Author: admSe3Bn7

Aðalfundur SKOTVÍS 2020

Stjórn SKOTVÍS auglýsir aðalfund 2020 í samræmi við lög félagsins.

Aðalfundurinn verður haldinn í húsnæði VERKÍS að Ofanleiti 2 þann 27. febrúar nk. og byrjar klukkan 20:00

Dagskrá er eftirfarandi:

Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi félagsins:
Skýrsla stjórnar.
Lagðir fram skoðaðir reikningar félagsins.
Lagabreytingar.
Ákvörðun félagsgjalda, næsta almanaksárs.
Kosning formanns, varaformanns og tveggja stjórnarmanna.
Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
Önnur mál.

Við hvetjum félagsmenn til að mæta.

2 stjórnarmenn eru nú að ljúka kjörtímabili sínu frá aðalfundi 2018, og verður því kosið, til tveggja ára, um tvo stjórnarmenn, auk formanns og varaformanns til eins árs.
Áhugasamir sem vilja bjóða sig fram til stjórnarsetu sendi tilkynningu þar um á skotvis@skotvis.is.
Samkvæmt lögum félagsins er jafnframt heimilt að bjóða sig fram á fundinum sjálfum.

Categories: Fréttir

Aðalfundur SKOTVÍS 2019

Aðalfundur SKOTVÍS var haldin á fimmtudagskvöld 28. febrúar síðastliðinn.

Vel var mætt og heiðraði hæstvirtur umhverfisráðherra okkur með komu sinni. Við kunnum honum okkar bestu þakkir fyrir að gefa okkur tíma í sinni þéttu dagskrá.
Á fundinum kom fram að rekstur félagsins gekk mjög vel á seinasta ári og einnig fjölgaði félögum um 33%. Virkir félagar eru núna 1.700 í SKOTVÍS og um 1.000 í SKOTREYN.
Metfjölgun og metrekstrarhagnaður á einu og sama árinu.

Á fundinum var skrifað undir samstarfssamning milli SKOTVÍS og Bogveiðifélags Íslands.

Ný stjórn var kjörinn og hana skipa:
Áki Ármann Jónsson, formaður
Jón Víðir Hauksson, varaformaður
Jón Þór Víglundsson, gjaldkeri
Einar Kr. Haraldsson
Bjarnþóra María Pálsdóttir
Þórey Inga Helgadóttir
Ívar Pálsson

Stjórnin mun verða kynnt nánar í næstu viku á heimasíðu SKOTVÍS og Facebook.
Í fyrsta sinn eru tvær konur í stjórn SKOTVÍS, ánægjuleg tákn tíðarandans. Æ fleiri konur leggja fyrir sig skotveiði og er það vel. Fyrsti stjórnarfundur hefur verið boðaður á mánudagskvöld og þar mun stjórnin skipta með sér verkum.

Langtímamarkmið félagsins eru að reka skrifstofu og hafa allavega eitt stöðugildi. Fræðsla til veiðimanna og úrvinnsla veiðigagna eru forgangsverkefni félagsins.

Skotvís – Ársreikningur 2018 m undirrit skoð.manna
Fundargerð aðalfundar 2019

Categories: Fréttir

Hlað greiðir fyrsta félagsgjald nýrra félaga.

Skotvís og Hlað veiðiverslun hafa gert með sér samkomulag um að Hlað bjóði öllum þeim sem ganga í félagið, fyrsta árið frítt. Samningurinn gildir um þá nýja félaga sem ganga í félagið næsta árið.

Ferlið er sjálfvirkt, einungis þarf að skrá sig í félagið hér.

Stjórn Skotvís bindur miklar vonir við þennan samning og færir þeim Hlaðmönnum bestu þakkir fyrir samstarfið.

Framundan eru stór verkefni í hagsmunagæslu fyrir skotveiðimenn og því nauðsynlegt fyrir alla veiðimenn að fylkja sér bak við félagið. Rétturinn til veiða er ekki sjálfgefinn.

Categories: Fréttir

Rjúpnaspeki, áttaviti fyrir veiðimenn. Pistill 4 – Fyrirkomulag veiða og áhrif

Það minnkar sem af er tekið” og það á við um rjúpnastofninn eins og annað og umræðan um áhrif veiða er ekki bara mikilvæg, heldur nauðsynleg. Enn mikilvægara er að veiðimenn séu meðvitaðir og virkir í umræðunni um áhrif veiða og taki frumkvæði í nauðsynlegum aðgerðum ef rjúpnastofninum stafar hætta af rangri framkvæmd veiða eða öðrum þáttum.

 

Í fyrri pistlum var farið yfir hvernig samspil heildarvetraraffalla og nýliðunar stjórna leitni stofnstærðarsveiflunnar og hvernig vendipunktar breytast með lækkandi nýliðun. Á undanförnum áratug (síðan 2005) hefur mynstur heildarvetraraffalla tekið miklum breytingum, afföllin hafa heilt yfir lækkað og samkvæmt vöktunargögnum hefur ekki orðið vart við “dæmigerða niðursveiflu” frá friðunarárunum 2003/2004. Þvert á móti, má með hefðbundunum skilgreiningum á uppsveiflu/niðursveiflu færa rök fyrir því að rjúpnastofninn hafi búið við nánast samfellda uppsveiflu frá árinu 2007. Sumarafföll hafa hinsvegar aukist talsvert á sama tíma og framkallað 20% rýrnun í nýliðun sem hafa breytt eðli sveiflnanna og komið í veg fyrir myndarlegar uppsveiflur.

 

Menn hafa í rúma öld spurt sig hver áhrif veiða séu á rjúpnastofninn og að hve miklu leiti veiðar og annað afrán stýrir nýliðun, afföllum og sveiflum. Í þessum pistli er leitast við að leita svara við þeirri spurningu, áfram á grundvelli aðgengilegra gagna.

Nýliðun í hópi veiðimanna

Árlega bætast við um 6-700 nýir einstaklingar sem öðlast réttindi til veiða með kaupum á veiðikorti, en endurnýja þarf veiðikortið árlega. Ólíkt því sem margir halda, hefur fjöldi veiðikortahafa engu að síður staðið í stað (rúmlega 11.000) síðan veiðikortakerfið var tekið upp árið 1995. Það sama á við um þann hóp veiðikortahafa sem stundar rjúpnaveiðar, en tæpur helmingur veiðikortahafa gengur til rjúpna (mynd 16) og fer fækkandi og hafa aldrei verið færri frá 1995. Af mynd 16 má sjá að þriðjungur veiðikortahafa skráir enga veiði eða skilar engum skýrslum, en þeir sem ekki skila skýrslum fá ekki veiðikortið endurnýjað.

Mynd 16: Myndritið sýnir að fjöldi veiðikortahafa stendur nánast í sömu tölu 2016 og árið 1995. Stórt hlutfall veiðikortahafa skráir enga veiði (1/3) og fjöldi rjúpnaveiðimanna fer fækkandi með árunum.

Þessar háa velta í gegnum veiðikortakerfið þykir benda til þess að stór hluti þeirra sem öðlast réttindi til veiða endast ekki til langframa, því sami fjöldi virðist hellast úr lestinni á einhverju stigi. Til samanburðar má benda á að síðan 1995 hefur íslendingum fjölgað úr 270.000 í 350.000 (tæp 30% aukning), meðan fjöldi virkra skotveiðimanna hefur haldist í stað, en fækkað hlutfallslega, eða úr 4,5% í 3,4%.

 

Fróðlegt væri að leita skýringa á þessu, en ein tilgátan er sú að samfélagslegar breytingar á s.l. tveimur áratugum hafi breyst þ.a. frítíma er ráðstafað með öðrum hætti en áður tíðkaðist. Á mynd 17 má sjá aldursdreifingu veiðikortahafa árin 1995 annarsvegar og 2014 hinsvegar (með tæplega 20 ára millibili), sem sýnir að meðalaldur veiðikortahafa hefur færst ofar á þeim rúmu tveimur áratugum sem veiðikortakerfið hefur verið við lýði.

 

Þeirri tilgátu hefur verið varpað fram að nýir veiðikortahafar á árum áður hafi verið í betri aðstöðu til að öðlast nægilega veiðireynslu og fengið þannig hvatningu til að halda áfram ástundun veiða, meðan nýrri árgangar búa við meiri takmarkanir (fjöldi veiðidaga og aðgengi að veiðilendum), öðlast minni reynslu og ílengjast því síður í skotveiðum.

Mynd 17: Myndritið ber saman aldursdreifingu veiðikortahafa með tæplega 20 ára millibili. Miðgildi ársins 1995 er 38 ára (meðaltal 40 ára), en miðgildið hefur færst til um 8 ár og er 46 ára (meðaltal 46 ára) fyrir árið 2014. Þegar aldursdreifing 1995 er skoðuð, má sjá að tiltölulega mikil nýliðun hafi átt sér stað á árunum fyrir 1995 meðal yngri veiðimanna.

Nýliðun meðal kvenna hefur hinsvegar aukist mikið á þessu sama tímabili, en fjöldi þeirra sem taka veiðikortanámskeiðið hefur vaxið úr 3% í 11% og mun hlutfall kvenna í hópi veiðikortahafa vonandi einnig aukast í kjölfarið.

 

Þetta er aðeins tvö dæmi um hvernig megi nota gögn UST til að átta sig á samsetningu veiðikortahafa og rannsaka hvernig samfélagslegar breytingar hafa áhrif á hegðun og samsetningu veiðimanna, en víða er farið að taka tillit til slíkra þátta við veiðistjórnun.

 

Mikilvægt er að árétta að þessi gögn eru ekki persónurekjanleg!

Afföll vegna veiða

Bein afföll (heildarveiði) vegna veiða er nokkuð þekkt stærð og hefur verið síðan veiðikortakerfið var tekið upp 1995 og veiðimenn hófu að skrá feng sinn hjá embætti veiðistjóra, sjá mynd 5 í pistli 1. Árið 2002 var einnig tekin upp skráning sóknardaga.

 

Fram til 2003 hafði ekki mikið verið hróflað við fyrirkomulagi veiða, en í kjölfar friðunaráranna 2003/2004 var farið í róttækar breytingar á framkvæmd þeirrra. Ekki var einungis fækkað veiðidögum (mynd 18 a/b), heldur var einnig ýmislegt reynt með dreifingu þessarra daga (fríhelgar, 3ja daga helgar, 2ja daga helgar o.s.frv.), auk þess sem veiðitímabilinu var seinkað mismikið og sölubann var innleitt.

Mynd 18a/b: Myndritin sýna breytingar á fjölda daga og veiðitímabilum. Frá árinu 2007 var byrjað að brjóta upp samfellda veiðidaga, þ.a. eingöngu var leyfilegt að veiða ákveðna daga og gerðar voru tilraunir með fríhelgar (árin 2011 og 2012). Dagur 180 frá upphafi rjúpnaárs (20. apríl) markar 15. október og farið var að seinka veiðitímabilinu um 1-2 vikur.

Frá 2005 hafa því verið gerðar margar athyglisverðar tilraunir með fyrirkomulag veiða, en merkilegustu niðurstöðurnar úr þessum tilraunum voru einkum tvær, sem sjá má á mynd 19:

 1. Afföll vegna veiða hafa síðan 2005 lengstaf verið undir 10% af hauststofni (nóv) óháð stofnstærð (mynd 19, rauð lína), meðan veiðiafföllin voru á bilinu 20-30% fyrir þann tíma, lækkandi hlutfall með stærri stofni (mynd 19, blá lína).
 2. Breytingar á leyfilegum dagafjölda til veiða (9-47 dagar) hefur engin áhrif haft á veiðiafföll, sem eru rétt undir 10% af hauststofni óháð fjölda leyfilegra veiðidaga. Erfiðara er að fullyrða um hvort óhætt sé að fjölga dögum umfram 47 og hverfa aftur til fyrirkomulags fyrir 2005, þar sem gögn vantar til að styðja slíkar tilgátur. Um þetta er ítarlegri grein í tölublaði 2013 Tímaritsins SKOTVÍS sem lesendum er bent á að kynna sér.
Mynd 19: Myndritið ber saman samband veiðiaffalla og stofnstærðar fyrir (blátt) og eftir (rautt) 2003/2004.

Þar sem fækkun veiðidaga skýra ekki lægri veiðiafföll, er talið að skýringa sé helst að leita í öðrum breytingum sem gerðar voru samhliða dagabreytingunum, en þá var einnig neðagreindum úrræðum beitt:

 • Sölubann til að draga úr atvinnuveiðum.
 • Samfelldir leyfilegir veiðidagar brotnir upp.
 • 1-2 vikna seinkun á upphafi veiðitíma (frá 15. október).

 

Með ofangreindum úrræðum voru hvatar fyrir ástundun “atvinnuveiða” í upphafi veiðitímabils fjarlægðir, einmitt á þeim tíma (frá 15. október) þegar fuglinn er hvað mest í hópum. Ekki var lengur mögulegt að stunda samfelldar veiðar á fjarlægum veiðslóðum, auk þess sem sölubann komi í veg fyrir sölu á fugli. Ekki er heldur ólíklegt að seinkun veiðitímans um 1-2 vikur hafi gert veiðar óskilvirkari þar sem fuglinn er farinn að dreifast meira undir lok október, þ.e. færri fuglar á hvern sóknardag (mynd 21).

 

Ráðstöfun frítíma veiðimanna hefur einnig verið að breytast síðan 1981 með þeim hætti að veiðimenn virðast ráðstafa að meðaltali 4 dögum til veiða óháð fjölda leyfilegra veiðidaga í stað 7-11 áður (mynd 20).

Mynd 20: Myndritið ber saman fjölda sóknardaga á veiðimann í áranna rás. ATH: gagnasafnið frá árunum 1971-1985 byggir á talsvert færri veiðimönnum (20), meðan nýrra gagnasafn er talsvert stærra (1700).
Mynd 21: Myndritið ber saman meðaldagsveiði á veiðimann í áranna rás. ATH: gagnasafnið frá árunum 1971-1985 byggir á talsvert færri veiðimönnum (20), meðan nýrra gagnasafn er talsvert stærra (1700).

Svo virðist sem blanda af ofangreindum aðgerðum og breytt ráðstöfun frítíma hafi haft meiri áhrif á sókn og veiðiafföll en beinn niðurskurður á fjölda veiðidaga. Ofangreind stjórntæki sem og breyting á hegðun veiðimanna hafi virkað betur en fækkun veiðidaga til að ná veiðum niður um a.m.k. 50% og sýna neytendakannanir að uppgefnar veiðitölur eru í góðu samræmi við neyslukannanir sem gerðar eru á vegum UST.

 

Allar þessar aðgerðir (nema fækkun daga) skila sér í lægri veiðiafföllum og  þar með lækkun heildarvetraraffalla (mynd 11a í pistli 3), en að hvaða marki? Lækkuð veiðiafföll færast ekki óskipt til varpstofns næsta vors, stór hluti þessarra affalla hefði orðið óháð veiðum. Mynd 22 útskýrir ágætlega hver áhrif veiða eru á varpstofn næsta árs, en hún byggir á þeirri nálgun að sé ákveðið hlutfall hauststofnsins numið burt (með veiðum), megi gera ráð fyrir því að sá hluti (veiðin) hefði hlotið sömu örlög og eftirlifandi stofn fram að vori, hefði ekki verið veitt, þ.e. orðið fyrir álíka afföllum. Þannig hefðu 10% veiðiafföll af hauststofni samsvarað 10% minnkun varpstofns næsta vors hefði ekki verið veitt.

Mynd 22: Myndritið sýnir heildarvetrarafföll hjá báðum aldurshópum og hvernig varpstofn að vori fengi viðbót væri ekki veitt. Af þessu sést að m.v. 10% veiðiafföll (af hauststofni), þá rýrnar varpstofn sem nemur því hlutfalli en ekki þeirri heildarveiði.

Mynd 23 sýnir svo hversu stór hluti heildarvetraraffalla má heimfæra beint á veiðar m.v. ofangreindar forsendur og hversu nálægt veiðarnar færa heildarvetrarafföllin að umpólunarmörkunum sem rætt var um í pistli 3 (mynd 15).

Mynd 23: Myndritið sýnir hvernig þáttur veiða af heildarvetrarafföllum breytist með veiðiálagi í uppsveiflu og niðursveiflu. Punktalínan sýnir hvernig þessi mynd breytist þegar ungahlutfallið lækkar úr 80% í 75%. M.v. núverandi veiðiálag er framlag veiða til heildaraffalla í uppsveiflu 2.3% af 90% og í niðursveiflu 1.1% af 80%.

Þegar veiðiafföll lækkuðu um 15 prósentustig við aðgerðirnar í kjölfar friðunaráranna (úr 25% í 10%), höfðu þau áhrif til lækkunar heildarvetraraffalla 1.árs fugls sem nemur lækkun úr 3.3% í 1.1% í niðursveiflu (2.2 prósentustig) og lækkun úr 7.0% í 2.3% í uppsveiflu (4.7 prósentustig).

 

Áhrifa 2.2-4.7 prósentustiga lækkunar í heildarvetrarafföllum ætti að gæta í vöktunargögnum (mynd 15), en kanna þyrfti betur hvort sú sé raunin. Hafa verður í huga að veiðihlutfall er stærð sem annarsvegar er metin útfrá heildarveiðitölum og hinsvegar áætlaðri stofnstærð útfrá vöktunargögnum. Öll skekkja í áætlaðri stofnstærð hefur því áhrif á veiðihlutfallið og ef margföldunarstuðullinn sem getið er um í pistli 2 er of lágur, hefur það áhrif á útreikning heildarstofns til lækkunar, sem aftur hefur áhrif á hlutfall veiða til hækkunar, sem aftur ýkir áhrif veiða.

 

Mynd 24 er uppfærð útgáfa af mynd 15 þar sem búið er að bæta við gagnaseríu sem sýnir sviðsmynd af heildarvetrarafföllum séu engar veiðar stundaðar (grænir punktar).

Mynd 24: Myndritið sýnir glöggt hversu lítil áhrif núverandi veiðar (ca. 10% af hauststofni síðan 2005) hafa á sveiflur rjúpnastofnsins. Veiðar hafa engin áhrif á leitni sveiflunnar þar sem heildarvetrarafföll með og án veiða eru ávallt sömu megin vendipunktar. Séu veiðar auknar að því marki sem var stundað fyrir friðunarárin 2003/2004, eykst munurinn. Sá munur ætti þó að vera í lagi svo framarlega sem nýliðunin fari aftur í fyrra horf.

Veiðistjórnun hefur í gegnum tíðina byggt á þeirri hugmyndafræði að veiðimenn gangi oftar til rjúpnaveiða hafi þeir til þess fleiri daga og veiði þar af leiðandi fleiri rjúpur. Ofangreind greining styður ekki þessa tilgátu. Það eru hinsvegar aðrir þættir en stytting veiðitíma sem eru líklegri til að ná tilætluðum árangri í veiðistjórnun og hafa gert s.s. sölubann. Breytingar í samfélagsgerð veiðimanna og breyttur hvati til veiða spila líka stóra rullu í breyttu landslagi veiðanna.

Því er lagt til að haga veiðistjórnun í samræmi við aukna þekkingu á þessu sviði og að veiðistjórnun hugi betur að orsökum og afleiðingum lægri nýliðunar (aukin sumarafföll) sem er meginorsök rjúpnaþurrðar undanfarin áratug.

 

Í næsta pistli verður farið yfir hvernig megi nálgast áhrif annarra afræningja, þ.e. fálka og refs.

Categories: Greinar Rjúpa

Fylltar rjúpur

Þegar búið er að hreinsa rjúpurnar er gott að láta þær liggja í mjólk nóttina áður en þær eru steiktar.
Teknar úr mjólkinni. Þurrkað af þeim og bringurnar ?spekkaðar?.
Niðursoðin epli og sveskjur látin inn í þær og festar saman.
Brúnað í smjöri á pönnu í rólegheitum.
Settar í þykkbotnaðan pott og soðnar í rúman klukkutíma í mjólkurblöndu með svolitlu salti.
Haldið heitum meðan sósan er búin til úr síuðu soðinu.
Sósan jöfnuð með hveiti. Hún má vera frekar þykk.
Látið í hana rjóma og rifsberjahlaup eftir smekk

Rjúpnaspeki, áttaviti fyrir veiðimenn. Pistill 3, Sveifluvakinn, samband affalla og nýliðunar

Lífshlaup rjúpunnar er markað lágum lífslíkum þar sem náttúruleg öfl valda háum afföllum og ólíklegt er að rjúpan nái meiri en 3-4 ára aldri. Sveiflukennd vetrarafföll 1. árs fugls (77% hauststofnsins síðan 2005) er helsti drifkraftur stofnstærðarsveiflna og lifir engin rjúpa fulla sveiflu með bæði “hámörkum” og “lágmörkum”.

Afföll eldri fugla hafa tekið meiri sveiflum síðan 2003 en áratugina þar á undan og vetrarafföll beggja aldurshópa veturinn 2017/2018 hafa aldrei mælst lægri síðan vöktun hófst árið 1981.

Eins og gefið var í skyn í inngangi þessa pistils, drífa vetrarafföll 1.árs fugls öðrum þáttum fremur áfram sveiflurnar og reglulega verður vending í afföllum. Við vendinguna breytist jafnvægið milli vetraraffalla og nýliðunar sem veldur breytingum á leitni sveiflunnar. Í niðursveiflu hættir nýliðunin að halda í við vetrarafföllin og í uppsveiflu eru vetrarafföllin lægri en nýliðunin. Á myndum 9 og 10 má sjá hvernig þessir útreikningar hafa verið útfærðir í aðdragana 1986 hámarksins og við vendinguna í kjölfarið.

Mynd 9: Myndritið sýnir hvernig rjúpnastofn stækkar þegar “réttu skilyrðin” eru fyrir hendi (t.d. aðdragandi 1986 hámarksins). Meðalafföll 1.árs fugls voru að meðaltali 80% og nýliðunin um 8.3 ungar/hænu í sex ár samfellt. Á hverju ári varð því góð hlutfallsleg aukning – ATH. 1986 hámarkið var hærra vegna betri skilyrða en meðaltal 6 áranna (tæp 1.5 milljón fugla).
Mynd 10: Myndritið sýnir hvernig rjúpnastofn minnkar þegar umpólun í vetrarafföllum á sér stað. Meðalafföll voru að meðaltali 89/62% og nýliðunin um 8.1 ungar/hænu í sex ár samfellt. Á hverju ári varð hlutfallsleg fækkun þar til botni var náð 1992.

Í gegnum tíðina hafa vendingar í vetrarafföllum 1.árs fugls verið megindrifkraftur sveiflubreytinga í rjúpnastofninum og sést vel á myndum 11a og 11b hvernig vetrarafföll þessa aldurshóps tekur stökkbreytingum með reglulegu millibili. Vetrarafföllin taka ekki smáum árlegum breytingum milli hámarka og lágmarka, heldur er eitthvað sem veldur snöggum breytingum sem keyrir stofninn upp og niður, en þessar vendingar eru háðar jafnvægi milli vetraraffalla og nýliðunar. Þetta mynstur gefur því sterka vísbendingu um tímasetningu á upphafi og lokum uppsveiflu/niðursveiflu.

Mynd 11a / 11b: Myndritin sýna greinilegar vendingar í vetrarafföllum 1.árs fugls fyrstu tvo áratugina, en myndin verður ekki eins skörp yfir eftir það. Athyglisvert er að skoða tímabilið 2007-2017, en líta má á það sem eitt langt uppbyggingartímabil, þar sem vetrarafföllin eru nánast öll í lægri kantinum með örfáum undantekningum – ATH. í þessarri túlkun eru ekki litið á einstök frávik sem upphaf sveiflubreytinga.

Á myndum 11a/11b er miðað við að vending eigi sér stað við 85% mörkin (afföll 1.árs fugls) og afföll haldist öðru hvoru megin við þessi vendimörk í nokkur samfelld ár meðan sveiflan líður hjá og leitni hennar breytist. Gert er ráð fyrir að einstök ár breyti ekki leitni stefnunnar fyrr en þau eru orðin samliggjandi 2 ár eða fleiri. Af myndum 11a/11b sést að skilin eru greinileg fram til 1998 hámarksins, þegar þetta mynstur verður ógreinilegra. Má með þessarri nálgun álykta sem svo að í raun hafi átt sér stað samfelld 11 ára uppsveifla (með tveimur ósamliggjandi undanteknignum). Uppsveiflan hafi í raun staðið tvöfalt lengur en í aðdraganda 1986 hámarksins og með álíka lágum meðalafföllum yfir allt þetta tímabil (79% m.v. 80% í aðdraganda 1986 hámarksins). Maður skyldi því ætla að 1986 hámarkinu skyldi náð fyrir alllöngu … og haldið áfram að slá ný met! En málin hafa flækst í seinni tíð, kerfislægar breytingar hafa átt sér stað sem hafa hægt á uppsveiflum og breytt vendimörkunum!

Í pistli 2 var minnst á þá þróun að nýliðun hafi farið hrakandi (sjá mynd 6) og ef vendimörkin á mynd 11b er notuð til viðmiðunar fyrir útreikning á meðalvarpárangri í aðdraganda hámarka og lágmarka má mun greinilegra hversu mikil sumarafföllin hafa aukist samellt síðan 2003 lægðinni lauk (mynd 12), eða úr 8.3 ungum/hænu í 6.6 ungum/hænu … eða um rúmlega 20%!

Mynd 12: Myndritin sýna greinilegar breytingar á nýliðun til lækkunar.

Þó vetrarafföll séu nú á pari við aðdragana 1986 hámarksins, þá skekkist jafnvægi affalla og nýliðunar þegar nýliðunin versnar sem þessu nemur og vendimörkin lækka, þ.e. lægri afföll þarf til að venda leitni sveiflunnar (mynd 13).

Mynd 13: Myndritið sýnir hvar vendimörkin liggja hjá 1.árs fuglinum þegar nýliðunin (ungar/hænu) er borin saman við vetrarafföll 1.árs fugls. ATH: Eldri fugl er um 25% af hauststofni og eru afföll hans öllu jafna lægri og hafa einhver áhrif á raunmyndina.

Af þessu sést að hærri afföll kalla á sterkari nýliðun og því lækka vendimörkin fyrir vetrarafföllin þegar nýliðunin veikist, m.ö.o. þarf lægri afföll til að snúa stofninum í niðursveiflu og þessi mörk hafa síðan 1986 lækkað úr 86% afföllum í 82% þar sem nýliðunin hefur lækkað úr 8,3 ungum/hænu í 6,6 unga/hænu. Á mynd 14 má sjá hversu nálægt meðalvetrarafföllin eru vendimörkum í aðdraganda hámarka/lágmarka.

Mynd 14: Myndritið sýnir vendimörkin, þ.e. þau mörk affalla sem stuðla að sveiflubreytingum þegar búið er að taka tillit til styrks nýliðunarinnar. Af þessu sést að aðdragandinn að hámarki 2018 hefur verið hægur, enda meðalafföllinn rétt undir vendimörkum. Vöxturinn var mun hraðari í aðdraganda 1986, 1998 og 2005.

Af mynd 14 sést að þó vetrarafföllin á tímabilinu 2008-2018 hafa verið lág í sögulegu samhengi, þá dugar það ekki til vegna lélegs varpárangurs og slakrar nýliðunar. Þegar þetta tímabil er skoðað nánar og vendimörkin reiknuð nákvæmar, sést að sveiflurnar taka breytingum, verða reglulegar en styttri. Mynd 15 er endurgerð og nákvæmari en mynd 14.

Mynd 15: Myndritið sýnir afstöðu vetraraffalla m.v. vendimörk (reiknuð útfrá nýliðun). Eftir því sem vetrarafföllin eru fjær vendimörkunum, þess öflugri verður mögnun/dempun sveiflunar, t.d. fyrir vetrarafföll veturinn 2017/2018.

Það er nokkuð ljóst að hærri afföll kalla á sterkari nýliðun og því lækka vendimörkin fyrir vetrarafföllin þegar nýliðunin veikist, m.ö.o. það þarf lægri afföll til að snúa stofninum í niðursveiflu og þessi mörk hafa síðan 1986 lækkað úr 86% afföllum í 82% þar sem nýliðunin hefur lækkað úr 8,3 ungum/hænu í 6,6 unga/hænu … eða sem nemur 4 prósentustigum í heildarvetrarafföllum og munar um minna.

Eins og sjá má, er hægt að lesa ýmislegt útúr vöktunargögnum, en í næsta pistli verður farið yfir hvernig megi meta áhrif veiða á rjúpnastofninn.

Categories: Greinar Rjúpa

Rjúpnaspeki, áttaviti fyrir veiðimenn. Pistill 2 – vöktun rjúpnastofnsins, gagnasöfnun

Í pistli 1 var undirstrikað mikilvægi þess að veiðimenn afli sér þekkingar á eðli stofnstærðarbreytinga rjúpnastofnsins. Birt voru tvö myndrit þar sem samband varpstofns og hauststofns var útskýrt í grófum dráttum og sjá má að stofninn rís og hnígur með reglulegu millibili (óreglulegu í seinni tíð).

Þessi einfalda framsetning á ástandi rjúpnastofnsins er þó engan vegin nægjanleg til að fóðra nauðsynlega umræðu um eðli stofnstærðarbreytinga og áhrifaþætti breytinganna. Nauðsynlegt er að rýna betur undir yfirborðið.

Í þessum pistli verður farið yfir hvernig gögnin verða til og í hvaða tilgangi, þ.e. vöktunarplanið sem hefur verið framkvæmt með sama hætti síðan 1981. Vöktunaráætlunin miðar að því að afla gagna með skilvirkum hætti um þætti sem nægja til að varpa ljósi á stofnstærðarbreytingar milli ára, þ.e. stofnstærð, ungahlutföll, sumarafföll, vetrarafföl, nýliðun, afrán o.s.frv. … breytur sem hafa mikið upplýsingagildi.

Vöktunin fer fram með margvíslegum hætti og eru eftirfarandi tímapunktar mikilvægir fyrir vöktunaráætlunina:

  • 20. apríl – 20. maí Karratalning og aldursgreining (1.árs fuglar / eldri)
  • Júlí/Ágúst Ungatalning (ungar/hænu)
  • Nóvember Aldursgreining innsendra vængja frá veiðimönnum

“Rjúpnaárið” hefst 20. apríl ár hvert, en um það leiti sest karrinn upp, er mjög sýnilegur að morgni og kveldi og því auðvelt að telja á þeim tíma. Talið er á rúmlega 40 skilgreindum talningarsvæðum (reitatalning, vegsnið, göngusnið) víða um land, en flest svæðanna hafa verið talin samfellt í mörg ár, sumhver í áratugi. Lagt hefur verið upp með að viðhalda sama fyrirkomulagi milli ára í þeim tilgangi að gera hverskyns samanburð mögulegan og því er nálguninni ekki breytt nema að mjög vel athuguðu máli. Áhugasömum er bent á árlega fréttatilkynningu NÍ um niðurstöður talningana , þar sem fram koma talningastaðir og helstu niðurstöður.

Fyrirkomulag karratalningar að vori hefur stundum sætt gagnrýni á þeirri forsendu að til séu betri aðferðir, t.d. að betra sé að nota hunda til að finna fleiri rjúpur, en hér er mikilvægt að hafa í huga að tilgangurinn er ekki sá að finna sem flestar rjúpur, heldur að viðhalda stöðugri aðferð sem getur mælt marktækan mun milli ára, þar sem búið er að taka burt sem flestar breytur, s.s. með því að telja alltaf á sama svæði við sömu skilyrði, sama árstíma, sama tíma dags, eftir sömu ferlum og helst með sama mannskap. Þessi aðferð hefur gefist vel og tryggt að gögnin sem safnast saman séu samanburðarhæf milli ára.

Félagmenn SKOTVÍS hafa tekið virkan þátt í þessum talningum um árabil og hafa haft umsjón með talningarsvæðinu í Fitjárdal síðan 2006 auk svæðis við Þingvelli. Með þátttöku í talningum gefst félagsmönnum tækifæri til að kynnast þessari aðferðafræði betur og vonandi munu fleiri félagsmenn taka þátt í þessu starfi þegar fram líða stundir.

Rétt er að halda til haga að þó talið sé á rúmlega 40 svæðum eru eingöngu talningagögn frá norðausturlandi lögð til grundvallar við stofnmatið, enda er þéttleiki varpstofnsins þéttastur í þeim landshluta og helsta útúngunarstöð rjúpunnar og mikil þekking sem hefur safnast upp um það svæði. Þessi nálgun er einnig útskýrð með þeim rökum að stofnþróun er nægilega lík milli landshluta til að halda líkanagerðinni einfaldari. Önnur svæði eru fyrst og fremst notuð til að sannreyna hvernig mismunandi landshlutar koma út úr talningum til samanburðar og sannreyna þessa forsendu.

Ungahlutföll (hlutfall 1.árs fugls) er afar mikilvæg breyta við meta tímasetningu vetraraffalla, sumarafföll (júni/ágúst) og vetrarafföll (ágúst-apríl). Þar sem rjúpan er mjög skammlífur fugl (3-4 ár), er stofninum skipt upp í tvo aldurshópa, 1.árs fugl annars vegar og eldri fugl hinsvegar.

 • Fyrsti tímapunktur ungahlutfallsmælingar er gert um mánaðarmótin júlí/ágúst, en þá er norðausturland og suðvesturland talið og fjöldi unga með hverri hænu talið (mynd 6) og ungahlutfall á varppar reiknað (mynd 7, heil græn lina). Tímgunarhlutfall rjúpunnar er almennt mjög hátt (90-95%) og eru ungalausar hænur teknar með í þetta meðaltal. Síðsumartalningin gefur því mynd af varpárangrinum (mynd 6) sem skiptir miklu máli fyrir margföldun varpstofnsins yfir í hauststofninn.
 • Annar tímapunktur ungahlutfallsmælingar er framkvæmdur á veiðitíma, en þá er gerð aldursgreining á innsendum vængjasýnum úr afla veiðimanna (október/nóvember) (mynd 7, brotin appelsínugul lína).
 • Þriðji tímapunktur ungahlutfallsmælingar er framkvæmdur samhliða karratalningunni árið efir (mynd 9, rauð punktalína). Mat á ungahlutfalli að vori er afar erfitt og tímafrekt í framkvæmd og því eingöngu framkvæmt á norðausturlandi af reyndu talningarfólki, og suðvesturlandi til samanburðar. Þúsundir ljósmynda í hárri upplausn eru teknar af körrum og þeir aldursgreindir út frá vængjum fuglanna, auk þess sem hræ eru aldursgreind.
Mynd 6: Myndritið sýnir hvernig nýliðunin hefur þróast frá 1981-2018. Gildi fyrir 2018 er áætlað 6,6 ungar/hænu sem er meðaltal s.l. 10 ára, en sjá má að meðaltal síðustu 10 ára er talsvert lægra en meðltal áratugana á undan.

Eins og sjá má á mynd 6 hefur varpárangri hrakað og á mynd 7 (heil græn lína) sést að lengst af hefur ungahlutfallið verið i kringum 80% en hefur lækkað umtalsvert frá árinu 2005. Eðlilegt er að stöku sumur fari illa vegna veðuraðstæðna, en samfelldur viðkomubrestur hefur afgerandi áhrif á margföldunaráhrifin yfir í hauststofninn (sérstaklega yfir lengri tíma) og svo aftur á varpstofninn árið eftir.

Mynd 7: Myndritið sýnir breytingu á ungahlutfalli milli þriggja tímapunkta á fyrsta ári ungfugla (1.árs fugla). Samanburðurinn sýnir glöggt hvernig afföll 1.árs fuglsins færast öll í aukana eftir að veiðitíma lýkur og fram á vor (desember-apríl), en lægra ungahlutfall segir til um hversu mikil afföll 1.árs fuglsins eru umfram eldri fugl. ATH: Gildin fyrir ungahlutföll ad vori eru hliðruð um eitt ár þar sem t.d. ungahlutfall vor 2018 á við um árgang 2017. Af þessu sést að hlutfallið er sveiflukennt og gefur sterklega til kynna hvað afföll 1.árs fugls eru mikil umfram eldri fugl þegar haft er í huga mikil frjósemi rjúpunnar að sumri og ungahlutfallið er nærri 80%, en fellur undir 50% undir lok rjúpnaárs (19. apríl). Myndritið gefur einnig sterkar vísbendingar um að sveiflur í hlutfalli 1.árs fugls að vori hafi eitthvað með sveiflur rjúpnastofnsins að gera.

Á mynd 7 sést hvernig ungahlutfallið lækkar og tekur meiri sveiflum þegar líða tekur á “Rjúpnaárið”. Uppistaða stofnsins í sumarlok er um 75-80% 1.árs fugl og sé ungahlutfall þessarra þriggja tímapunkta borið saman fyrir hvert ár má sjá að lítill munur er á ungahlutfalli síðsumars og framyfir veiðitíma, sem gefur til kynna að afföll 1.árs fuglsins eru ekki mikil umfram eldri fuglinn, þ.e. 1.árs fuglinn er ekki að hríðfalla umfram eldri fuglinn á þessu tímabili. Mikil breyting verður hinsvegar á ungahlutfallinu eftir að veiðitíma lýkur og fram á vor (desember-apríl), sem staðfestir að mestu afföllin í stofninum (uppistaðan er 1.árs fugl) verða á þessu tímabili.

Þessi framsetning kollvarpar hugmyndum sem oft hefur verið haldið fram um að 1.árs fuglinn verði að jafnaði fyrir talsvert meiri afföllum en eldri fugl á frá sumri fram að veiðitíma. Ef mikil afföll eiga sér stað á þessu tímabili, þurfa þau að eiga sér stað samtímis hjá báðum aldurshópum.

Með hlutfallaútreikningi á aldurshlutföllum og mismun karratalninga milli ára má reikna vetrarafföll mismunandi aldurshópa (mynd 8) frá árinu áður. Ekki verður farið í þessa útreikningar hér, en áhugasömum er bent á eftirfarandi heimildir:

 1. Fjölrit NÍ 39 – Vöktun rjúpnastofnsins, ÓKN 1999
 2. Fjölrit NÍ 47 – Vöktun rjúpnastofnsins 1999-2003, ÓKN, JB, KM 2004
Mynd 8: Myndritið sýnir hvernig afföll mismunandi aldurshópa hafa þróast í gegnum árin. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að 1.árs fuglinn er um 80% hauststofnsins en einungis 50-70% varpstofnsins. (my nd 7).

Þó meira fari fyrir öfgum í afföllum eldri fugls í seinni tíð (mynd 8, blá lína), þá eru vetrarafföll 1.árs fugls (mynd 8, rauð lína) megindrifkraftur stofnsveiflna af þeirri einföldu ástæðu að afföllin eru ávallt hærri í þeim aldurshópi, auk þess sem sá aldurshópur telur 80% hauststofnsins .

Margar kenningar eru uppi um ástæður hárra affalla hjá báðum aldurshópum, en nýlegar rannsóknir á vegum NÍ benda til mikillar fylgni milli heilbrigðisástands rjúpunnar í október og þeirra affalla sem stofninn verður svo fyrir á tímabilinu desember-apríl. Því virðist nokkuð líklegt að heilbrigðisþættir séu helstu orsakavaldar sveiflna hjá stofninum (uppistaðan er 1.árs fugl, 75-80%). Afrán, þ.á.m. veiðar er ekki beinn sveifluvaldur líkt og heilbrigðisþættir, en hefur hinsvegar áhrif á mögnun/dempun sveiflna og getur fært til þann punkt þar sem umpólun úr niðursveiflu í uppsveiflu á sér stað og öfugt. Það er umhugsunarvert þegar litið er til þess hversu litlar breytingar á vetrarafföllum þarf til hjá 1.árs fuglinum til að uppsveifla snúist i niðursveiflu og öfugt. Nánar verður fjallað um þetta atriði í næsta pistli og farið verður dýpra í eðli sveiflanna, þ.e. sveifluvakann (vetrarafföllin) og sveiflumögnunina (nýliðun/afföll) og hvernig samband þessarra breyta hafa áhrif á sveiflurnar.

SAMANTEKT:

 1. 1.árs fugl er uppistaðan í hauststofninum, hefur verið um 80% á árunum 1981-2004, en hefur farið lækkandi síðan 2005.
 2. Afföll 1.árs fugls eru hærri en hjá eldri fugli.
 3. Vetrarafföll skýrast líklega af heilbrigðisþáttum sem eru mælanlegir snemma að hausti (október).
 4. Vetrarafföll 1.árs fugls stýra leitni sveiflunnar.
 5. Mestu vetrarafföllin hjá 1.árs fugli eiga ser stað a tímabilinu desember-april.
 6. Varpárangur/sumarafföll og afrán hafa áhrif á mögnun/dempun sveiflunnar.

Categories: Greinar Rjúpa

Rjúpnaspeki. Áttaviti fyrir veiðimenn. Pistill 1, byrjunarreitur

Nýafstaðnar karratalningar gefa tilefni til bjartsýni fyrir rjúpnaveiðina á komandi hausti, varpstofninn er í ágætu standi og er við það að ná þeim hæðum sem gjarnan er horft til í samanburði milli ára. Rjúpnaumræðan á það til að snúast um samanburð við “gömlu tímana” og um væntingar að einhvern tíman muni stofninn ná sér á það strik, annaðhvort af sjálfsdáðum eða með einhverskonar aðgerðum. Stundum er horft til stofnhámarksins 1955 þegar stofninn er sagður í sögulegu hámarki, en sú kynslóð veiðimanna sem upplifði stofnhámarkið 1986 minnist þess tíma einnig með söknuði, nóg var af rjúpu (hauststofn um 1,5 milljónir fugla), leyfilegt að veiða 69 daga (15. október – 22. desember) og litlar hömlur á veiðunum.

En hversu raunhæfar eru væntingar þeirra sem láta sig málið varða, hvaða forsendur er miðað við og eru þær byggðar á skilningi og innsýn í eðli þeirra breytinga sem stofninn hefur tekið síðan 1955, hvaða þættir hafa þar mest áhrif og með hvaða hætti mætti breyta til að ná settum og raunhæfum markmiðum?

Samanburðarhæfar talningar hófust árið 1981, fyrsta hauststofnahámarkið í þeirri talningaröð var árið 1986 (1,5 milljónir fugla) sem síðan hafa farið lækkandi (1998: 1.0 milljónir fugla; 2005: 800.000 fuglar) og í ár stefnir í að stofninn geti orðið rúm 1 milljón fugla (m.v. varpárangur sumarsins verði 6,6 ungar/hænu). Samkvæmt reglugerð hefur 12 daga veiðitímabili verið úthlutað í ár (26. október – 18. nóvember) sem eru fáir dagar m.v. fyrri tíma og um fátt eitt er rætt meira en dagafjöldann og hvort eða hvernig veiðar hafa áhrif á rjúpnastofninn. Inní þessa umræðu blandast margir þættir sem nauðsynlegt er að kunna skil á til að geta tekið virkan þátt í nauðsynlegri umræðu um veiðistjórnun almennt og hvernig skuli haga rjúpnaveiðum m.v. stöðu stofnsins hverju sinni.

Djúp gjá er á milli þeirra sem vilja takmarka veiðarnar enn frekar, jafnvel banna og þeirra sem telja að þáttur veiða sé veigaminni en haldið er fram, jafnvel engin. Raunveruleikinn er að öllum líkindum einhverstaðar þarna á milli og uppi eru margar tilgátur sem því miður eru of fáar studdar gögnum sem þó er nóg af, þökk sé fjárframlagi veiðimanna til vöktunar- og rannsóknaverkerfa í gegnum veiðikortakerfið.

Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) hefur haft veg og vanda að gagnasöfnun í gegnum vöktunaráætlunina og önnur rjúpnatengd verkefni (t.d. heilbrigðisrannsóknir), Umhverfisstofnun (UST) hefur svo haldið utanum gagnaöflun um veiðina sjálfa (veiðitölur eftir landshlutum og fjöldi sóknardaga). Upplýsingagildi gagnanna er þó talsvert meira en nýtt hefur verið í umræðunni til þessa, sem hefur skort breidd og mörgum steinum þarf að velta við eins og lesendur munu komast að. Veiðimenn sjálfir hafa fram til þessa ekki nýtt sér þessi gögn í málflutningi sínum nema að takmörkuðu leiti, enda er framsetning og túlkun þeirra upplýsinga sem gögnin framkalla engan vegin einföld og galopin fyrir túlkunum í sumum tilfellum.

Í sinni einföldustu mynd byggir umræðan á línuritum þeim sem sjá má á Mynd 1 og Mynd 2, þ.e. þar sem álykta má hversu varpstofninn er stór að vori og hvernig hauststofninn lítur út þegar tekið hefur verið tillit til nýliðunarinnar yfir sumarið.

Mynd 1: Myndritið sýnir niðurstöður árlegra karratalninga, þ.e. mat á stærð varpstofnsins yfir landið allt. Gildin taka í raun einungis mið af talningum á norðausturlandi, sem eru helstu varpstöðvar rjúpunnar, sem er síðan margfaldað með stuðli fyrir allt landið.
Mynd 2: Myndritið sýnir reiknaðan hauststofn í nóvember fyrir allt landið þegar búið er að taka inní niðurstöður ungatalningar í júlí/ágúst. Einungis gildi af norðausturlandi eru notuð við útreikningana sjálfa, sem síðan eru “extrapoleruð” yfir landið, líkt og gert er fyrir útreikning á varpstofn að vori. Ferillinn er í grunninn eins útlítandi og fyrir varpstofninn, en magnast og dofnar í takt við varpárangur (unga/hænu), t.d. árin 1989 og 1991 er ungahlutfall talsvert hærra en í meðalári og lyfta upp hauststofninn. Öfugt gerist svo t.d. árið 2011, þegar ungahlutfall er undir meðallagi og dregur hauststofninn niður.
Mynd 2: Myndritið sýnir reiknaðan hauststofn í nóvember fyrir allt landið þegar búið er að taka inní niðurstöður ungatalningar í júlí/ágúst. Einungis gildi af norðausturlandi eru notuð við útreikningana sjálfa, sem síðan eru “extrapoleruð” yfir landið, líkt og gert er fyrir útreikning á varpstofn að vori. Ferillinn er í grunninn eins útlítandi og fyrir varpstofninn, en magnast og dofnar í takt við varpárangur (unga/hænu), t.d. árin 1989 og 1991 er ungahlutfall talsvert hærra en í meðalári og lyfta upp hauststofninn. Öfugt gerist svo t.d. árið 2011, þegar ungahlutfall er undir meðallagi og dregur hauststofninn niður. 

Af þessum myndum sést að bæði varpstofn og hauststofn hafa í gegnum tíðina átt nokkuð í land að ná fyrri hæðum (1986), hámörkin hafa lækkað meðan botnarnir virðast stöðugir, en í ár eru ágætar líkur á að stofninn rjúfi 1 milljón fugla múrinn sem þykja stórfréttir miðað við það sem á undan er gengið. Undir yfirborði þessarar einföldu framsetningar er hinsvegar flókin atburðarás sem stýrir stofnstærðinni og séu gögnin rýnd kemur ýmislegt gagnlegt í ljós sem mun hafa áhrif á hvernig umræðan um ástand rjúpnastofninn og framkvæmd veiðanna (veiðistjórnunin) mun þróast á næstu árum.

Ekki verður hjá því komist að blanda fjölda leyfilegra veiðidaga, fyrirkomulagi veiðitímabila og heildarveiði inn í þessa umræðu. Mynd 3, 4, 5 sýna hvernig fjöldi veiðidaga hefur breyst , hvernig veiðitímabilum hefur verið stýrt og tölulegt yfirlit yfir heildarveiðina sem þetta fyrirkomulag hefur skilað í gegnum árin (þar sem gögn eru aðgengileg).

Mynd 3: Myndritið sýnir hvernig fjöldi leyfilegra veiðidaga hefur tekið breytingum á s.l. 150 árum. Á fyrri hluta þessa tímabils er ólíklegt að rjúpnaveiðar hafi verið stundaðar allan ársins hring, sérstaklega þar sem rjúpan var aðallega veidd til útflutnings og þurfti að vera í hvítum ham þegar hún var seld. Einnig er líklegt að veiðitími hafi tekið mið af því hvenær skip sigldu frá Íslandi. Bent er á að fjöldi veiðidaga innan hvers veiðitímabils náði fram yfir áramót allt til ársins 1920 þegar veiðar voru bannaðar tímabundið og var síðan leyft frá 15. október til 31. Desember (77 dagar) fram til ársins 1954, þegar veiðitíminn var styttur til 22. desember (69 dagar). Frá árinu 2005 hefur veiðitíminn tekið endurteknum breytingum. 
Mynd 4: Myndritið sýnir hvernig veiðitímabil hafa tekið breytingum á s.l. 150 árum, þar sem miðað er við “Rjúpnaárið” sem hefst 20. apríl (dagur 1) og markar veiðilaust tímabil fram á haust. Þá tekur við veiðitímabil, en frá 2007 hefur veiðitímabilið verið brotið upp. Að lokum tekur við veiðilaust tímabil fram að lokum “Rjúpnaársins” 19. apríl. 
Mynd 5: Myndritið sýnir skráðar útflutningstölur annarsvegar og skáðar veiðitölur hinsvegar. Útflutningstölurnar ættu að gefa nokkuð góða mynd af umfangi veiðanna á þessu tímabili og staðfesta einnig eðli stofnbreytinga með reglulegum hámörkum og lágmörkum. Um kvart milljón fugla (250.000) voru veiddar um miðbik annars áratugar síðustu aldar en áætlað er að um 50.000 fuglar hafi veiðst 2017 (skv. síðustu staðfestu tölum). 

Til framtíðar er nauðsynlegt að veiðimenn átti sig á tilgangi, útfærslu og mikilvægi gagnasöfnunarinnar, öðlist skilning á innihaldi gagnanna, framsetningu niðurstaða og ályktana með gagnrýnu hugarfari, geri sig gildandi í umræðunni og sýna fræðimönnum bæði aðhald og stuðning við þeirra mikilvægu vinnu. Málflutningur veiðimanna verður að byggjast á skilningi á fyrirliggjandi gögnum og hvernig þau eru notuð til framsetningar á upplýsingum. Þá aðeins getur þekking veiðimanna nýst til fullnustu séu tilgátur þeirra studdar gögnum og því þurfa veiðimenn að staldra aðeins við og ná áttum áður en lengra er haldið.

Veiðimenn eru komnir lengra í þessarri rýni en menn kunna að halda, en fagráð SKOTVÍS hefur síðan 2011 unnið markvisst að því að varpa ljósi á upplýsingagildi fyrirliggjandi gagna og hefur birt greinar í Tímaritinu SKOTVÍS um niðurstöður sínar (2013 og 2015), þar sem er varpað skýrara ljósi á ástand rjúpnastofnsins og áhrifum vegna veiða. Aukinn skilningur og þekking er að skapast innan SKOTVÍS og á næstu vikum verða birtir vikulegir pistlar sem er aftrakstur þessarar vinnu, um helstu atriði sem veiðimenn nútíðar og framtíðar þurfa að kunna skil á til að skilja til fullnustu grunn umræðunnar sem halda þarf uppi.

Í þessum pistlum verður leitast við að einfalda framsetningu á helstu niðurstöðum fræðimanna og setja túlkanir í samhengi við upplifun veiðimanna, ásamt nokkrum nýjum áhugaverðum og mikilvægum túlkunum sem hafa ekki ratað í sviðsljósið, en mun nú vonandi verða þess valdandi að umræðan um rjúpnastofninn auðgist frekar. Hugmyndin er að skapa forsendur fyrir veiðimenn og aðra áhugasama til að öðlast betri innsýn og yfirsýn yfir málaflokkinn, þeir taki virkari þátt í umræðunni og miðli af reynslu sinni næstu árin með sterkri tilvísun í sömu gögn og NÍ/UST notast við í sinni vinnu.

Áður en lengra er haldið vil ég þakka Ólafi K. Nielsen fyrir aðstoðina í þessu ferli fyrir að góðfúslega láta SKOTVÍS í té þau gögn sem lögð eru til grundvallar í þessum pistlum, fyrir óteljandi samtöl og lærdómsrík skoðanaskipti og sýnda þolinmæði við að útskýra aðferðafræði vöktunarplnasins sem veita svo ómetanlega innsýn inní flókið ferli.

Í næsta pistli verður gefin innsýn í öflun vöktunargagna sem er grunnurinn að frekari umræðu.

Categories: Greinar Rjúpa

Um framtíð skotveiða

“Þá er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi.”

Ofangreint slagorð SKOTVÍS fangar vel þau grunngildi sem siðareglur félagsins byggja á. Dýravernd, náttúruvernd, almenn fræðsla, virðing og góð nýting bráðar eru meginþema þeirra.

Í haust fagnar SKOTVÍS 40 ára afmæli sínu sem framvörður skotveiðimanna á Íslandi. Frá upphafi hefur félagið haft siðareglur sínar í öndvegi og stuðlað að bættri skotveiðimenningu. Árlega kemur út SKOTVÍS blaðið og á afmælinu í haust þann 23. september mun blaðið koma út veglegra en nokkru sinni.

En hver verður framtíð skotveiða á Íslandi? Hvar og hvað verður leyft að veiða og verður yfirhöfuð leyfilegt að veiða?
Fyrir okkur skotveiðimenn er vert að velta þessum spurningum upp. Aðstæður í samfélaginu hafa breyst hratt síðustu ár sem og viðhorf almennings og stjórnvalda til skotveiða. Það viðhorf ræðst af mörgum þáttum, en þeir mikilvægustu eru án efa flutningur fólks úr dreifbýli í þéttbýli. Rannsóknir í Svíþjóð og USA sýna fram á að viðhorf til skotveiða verður neikvæðara með hverri kynslóð sem elst upp í þéttbýli og hafa minni tengsl við náttúruna. Þráðurinn við náttúruna og sjálfbæra lifnaðarhætti er að slitna.

Skýrt dæmi um þessa þróun er teiknimyndin um Bamba sem kom út 1942. Stórmerkileg mynd sem var fyrsta teiknimyndin sem teiknuð var í þrívídd og naut mikilla vinsælda. Dýrin voru persónugerð, öll voru þau vinir en veiðimaðurinn vondur. Þegar Bambi fæðist er sviðsetningin eins og úr biblíunni, hann er í miðju með öll dýrin í kring og faðirinn lengra í burtu, uppi á hæð og horfir á. Frelsarinn er fæddur. Sú augljósa staðreynd að náttúran er grimm, dýr éta önnur dýr lifandi og rífa á hol er óralangt í burtu frá þessum Disney veruleika.

Afleiðingin varð mikil andstaða við dádýraveiðar í USA og mikið dró úr veiðunum. Dádýrunum fjölgaði hratt eftir það og í dag er þetta stórt vandamál á vegum. Um 1.200.000 tilvik eru skráð árlega þar sem árekstur verður á milli dádýra og farartækja og um 200 manns láta lífið í þessum árekstrum. Árlega er um 3 milljarða USD eytt í aðgerðir til að koma í veg fyrir eða draga úr þessum skaða. Kaldhæðnin í þessu öllu saman er sú staðreynd að bókin um Bamba er skrifuð af austurrískum veiðimanni sem vildi sýna fram á sjálfbærni veiða og veiðimanninn sem hluta af náttúrulegri hringrás.

Mig langar að biðja alla veiðimenn um að hafa í huga að það svigrúm sem veiðimenn höfðu fyrir aðeins fáeinum árum var umtalsvert meira en við búum við í dag.

Það er einhvern veginn þannig að nánast allar breytingar sem gerðar eru á veiðilöggjöf, reglugerðum og öðrum þáttum sem hafa áhrif á skotveiðar eru í sömu áttina, þ.e. að minnka, stytta, draga úr og hefta aðgengi.

Við skotveiðimenn höfum í þessum efnum sýnt ótrúlegt langlundargeð og látið breytingarnar yfir okkur ganga án mikilla mótmæla með þá von í brjósti að einn daginn breytist umræðan og skilningurinn aukist. Að þegar talað er af stolti um veiðimannasamfélagið Ísland, sem byggði upp velferðarsamfélag með öflugum sjávarútvegi byggt á fiskveiðum, þá muni menn eftir því að í landinu er ekki síður merkileg hefð og saga tengd skotveiðum. Því þegar forfeður okkar drógu björg í bú leituðu þeir ekki bara á sjóinn, heldur líka í móa, mela, hlíðar og fjöll þar sem þeir skutu, háfuðu eða einfaldlega smöluðu saman fuglum sem nýttir voru til matar.

Það skiptir okkur sem samfélag máli að sú hefð og þekking sem veiðimenn búa yfir hverfi ekki, því þar með myndi skilningur okkur á því hver við vorum og hvaðan við komum minnka til muna.

Nú liggja fyrir hugmyndir um stofnun miðhálendisþjóðgarðs og endurskoðun á löggjöf um veiðistjórnun ásamt endurskoðun á skotvopnalöggjöf.
Það er ljóst að þörfin fyrir SKOTVÍS sem hagsmunasamtök veiðimanna hefur aldrei verið meiri og sú þörf á aðeins eftir að vaxa.

Veiðimenn verða að opna sig og taka virkari þátt í umræðunni. Ef við tölum ekki okkar máli og verjum rétt okkar mun enginn gera það, framtíð skotveiða er í okkar höndum. Gangið í SKOTVÍS.

Categories: Greinar

Tilkynning frá stjórn Skotvís

Af tilefni umræðu á Skotveiðispjallinu á Fésbókinni þá vill stjórn Skotvís koma eftirfarandi á framfæri. Samkvæmt úrskurði Forsætisráðuneytis 11.10.2016 þá er óhemilt að selja veiðileyfi til fuglaveiða á þjóðlendum þrátt fyrir að þær séu í afréttareign eða í annarri óbeinni eign. Einnig er óheimilt að hindra för og eða rukka almenning fyrir að keyra þá vegi eða slóða sem liggja að viðkomandi þjóðlendum. En heimilt að er loka vegum/slóðum vegna aurbleytu eða annað og skal það yfir alla ganga sem þurfa um þann veg/slóða. Með t.d skála þá eru þeir eign Upprekstrarfélaga og er þeim í sjálfvald sett hverjum þau leigja. þrátt fyrir viðkomandi skáli sé á miðri þjóðlendu. Í þessu tilviki er um að ræða Víðidalstunguheiði og skal þess getið að hún er að hluta eignalönd og annars vegar þjóðlenda. á Vef óbyggðanefndar er að hægt að sjá nákvæman úrskurð um Víðidalstunguheiði og kort sem sýnir mörkin. Í dag vantar námkvæmari kort sem sýna gps punkta þjóðlendna og eignalanda og hefur Skotvís hafið skoðun á því hvernig er hægt að bæta úr því fyrir veiðimenn. Að þessu sögðu þá hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir íbúa sveitafélaga ef það er farið að takmarka afnot íbúa þess og eða rukka fyrir afnot á svæði sem hefur í áranna rás verið talinn réttur hvers og eins í að afla sér matar í íslenskri náttúru. Hvað kemur næst á að banna berjatínslu í landi sveitafélagsins nema að fólk borgi fyrir það, þetta hlýtur vera sambærilegt og ef um skotveiðar er að ræða ef ekki þá er um grófa mismunun á hópi fólks ræða. En stjórn mun fylgjast með þessu máli .Fyrir hönd stjórn SKOTVÍS. Indriði Ragnar Grétarsson​ formaður Skotvís.

Categories: Fréttir

Wordpress Social Share Plugin powered by Ultimatelysocial