Author: Jon Viglundsson

Aðalfundur 2021

Stjórn SKOTVÍS auglýsir aðalfund 2021 í samræmi við lög félagsins.

Aðalfundurinn verður að þessu sinni haldinn rafrænt á Zoom, og hefst klukkan 20:00.

Dagskrá er eftirfarandi:

Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi félagsins:
Skýrsla stjórnar.
Lagðir fram skoðaðir reikningar félagsins.
Lagabreytingar.
Ákvörðun félagsgjalda, næsta almanaksárs.
Kosning formanns, varaformanns og tveggja stjórnarmanna.
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
Önnur mál.

Við hvetjum félagsmenn til að mæta.

Kosið verður um formann og varaformann til eins árs, auk þriggja stjórnarmanna til tveggja ára.
Áhugasamir sem vilja bjóða sig fram til stjórnarsetu sendi tilkynningu þar um á skotvis@skotvis.is.
Samkvæmt lögum félagsins er jafnframt heimilt að bjóða sig fram á fundinum sjálfum.

Hlekkur á fundinn verður birtur þegar nær dregur fundi, og þá á Facebook síðu félagsinsl

Categories: Fréttir

Hreindýrakvóti 2021 birtur

Umhverfisráðherra hefur nú ákveðið hreindýrakvóta ársins 2021.

Áfram er mælst til þess að veiðimenn forðist að skjóta mylkar kýr fyrstu 2 vikur veiðitímans, þó svo að engar rannsóknir sýni tengsl milli veiða á mylkum kúm, og kálfadauða. Það er slæmt til þess að vita að tilfinningar fari að ráða för í veiðistjórnun, en ekki vísindin.

Kvóti ársins er 1220 dýr, sem skiptist niður í 519 tarfa og 701 kú. Kúm fækkar um 104 frá síðasta ári, og törfum um einn. Tarfar eru þá rúm 42% kvótans og kýr 57% rúm.

Skiptingin milli svæða er eftirfarandi:

Svæði 1, Tarfar 124, 23,9% tarfakvóta og kýr 133, 19% kúa. Kvóti tarfa er hér óbreyttur, en kúm fjölgar um þrjár. Á svæði 2 er leyfi fyrir 100 törfum, 19,3% og 175 kúm, 25% kvóta á kúm. Hér fækkar törfum um 58 og kúm um 16. Á svæði 3 er leyfi fyrir 43 törfum sem er 8,29% tarfakvóta og 46 kúm eða 6,56% kvóta þeirra. Hér fjölgar törfum um 20 en kúm fækkar um sömu tölu. Á svæði 4 eru samsvarandi tölu fyrir tarfa 17 og 3,28% og kýr 40 eða 5,71%. Törfum fækkar á svæði 4 um 7 frá síðasta ári, en kúm fjölgar um 11. Á svæði 5 er leyfi fyrir 37 törfum, 5 færri en á síðasta tímabili, 7.38% tarfakvóta. 46 kýr verða veiddar á svæði 5, 12 færri en í fyrra, 6,56% kvóta á kýr. Á svæði 6 verða 75 tarfar felldir, 14,5% tarfakvóta og hér eykst kvóti um 12 dýr frá síðasta ári. Á sama hátt fækkar um 12 kýr, verða 60, 8,56% allra kúa. Á svæði 7 verða felldir 70 tarfar, 30 fleiri en í fyrra og þar með 13,5% allra tarfa. Kúm fækkar hins vegar á svæði 7 um 46, verða 130 en samt 18,5% kúa kvótans. Á svæði 8 er leyfi fyrir 27 törfum, fækkar um 3 og eru 5,2% tarfakvótans. Kúm fækkar á svæði 8 um 8, verða 35 eða 5% kúa kvótans. Á svæði 9 verða svo 26 tarfar felldir, fjölgun um 10 dýr, sem gera þá 5% tarfakvótans. Kúm fækkar á svæði 9 um fjórar, verða 36, eða 5,14% kúa kvótans.

Samtals gera þetta 519 tarfa, einum færri en árið 2020, og 701 kú, 104 færri en síðasta ár.

Veiðitími kúa er eins og áður frá 1. ágúst til 20. september, og veiðitími tarfa frá 15. júlí. Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir.

 

Mælingar á holdafari rjúpna 2019 – ákall til veiðimanna um aðstoð!

Frá 2006 til 2018 voru í gangi í Þingeyjarsýslum rannsóknir á heilbrigði rjúpunnar og tengslum heilbrigðis fuglanna og stofnbreytinga. Þessar rannsóknir hafa runnið sitt skeið en ætlunin er að halda áfram að meta holdafar fuglanna og það verður hluti af árlegri vöktun rjúpnastofnsins. Rannsóknir á heilbrigði rjúpunnar hafa sýnt skýr tengsl heilbrigðis og stofnbreytinga. Einn af þeim þáttum sem sýnir marktæk tengsl við stofnbreytingar og vetrarafföll er holdafar fuglanna. Holdafar endurspeglar hreysti eða lífvænleika rjúpna í upphafi vetrar. Fullorðnir fuglar eru almennt í betri holdum en ungir fuglar en enginn munur er á kynjum.

Mikill munur er á holdafari á milli ára og sömu breytingar hjá ungum fuglum og fullorðnum (sjá mynd).

Mynd. Holdafar rjúpna í Þingeyjarsýslum 2006 til 2017.

Til að halda áfram þessum mælingum leita ég til veiðimann um aðgang að fuglum sem þeir fella. Ég ætla mér í ár að mæla 100 – 150 fugla úr Þingeyjarsýslum. Fyrsta kastið leita ég eftir aðstoð sunnanmanna sem fara norður til veiða. Ætlun mín er að fá fuglana til mín á Náttúrufræðistofnun í Garðabæ og mæla þá þar. Fuglarnir þurfa að vera þýðir. Það sem ég geri við þá er að taka þrjú stærðarmál (hauslengd, vænglengd og ristarlengd) og vigta þá. Fyrir vigtun þreifa ég sarp og ef fæða er í sarpi þá fjarlægi ég hana með c. 1 cm löngum skurði í gegnum húð á hálsi og tæmi síðan sarpinn með teskeið. Fuglarnir verða geymdir í kæli meðan þeir eru á Náttúrufræðistofnun og að mælingu lokinni komið til síns heima.

Hafi menn áhuga á að taka þátt í þessu verkefni þá er hægt að ná í mig í síma 843 9935 eða í netpósti okn@ni.is.

Með kveðju,

Ólafur K. Nielsen

Categories: Fréttir Rjúpa

Rjúpnakvöld Skotvís

SKOTVÍS stendur fyrir árlegu rjúpnakvöldi fimmtudagskvöldið 24. október.

Fagnaðurinn verður í sal Sjóstangveiðifélags Reykjavíkur, að Grandagarði 18. Fyrir þá sem ekki eiga heimangengt, verður bein útsending á FB síðu félagsins frá viðburðinum.

Dagskráin er svona:
– Arne Sólmundsson mun fara yfir vinnu SKOTVÍS við greiningar gagna um rjúpnaveiðar
– Umhverfisstofnun fara yfir veiðitölur
– Náttúrufræðistofnun Íslands mun kynna rjúpnarannsóknir
– Fræðsla fyrir byrjendur
– Hvar má veiða? Ívar Pálsson lögfræðingur

SKOTVÍS hefur lagt gríðarlega vinnu til að fjölga þeim dögum sem við rjúpnaveiðimenn fáum að ganga til rjúpna. Fyrir 2 árum voru leyfilegir dagar 9, en fyrir þrotlausa vinnu SKOTVÍS, ekki síst með vísan í mjög gagnlega greiningu Arne Sólmundssonar á þeim gögnum sem veiðimenn hafa skilað inn áratugum saman, náðist sá árangur  að fjöldi leyfilegra daga verður nú 22.

Við hvetjum alla til að mæta og hita upp fyrir tímabilið í góðra félaga hópi.

Boðið verður upp á léttar veitingar

Categories: Fréttir Rjúpa

Um veiðar á hreindýrum, lífvænleika hreindýrskálfa og stjórnun hreindýrastofnsins.

Ole Anton Bieltvedt skrifar í Morgunblaðið 29.júlí um hreindýraveiðar og þá sérstaklega um veiðar á hreindýrskúm og dýraníð veiðimanna. Ole Anton er annt og umhugað um velferð dýra og er það vel.SKOTVÍS setur velferð dýra og siðfræði veiða í forgang í sínu fræðslustarfi og stefnumótun. Þessi málaflokkur er því skotveiðimönnum hugleikinn.

Það örlar þó á misskilningi í greininni sem við teljum rétt að benda á. Kálfarnir eru ekki 8 vikna við upphaf veiða og særð dýr sem eru felld eru á veiðitíma er dýravelferð en ekki dýraníð.

Miðburður nefnist það er helmingur hreinkúa tveggja ára og eldri er borinn. Miðburður ræðst að miklu leyti af tímasetningu fengitíma sem aftur ræðst af ástandi kúnna á haustin (Reimers 1989). Árið 2005 var miðburður kúa á Vestur-Öræfum 13. maí t.d.

Júní og júlí telja saman 61 dag og ef bætt er 9 dögum maí (sem er lokaburðartími kálfa að öllu jöfnu) þá eru dagarnir um 70 sem gera 10 vikur.

Fyrstu 10 daga veiðitímans eru um 80-100 kýr felldar svo langstærstur hluti kvótans er felldur þegar kálfarnir eru fullra 12 vikna. Með hlýnandi loftslagi hefur burðartími kúa færst framar á vorið og á sínum tíma var það metið svo að 10 vikna kálfar væru orðnir sjálfbærir og því óþarfi að fella þá með kúnum. Ekkert hefur komið fram sem bendir til annars.

Hreindýraveiðimenn vilja fella bráðina á sem sársaukaminnstan hátt og án þess að valda öðrum dýrum í hjörðinni óþarfa röskun. Því barðist SKOTVÍS fyrir því að heimilt er nú að nota hljóðdeyfa við veiðar. Með slíkri notkun verður hjörðin mun rólegri og minnst truflun verður af veiðunum.

Ef dýr særist við veiðarnar þá kappkosta veiðimenn og leiðsögumenn þeirra að fella dýrið hið fyrsta. Líklega er Ole að vísa til þeirra dýra þegar hann talar um „gömul skotsár“ hjá 30 dýrum.

Einnig eru dýr felld sem hafa flækt sig í vír eða slasast á annan hátt og ekki er hægt að bjarga. Þetta fellur seint undir dýraníð. Það dylst engum að Ole er andstæðingu allra veiða og ber ég virðingu fyrir slíkum sjónarmiður, en rétt skal vera rétt og það að snúa út úr opinberum tölum er ekki málefnalegt og ekki ásættanlegt að bera slíkar rangfærslur ítrekað á borð til að afla sínum skoðunum fylgi. Svona málflutningur skaðar einungis hans málstað til langframa.

SKOTVÍS hefur varað við að stytta virkan veiðitíma því þá er hætta á að daglegt álag á einstakar hjarðir verði of mikið. Þegar talað er um virkan veiðitíma þá er ekki saman að jafna tveimur fyrstu vikum ágúst og tveimur síðustu vikum september vegna minnkandi dagsbirtu. Stækkandi kvótar á takmörkuðum veiðitíma kalla líka á að dýrin fái ekki næga hvíld til að nærast. Það hlýtur að vera kappsmál að dýrin fái örugglega næði til að hvílast og beita sér.

Áhrif hreindýra á beitarland hafa verið nokkuð skoðuð. Þau nærast 50-70% á svipaðri fæðu og sauðfé. En þau eru sérstaklega viðkvæm fyrir sinni eigin ofbeit þar sem þau nærast mikið á fléttum sem eru mjög seinvaxnar tegundir. Því er það þekkt að hreindýrastofnar geta hrunið þegar slíkt ástand skapast. Til að halda stofninum utan marka ofbeitar er veitt úr honum árlega að fengnum tillögum Náttúrustofu Austurlands og Hreindýraráð fjallar síðan um. Tillögur um kvóta berast síðan ráðherra frá Umhverfisstofnun. Ferlið er vandað og ítarlegt og ákvörðun um veiðar og kvóta eru ekki úr lausu lofti gripnar. SKOTVÍS ber fullt traust til þessa ferlis og styður ákvörðun ráðherra.

Að lokum bendi ég á texta um hreindýr sem birtist á bls 194 í skýrslu sem unnin var fyrir umhverfis og auðlindaráðuneytið og kom út 2013.

„Ekki er kveðið á um verndun hreindýra í þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og hafðir voru til hliðsjónar við vinnu nefndarinnar. Hins vegar eru hreindýr framandi tegund í íslenskri náttúru sem gæti orðiðágeng vegna beitaráhrifa ef stofninum er ekki stjórnað. Samkvæmt samningnum um líffræðilega fjölbreytni ber því skylda til að tryggja að hreindýrastofninn verði ekki svo stór að hann valdi tjóni, fyrst og fremst á gróðri.“

Nýlega var í fréttum hungurdauði 200 hreindýra á Svalbarða en það er þekkt að hreindýrin geta fallið í stórum stíl ef hjörðin er of stór fyrir beitarlandið.

Líklega vill Ole Anton ekki að hreindýrum fjölgi svo stjórnlaust á Íslandi að þau verði hungri að bráð eins og hlutskipti hreindýranna á Svalbarða urðu?

Kannski er betra að stjórna hreindýrastofninum innan núverandi kerfis öllum til hagsbóta.

*Höfundur er líffræðingur, fyrrum Veiðistjóri og formaður SKOTVÍS.*

 

Hreindýrakvóti ársins loks kominn

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið hreindýrakvóta fyrir 2019 að fengnum tillögum frá Umhverfisstofnun. Heimilt verður að veiða allt að 1451 dýr á árinu, 1043 kú og 408 tarfa. Um er að ræða sama fjölda dýra og hreindýrakvóti fyrra árs kvað á um.

Veiðin skiptist milli níu veiðisvæða og eru mörk þeirra og fjöldi dýra á hverju svæði tilgreind nánar í meðfylgjandi auglýsingu.

Heimildirnar eru veittar með fyrirvara um að ekki verði verulegar breytingar á stofnstærð fram að veiðum sem kalli á endurskoðun veiðiheimilda. Þá hefur ráðuneytið verið með í skoðun áhrif kúaveiða á kálfa. Niðurstöður þeirrar athugunar geta mögulega haft áhrif á veiðitíma hreindýra, sem kveðið er á um í reglugerð.

Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Óheimilt er að veiða kálfa.

Umhverfisstofnun auglýsir og sér um sölu allra veiðiheimildanna.

Veiðimenn geta sótt um hér.

Categories: Fréttir

Styrkir til félagsins

Umhverfis-og auðlindaráðuneytið hefur nú birt úthlutun rekstar-og verkefnastyrkja til frjálsra félagasamtaka.
SKOTVÍS fékk 400.000- í rekstrarstyrk frá ráðuneytinu.
Sótt var um fjóra verkefnastyrki og fengust 350.000- í árlega rjúpnatalningu félagsins og 450.000- í útskipti á plasti í forhlöðum haglaskota.
SKOTVÍS hefur látið gott af sér leiða, unnið hörðum höndum að samfélagslegum verkefnum með uppbyggilegum hætti og áorkað miklu á 40 árum.
Fjárveitingin er viðurkenning á starfi félagsins, gildum þess, vinnubrögðum og árangri í náttúruverndar-og umhverfismálum.
Úthlutunin undirstrikar traust til SKOTVÍS um að halda því starfi áfram næstu 40 árin, í það minnsta.

Categories: Fréttir

Rjúpnagögn og gagn

Hér má finna glærur Arne Sólmundssonar frá fyrirlestri hans á Hrafnaþingi NÍ 23. jan 2019.

 

 

 

 

Categories: Fréttir

Aðalfundur SKOTVÍS verður 28. febrúar n.k.

Stjórn SKOTVÍS auglýsir aðalfund félagsins, sem verður haldinn þann 28. febrúar n.k. kl 20:00.

Dagskrá og staðsetning verður auglýst nánar er nær dregur.

Samkvæmt lögum félagsins skal kjósa á aðalfundi 3 stjórnarmenn til 2ja ára í senn, og formann og varaformann til eins árs.

Áhugasamir félagsmenn eru hvattir til að senda tilkynningu um framboð sitt til stjórnar á netfangið skotvis@skotvis.is

Við viljum sérstaklega hvetja konur til að gefa kost á sér til stjórnarstarfa.

Fundinum verður streymt beint á FB síðu SKOTVÍS, og stjórn er að vinna að viðbótum við heimasíðuna svo fjarstaddir félagsmenn geti greitt atkvæði á fundinum.

Categories: Fréttir

Öryggi á rjúpnaveiðum frá Safe Travel

Skotveiði er útivist þar sem huga þarf að réttum búnaði og öryggisatriðum, auk þess að sýna ábyrga hegðun vegna skotvopna og ganga vel um landið. Veiðimenn þurfa að kynna sér vel þau svæði sem þeir ætla að fara á, fylgjast vel með veðurspá og og jafnframt athuga hvernig aðstæður, færð og veður hefur verið undanfarna daga.

Athugið að snjóflóðahætta leynist víða til fjalla og langflest snjóflóð fara af stað af manna völdum, þ.e.a.s. fólk á göngu eða skíðum setur þau af stað og lendir oftast sjálft í flóðinu.

Hafa skal eftirfarandi alltaf í huga:

  • Kannaðu vel aðstæður á veiðisvæðinu og fylgstu með veðurspá.
  • Á veturna til fjalla er oft snjóflóðahætta. Haltu þig við flatari svæði.
  • Farðu aldrei einn til veiða og sýndu aðgát ef margir eru við veiðar á svæðinu.
  • Vertu með kort, áttavita og GPS tæki (nóg af auka rafhlöðum) og vertu viss um að þú kunnir að nota það.
  • Vertu með 112 Iceland appið í símanum þínum.
  • Vertu rétt klæddur, nýttu þér útbúnaðarlista og vertu með aukafatnað og nesti sem dugar þér allavega 24 klst lengur en þú ætlar að vera. Lagskiptur fatnaður getur skipt sköpum.
  • Skildu eftir ferðaáætlun hjá einhverjum sem brugðist við ef á þarf að halda t.d. hér á Safetravel.is
  • Vertu með réttan öryggisbúnað s.s. síma (ásamt hleðslubanka fyrir hann eða auka rafhlöðu), neyðarblys, sjúkratösku og annað sem þarf.
  • Veiðitímabilið er takmarkað. Láttu ekki áhuga eða þrýsting ýta þér út í veður eða aðstæður sem gætu skapað þér hættu eingöngu vegna þess að tímabilið er stutt eða því er að ljúka.
  • Kynntu þér siðareglur skotveiðimanna og umgengni um skotvopn t.d. á heimasíðu Skotvís

Categories: Fréttir

Wordpress Social Share Plugin powered by Ultimatelysocial