin í þessu s.s. með samstarfi við fuglavernd o.fl.

· Nýtt félagakerfi

Indriði gerði grein fyrir og kynnti að félagið hefði tekið upp nýtt kerfi Nóri. Flest íþróttafélögin hefðu tekið upp þetta kerfi. Sækir allar upplýsingar þjóðskrá.

· Sólmundur Tr. Einarsson bar upp svohljóðandi tillögu.

„Lagt er til að fundurinn álykti að stefnt skuli að því að lokið verði við ritun og útgáfu bókar um sögu skotvís fyrir 23. september nk.“

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Hjörtur velti því upp hvort rétt væri að skilgreina fjárhæð í verkefnið. Ljóst væri að stjórn hefði þó heimild til að ákveða þetta.

Umræðum lokið nýjum formanni falið að slíta fundinum. Þakkaði nýkjörinn formaður kosningu sína og stjórnar en þakkaði um leið fráfarandi formanni og stjórnarmönnum fyrir gott starf í þágu félagsins.

Fundi slitið kl. 17.36.

Categories: Fréttir

Ný stjórn kjörin á aðalfundi 2018

Áki Ármann Jónsson var kosinn nýr formaður félagsins á aðalfundi Skotveiðifélags Íslands. Áki Ármann er líffræðingur að mennt og var Veiðistjóri frá 1998-2003 og síðar sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun 2003-2017. Indriði R. Grétarsson, fyrrverandi formaður, gaf ekki kost á sér til endurkjörs eftir 6 ára stjórnarsetu, þar af 1 ár sem formaður. Í nýrri stjórn sitja nú auk Áka Ármanns, Jón Víðir Hauksson sem kjörinn var í embætti varaformanns, Jón Þór Víglundsson, Nanna Traustadóttir, Einar Haraldsson, Emil Birgir Hallgrímsson og Sigurbjörn Snjólfsson.

Nýrrar stjórnar bíða svo fjölmörg krefjandi verkefni, þar sem stofnun Miðhálendisþjóðgarðs ber hvað hæst, breytingar á veiðistjórnun og vopnalögum. Nýkjörin stjórn félagsins mun halda áfram að leggja áherslu á hagsmunamál skotveiðimanna í góðri samvinnu við önnur útivistar og náttúruverndarsamtök og stjórnvöld.

“Það er ánægjulegt að sjá að félagsmönnum fjölgaði á síðasta ári og mun ný stjórn halda áfram að byggja upp innviði félagsins á fertugasta starfsári þess, öllum skotveiðimönnum landsins til heilla” sagði Áki Ármann við lok aðalfundar.

Categories: Fréttir

Wordpress Social Share Plugin powered by Ultimatelysocial