Höfundur: admSe3Bn7

Fundargerð aðalfundar 2018

Aðalfundur Skotveiðifélag Íslands 2018.

Fundurinn var haldinn að Ofanleiti 2 í Reykjavík og kl. 14.00.

Samkvæmt fundarboði var gert ráð fyrir erindi frá Umhverfisstofnun og að hefðbundin aðalfundarstörf hæfust kl. 14.50. Fulltrúi Umhverfsstofnunar forfallaðist en sýndar voru glærur frá honum sem talað hafði verið yfir.

Eftir sýninguna urðu almennar umræður um Miðhálendisþjóðgarð, en Einar Haralds og Arne Sólmundsson fjölluðu m.a. um ráðstöfun fjár sem veiðimenn leggja til og ætti að nýtast þeim. Um þetta væru UST og SKOTVÍS væru samstíga.

Indriði Grétarsson, formaður SKOTVÍS setti formlegan fund kl. 14.50 og lagði til að Rúnar Bachman yrði kjörinn fundarstjóri. Var hann kjörinn með lófataki.

Gerði hann að tillögu sinni að Ívar Pálsson yrði kjörinn fundarritari. Var hann kjörinn með lófataki.

Fundarstjóri óskaði eftir upplýsingum um hvort einhver hefði athugasemd við fundarboðun eða lögmæti fundar. Engar athugasemdir komu fram og því var gengið til dagskrár.

1. Skýrsla stjórnar

Formaður gerði grein fyrir starfsemi félagsins. Störf hefðu verið með hefðbundnu sniði. Formaður fór á fund hjá Nordisk Jægersamvirke og FACE. Gerði hann stuttlega grein fyrir því og m.a. hversu pólitískt starfið væri. Mikil áhersla væri á tengslanet inn í stjórnmálaflokka. Þróun erlendis væri samvinnu á víðari grundvelli milli ólíkra aðila og samtaka. Norðurlöndin væru t.d. að vinna saman að skotvopnalöggjöf. Samstarf væri á milli bogveiði og skotvopnasamtaka. Mörg skotveiðifélög væru í samstarfi við fuglaverndarsamtök. Eftir ferðina hafi verið settur á stofn vinnuhópur um hin ýmsu mál sem vinna þurfti að hagsmunum félagsins. Haldinn var fundur um málin með þessum aðilum. M.a var rætt um samstarf við fuglavernd og um veiðistjórnun. Mikli vinna hafi farið fram við nýtt félagakerfi. Mikil umræða hafi verið um friðun svartfugls. Félagið hafi tekið undir sjónarmið um friðun tiltekinna tegunda. Um sumarið hafi komið upp umræða um þjóðlendur og eignarlönd m.a. í Vestur-Húnavatnssýslu. Samstarf við fuglavernd hafi farið af stað með fundum og tölvupóstsamskiptum. Skotvís blaðið kom út en dreifing þess mistókst og enn hafi ekki verið greitt úr því. Ráðstefna um veiðistjórnun hafi farið fram í haust. Mikil samleið virtist með skoðunum SKOTVÍS og Umhverfisstofnunar. Mörg verkefni séu framundan t.d. hvað varðar veiðistjórnun, skotvopnalög o.fl. Samningur hefur verið gerður við Loftmyndir um að sýna mörk eignarlanda en stefnt hefur verið að því um langa hríð. Félögum hefur fjölgað og telur formaður það m.a. að þakka sýnileika á veiðikortanámskeiðum. Formaður hefur starfað í 6 ár fyrir hönd félagsins en mun ekki gefa kost á sér aftur. Þakkar hann traust og samstarf á liðnum árum.

Nokkrar umræður urðu um skýrslu stjórnar. Ívar Pálsson spurði m.a. um samninginn við Loftmyndir þ.e. hvað fælist í honum. Formaður svaraði því til að ætlunin væri að skrá með nákvæmum hætti mörk þjóðlendna og eignarlanda. Ekki væri ákveðið hvernig aðgangi yrði stýrt.

2. Ársreikningar

Gjaldkeri gerði grein fyrir ársreikningi. Meðal annar kom fram að félagsmönnum hafi fjölgað 1070 í um 1300. Rekstartap væri upp á kr. 227.703- fyrir utan fjármagnsliði en upp á kr. 58.644 eftir fjármagnsliði. Eignir félagsins næmu kr. 6.853.991-. Fram kom að skoðunarmenn hefðu ekki skrifað undir reikninginn eigin hendi en báðir staðfest hann munnlega. Annar skoðunarmaðurinn var á fundinum og staðfesti þetta. Skoðunarmenn myndu skrifa undir við heimkomu annars þeirra sem staddur var erlendis.

Spurt var um styrk til SKOTREYNAR. Skotreyn sótti um kr. 3.000.000,- Stjórn ákvað að styrkja félagið um kr. 1.500.000- enda yrði ekki veittur sérstakur styrkur til félagsins næstu þrjú árin þ.e. 2017 -2019. Styrkurinn var vegna ýmissa framkvæmda. Nokkrar umræður urðu um þetta m.a. farið yfir söguna í samstarfi félaganna.

Gjaldkeri vakti athygli á að samstarfssamningur SKOTVÍS og Skotreyn rynni út á árinu.

Arne spurði um hvernig stjórn liti á þetta samstarf. Vinna hefði verið lögð í að skoða þetta samstarf. Kjarninn væri öflun félagsmanna. Stjórn hlynnt samstarfinu. Nokkrar umræður urðu um þetta.

Elvar Árni óskað stjórn til hamingju með að félagmenn hefði líklega ekki verið fleiri. Taldi mikilvægt að halda í samstarfið við Skotreyn.

Arne spurði um greiðsluna til Sögunefndarinnar (greiðsla til aðila sem ráðinn var til að rita sögu SKOTVÍS að fjárhæð kr. 1.000.000) hvort það væri einskiptisgreiðsla. Indriði gerði grein fyrir. Ívar og Sólmundur fóru yfir stöðuna. Bíður ákv. stjórnar að taka ákv. frekari greiðslur og fjárhagsáætlun sem sögunefndin hefur lagt til. Fundarmenn tóku undir að mikilvægt væri að ljúka ritun sögunnar. Dúi tók undir það hjá Ívari og Sólmundi að mikilvægt væri að klára að rita söguna. Hvernig staðið væri að útgáfu væri svo sérstakt mál.

Ársreikningurinn var borinn upp til samþykktar og var samþykktur með lófataki.

3. Tillaga að lagabreytingu

Svohljóðandi lagabreyting var kynnt með fundarboði og liggur fyrir fundinum til afgreiðslu:

Við 7. gr. bætist svohljóðandi málsliður:

“Formanni skal greidd þóknun fyrir starf sitt sem ákveðin skal á aðalfundi.”

Í samræmi við breytingu á 7. gr. er lagt til að bætt verði við nýjum málslið sem yrði nr. 5 við 13. gr. sem yrði svohljóðandi og númer annarra töluliða 13. gr. breytast til samræmis:

„5. Ákvörðun um þóknun formanns.“

Greinargerð með tillögu stjórnar: Rætt hefur verið um að ráða félaginu á ný framkvæmdastjóra eða starfsmann enda mikið af verkefnum framundan. Tillaga stjórnar er að í stað þess taki formaður að sér það hlutverk og fá þá greitt fyrir starf sitt sem formaður.

Formaður gerði grein fyrir tillögunni um greiðslur til formanns. Mikilvægt að taka á þessu því ekki lengur sem sjálfsögðum hlut að menn gæfu vinnu sína því mikil vinna væri hjá formanni á vinnutíma. Ívari Pálssyni hafi verið fenginn til að orða tillöguna. Stjórn vildi varpa þessu fram til umræðu og skoðunar.

Elvar, spurði um hvort skoðað hefði verið hvernig önnur félög gerðu þetta. Formaður svaraði því til að þetta væri á ýmsan hátt.

Arne tók undir að það væri ekki spurning um að tímarnir væru breyttir. Verkefnin þess eðlis að kallaði á starfsmann. Spurning um þessa eðlisbreytingu. Taldi að koma þyrfti skýrar fram hjá stjórn hvert er stefnt væri t.d. með aðra stjórnarmenn. Eru talsverðar rekstarlegar forsendur fyrir félagið. Hvað með tekjur á móti?

Frank, spurði um hvað væri verið að hugsa um í fjárhæð og hvort gert væri ráð fyrir að aðrir fengju greitt?

Formaðu gerði grein fyrir því að stjórnin hefði viljað taka upp þessa umræðu en upphæð hefði ekki rædd. Vissulega mætti ræða um aðra líka.

Ívar fór yfir að hann hefði talið að rétt væri að gerð yrði lagbreyting ef það ætti að gera þetta þar sem um væri að ræða grundvallarbreytingu frá því sem verið hefði. Hann hefði orðað tillöguna en ekki lagt mat á forsendur hennar.

Dúi fór yfir hugmynd um þetta þ.e. að stofna starfshóp sem hann hafði áður varpaði fram til strategíunefndar Skotvís. Las hann upp hugleiðingar sínar um þetta sem hann hafði sent hópnum. Taldi þetta skipta öllu máli til að endurnýja félagið og til að koma í veg fyrir „stofnhrun“ í félaginu en félagsmenn væru flestir á miðjum aldri og eldri. Fjárhagur félagsins standi hins vegar ekki undir þessu eins og það er í dag. Hefndargjöf að borga hluta því þá verði gerðar kröfur sem erfitt sé fyrir formann að standa undir. Verður að afla teknanna fyrst.

Dúi lagði fram svohljóðandibreytingartillögu:

Legg til frestun á afgreiðslu tillögunnar og henni vísað til stjórnar til frekari úrvinnslu.

Jón Þór, tók undir með Dúa. Telur nálgunina of þrönga. Mögulega betra að hafa starfsmann því annars útilokar það mögulega ýmsa starfsmenn.

Einar Haraldsson, tók undir með Dúa en vill ekki að leiði til frestunar um ár.

Dúi, ef ráðinn yrði starfsmaður gæti það mögulega verið betra að greiðslur færu til hans en stjórnar.

Elvar, ekkert í lögum sem bannar slíkar greiðslur. Mál leysa með því að vísa tillögu til stjórnar.

Frank, óljóst hvað menn vinna. Leggur til að fenginn verði aðili til að vinna að stefnumótun í þessu.

Sólmundur, heppilegra að leita til aðila að utan þ.e. sérfræðinga.

Hjörtur: Heppilegra að ráðinn starfsmaður en að hluti stjórnar fái greitt. Á að ráða inn tímabundna sérfræðinga eftir þörfum.

Jón Víðir: Það var starfsmaður. Hver er munurinn og hver var reynslan af því. Sniðugt að skoða í því samhengi.

Arne, tekur undir allt sem Elvar sagði. Ræddi um fjárhagsáætlun, kannski betra að leggja meiri áherslu á fjárhagsáætlun. Þegar hann var í stjórn var leitað til verktaka og það heppnaðist vel.

ÍP fór aðeins yfir forsögu þess að setja í lög.

Áki, vildi koma á framfæri að hann bæri kannski einhverja ábyrgð á því að mikið liggi við. Verður að fá starfsmann nú á þessu ári því margt sé framundan. Er of seint á næsta ári. Farið hafi verið á leit við hann að hann tæki að sér formennsku. Hann væri sjálfstætt starfandi og erfitt yrði fyrir hann að ýta verkefnum til hliðar án þess að fá eitthvað greitt t.d. kr. 100.000 á mánuði. Sett hafi verið fé í sögu SKOTVÍS og til Skotreynar án þess að ákv. á aðalfundi. Ekki sé hægt að bíða.

Elvar, nýmæli að greitt fyrir stjórn en ekki nýmæli að greitt sé fyrir vinnu. Ekki ástæða til að breyta lögum. Greitt fyrir ýmislegt en ekki lobbyisma. Hugsanlegt að greitt hafi verið fyrir fundi þegar stjórnvöld hættu að greiða. Nú eru allir fundir á dagvinnutíma. Sjálfsagt að stjórnin móti tillögu sem lögð verði fyrir félagsfund.

Arne, telur rétt að engan tíma megi missa. Var búinn að semja ályktun. Ekki breyta lögum en fundurinn verður að ákveða. Fundurinn hefur heimild til að setja fjármuni í þetta. Rétt hjá Áka að það þurfi að byrja strax.

Indriði tekur undir það sem að framan er rakið og lagði áherslu á að stjórn hefði viljað fá umræður um málið.

Arne lagði fram svohljóðandi tillögu:

„Ályktun aðalfundar SKOTVÍS 2018, laugardaginn 3. febrúar 2018.

Aðalfundur er sammála túlkun fráfarandi stjórnar að nauðsynlegt sé fyrir stjórn að hafa svigrúm til að inna af hendi greiðslur til stjórnarmanna sem taka að sér ákveðin og skilgreind verkefni fyrir hönd félagsins. Aðalfundur felur því stjórn að semja starfsreglur. Taka þarf afstöðu til þeirrar meginreglu að félagsmenn fái öllu jafna ekki greiðslur fyrir vinnuframlag sitt í þágu félagsins og að eingöngu sé greitt fyrir beinan útlagðan kostnað. Því þurfi starfsreglur að skilgreina vel ramman í kringum fyrirkomulag greiðslna og aðlaga lög félagsins þ.a. þau styðji við slíka framkvæmd. Einnig þarf að tryggja að allur kostnaður sem hlýst af slíkum greiðslum, sé tilgreindur í fjárhagsáætlun. Nauðsynlegt er að starfsreglur (með heimild í lögum) taki á því hver hafi heimild til að skuldbinda félagið þegar kemur að greiðslum sem þessum (sérstaklega stjórnarmanna) og hnykkja þarf á því hvernig staðið er að samþykkt fjárhagsáætlunar sem getið er um í núverandi lögum félagsins.

Vegna þess hversu mörg áríðandi og tímafrek mál bíða, leggur aðalfundur til að 1.200.000,- (að hámarki) verði varið til slíkra greiðslna þar til starfsreglur hafa verið samþykktar. Stjórn er því falið að fara með ráðstöfun þessarar upphæðar þangað til.“

Töluverðar umræður urðu um tillöguna.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Tillögu stjórnar að lagabreytingu hafnað með öllum greiddum atkvæðum.

4. Félagsgjöld

Tillaga um að félagsgjöld verði óbreytt kr. 6.000,-.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

5. Kosning stjórnar

Í framboði til formanns var Áki Ármann Jónsson.

Var hann kosinn með öllum greiddum atkvæðum.

Í framboði til varaformanns var Jón Víðir Hauksson.

Var hann kosinn með öllum greiddum atkvæðum.

Í framboði til meðstjórnenda voru:

Nanna Traustadóttir

Jón Þór Víglundsson

Einar Haraldsson

Voru þau kosinn með öllum greiddum atkvæðum.

Emil Birgir Hallgrímsson og Sigurbjörn Snjólfsson, sitja áfram en þeir voru kjörnir til tveggja ára árið 2017.

6. Kosning skoðunarmanna

Kosnir voru:

Frank Þór Franksson

Kolbeinn Friðriksson

Til vara:

Einar Hrafn Jóhannesson

7. Önnur mál

· Þarf SKOTVÍS að endurskilgreina sig?

Indriði fór yfir, nokkrar umræður urðu um þetta. Ákveðin skref stigin í þessu s.s. með samstarfi við fuglavernd o.fl.

· Nýtt félagakerfi

Indriði gerði grein fyrir og kynnti að félagið hefði tekið upp nýtt kerfi Nóri. Flest íþróttafélögin hefðu tekið upp þetta kerfi. Sækir allar upplýsingar þjóðskrá.

· Sólmundur Tr. Einarsson bar upp svohljóðandi tillögu.

„Lagt er til að fundurinn álykti að stefnt skuli að því að lokið verði við ritun og útgáfu bókar um sögu skotvís fyrir 23. september nk.“

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Hjörtur velti því upp hvort rétt væri að skilgreina fjárhæð í verkefnið. Ljóst væri að stjórn hefði þó heimild til að ákveða þetta.

Umræðum lokið nýjum formanni falið að slíta fundinum. Þakkaði nýkjörinn formaður kosningu sína og stjórnar en þakkaði um leið fráfarandi formanni og stjórnarmönnum fyrir gott starf í þágu félagsins.

Fundi slitið kl. 17.36.

Categories: Fréttir

Ný stjórn kjörin á aðalfundi 2018

Áki Ármann Jónsson var kosinn nýr formaður félagsins á aðalfundi Skotveiðifélags Íslands. Áki Ármann er líffræðingur að mennt og var Veiðistjóri frá 1998-2003 og síðar sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun 2003-2017. Indriði R. Grétarsson, fyrrverandi formaður, gaf ekki kost á sér til endurkjörs eftir 6 ára stjórnarsetu, þar af 1 ár sem formaður. Í nýrri stjórn sitja nú auk Áka Ármanns, Jón Víðir Hauksson sem kjörinn var í embætti varaformanns, Jón Þór Víglundsson, Nanna Traustadóttir, Einar Haraldsson, Emil Birgir Hallgrímsson og Sigurbjörn Snjólfsson.

Nýrrar stjórnar bíða svo fjölmörg krefjandi verkefni, þar sem stofnun Miðhálendisþjóðgarðs ber hvað hæst, breytingar á veiðistjórnun og vopnalögum. Nýkjörin stjórn félagsins mun halda áfram að leggja áherslu á hagsmunamál skotveiðimanna í góðri samvinnu við önnur útivistar og náttúruverndarsamtök og stjórnvöld.

“Það er ánægjulegt að sjá að félagsmönnum fjölgaði á síðasta ári og mun ný stjórn halda áfram að byggja upp innviði félagsins á fertugasta starfsári þess, öllum skotveiðimönnum landsins til heilla” sagði Áki Ármann við lok aðalfundar.

Categories: Fréttir

Kryddlegnar rjúpur Sigmars B

4 rjúpnabringur (hráar)

Lögur:
2 dl ólífuolía
1/2 dl rauðvínsedik
1/2 dl balsamikedik
1 msk sojasósa
1/1 rauðlaukur, fínt saxaður
8 einiber
1 lárviðarlauf
1 tsk timian
1 tsk rósmarin
1 tsk salt
1 tsk grófmalaður svartur pipar

  • A. Leginum er blandað vel saman. Hann er hitaður í 40-60 gráður og látinn svo kólna.
  • B. Rjúpurnar lagðar í löginn og látnar liggja í honum í 48-60 klukkustundir. Skálin með rjúpnabringunum á að vera í ísskáp

 

Fuglinn minn heitir Rjúpa

4 rjúpur
1,5 tsk. salt
1 tsk. tímian eða þurrkað blóðberg
4 msk. smjör

1. Rjúpurnar eru kryddaðar og steiktar í smjörinu á pönnu.
2. Þá eru þær settar í 175° heitan ofn og steiktar þar í 15 mín.
3. Rjúpurnar eru teknar úr ofninum, bringur og læri skorin frá.

Þá er lagað gott soð og í það þarf:
1,5 l vatn
2 gulrætur skornar í sneiðar
2 gulir laukar skornir í sneiðar
100 gr. sellerírót skorin í bita
1 búnt gróft söxuð steinselja
rjúpnabein

1. Grænmetið og rjúpnabeinin eru steikt á sömu pönnu og rjúpurnar.
2. Grænmetið og rjúpnabeinin eru sett í pott. Hellið 1,5 l af köldu vatni í pottinn.
3. Soðið er látið sjóða í 90 mín. eða þar til um það bil 4 -5 dl. eru eftir í pottinum.
Þá er soðið síað frá.

Þá er komið að sósunni, en í hana þarf:
4 msk. smjör
1,5 msk. einiber
2 msk. hveiti
4 dl. rjúpnasoð
3 dl. rjómi
1 msk. soja sósa
salt og pipar

1. Bræðið smjörið í potti og steikið einiberin í því.
2. Sáldrið hveitinu í pottinn og hrærið því vel saman við smjörið.
3. Hellið rjúpnasoðinu í pottinn svo og rjómanum. Hrærið kröftulega í pottinum þannig að sósan blandist vel saman.
4. Bragðbætið sósuna með soja sósu og pipar. Bragðið á henni og saltið ef með þarf. Sósan er svo síuð. Þeir sem vilja geta svo bragbætt hana enn frekar með rifsberjahlaupi.

Rjúpnabringurnar og lærin eru svo hituð upp í ofni í álpappír, l5 – 20 mín.

Grillaðar langvíubringur

Hér kemur kryddlögur sem gott er að leggja langvíubringur í.

Þetta magn miðast við 400 g af bringum:
3 msk soyasósa
3 msk ferskur lime-safi
1 msk hunang
2 dl ananassafi (má ekki vera sætur)

Bringurnar eru látnar liggja í þessu yfir nótt í ísskáp og síðan steiktar á grilli eða á pönnu.

Hér kemur svo annar lögur sem ættaður er frá Asíu:
2 1/2 dl soyasósa
6 hökkuð hvítlauksrif
1 msk rifinn engifer
1 chilipiparbelgur skorinn í sneiðar

Bringurnar eru léttfrystar og skornar í pappírsþunnar sneiðar (hráar).
Sneiðarnar eru lagðar í löginn og látnar liggja í honum í 45 mínútur.
Sneiðarnar eru steiktar á vel heitri pönnu og bornar fram með hrísgrjónum.
Gott er að bera kryddlöginn fram í litlum skálum sem sósu.

Bláberjamarineraðar rjúpur í villibráðasósu

Fyrir 4 -12

rjúpubringur
leggir
fóarn
sarpur og hjarta
1 gulrót
1 laukur
2 súputeningar
250 gr. bláberjasulta
timian
salt og pipar
2 dl. rauðvín
100 gr. hveiti
75 gr. smjör
½ lauf gráðost
2 dl. rjómi
3 cl. brennivín.

Aðferð
Innyfli brúnuð í potti ásamt lauk og gulrót 1 lítri af vatni sett útí og soðið í ca. 1 klukkutíma.
Teningum bætt útí og sósan þykkt með smjöri og hveiti, sigtað (smjörbolla).
Í restina er sósan bragðbætt með 2 msk af sultu, brennivíni (má sleppa) og rjóma.

Rjúpan er lögð í marineringu (sambland af sultunni og rauðvíninu og 1 tsk salt) í 6 klukkutíma.
Bringurnar eru steiktar í stutta stund, ca. 2 mínútur á hvorri hlið, sósan sett á diskinn, rjúpurnar ofan á og borið fram með sykurbrúnuðum kartöflum og eplasalati.

Úlfar Eysteinsson

Gæsalifrar­terrine

500 gr. gæsalifur
350 gr. smjör við stofuhita
1 bolli púrtvín
1 tsk pipar
1 msk jarðsveppaolía (truffluolía)

Gæsalifur, púrtvín og pipar í pott eða pönnu, soðið við vægan hita undir loki í nokkrar mínútur eða þangað til lifur er ljósrauð. Kælt niður við stofuhita. Maukað í matvinnsluvél ásamt smjörinu og olíunni, set í mót og kælt.

Grafin rjúpa

Innihald

½ dl. salt
½ dl. sykur
½ msk. grófmulin græn piparkorn
1 msk. grófmulin svört piparkorn
1 tsk. hvítlauksduft
8 mulin einiber
1 tsk. timian
1 dl. fínsöxuð fersk steinselja
1 dl. saxað ferskt dill

Lýsing

1. Blandið þessu öllu vel saman. Skerið bringurnar úr rjúpunum og þerrið þær með hreinum klút.
2. Hyljið bringurnar í kryddblöndunni. Þessi skammtur ætti að duga fyrir 500 gr. af rjúpnabringum. Gott er að setja bringurnar í gler eða stálfat með loki.
3. Fatið með bringunum er sett inn í ísskáp. Bringurnar eru látnar liggja í þessari blöndu í sólarhring. Þeim er snúið tvisvar.

Þegar bringurnar eru bornar á borð eru þær skornar í örþunnar sneiðar á ská yfir vöðvann.
Með þessum bragðmikla og góða forrétti má hafa eggjahræru, gott gróft brauð og íslenskt smjör.
Ef þið viljið geyma bringurnar lengur er það mesta af kryddblöndunni skafið af þeim og þær geymdar í góðu íláti í ísskáp.

Villikrydduð gæsabringa með bláberjasósu

Hráefni
6 gæsabringur
2 msk. timian (blóðberg), ferskt eða þurrkað
salt og pipar

Villibráðarsoð
2 l vatn
beinin af gæsunum og lærin
1 stk. sellerístilkur
1 stk. laukur
1 stk. gulrót
2 stk. lárviðarlauf
1 búnt steinselja
1/2 stk. blaðlaukur
6 stk. einiber
2 stk. negulnaglar
10 stk. piparkorn

Bláberjasósa
1/2 l soð
2 dl rjómi
1 dl bláberjasulta
100 g fersk bláber
smjörbolla (30 g smjörlíki, 30 g hveiti)

Meðlætið
300 g spergilkál
3 stk. gulrætur
salt
1-2 tsk. sykur
2 msk. smjör

Kartöflutoppar
6 bökunarkartöflur
100 g gráðaostur
1 dl rjómi

Leiðbeiningar:
Brúnið bringurnar á pönnu og setjið síðan á ofngrindina.
Kryddið með salti, pipar og blóðbergi/timian. Steikið í 10 mínútur við 160°C.

Villibráðarsoð
Höggvið beinin smátt og brúnið í olíu á pönnu eða á ofngrindinni.
Sjóðið ásamt grænmeti og kryddi við vægan hita í 2-3 tíma. Fleytið froðuna ofan af.

Bláberjasósa
Bakið upp soðið með smjörbollu, bætið í rjóma og sultu. Smakkið til.
Bætið bláberjum í rétt áður en sósan er borin fram.

Meðlætið
Sjóðið spergilkálið í léttsöltu vatni.
Sjóðið gulræturnar í léttsöltu og sykruðu vatni og steikið síðan í örlitlu smjöri og sykri þar til gulræturnar fá fallegan gljáa.

Kartöflutoppar
Bakið kartöflurnar og skerið síðan hattinn ofan af.
Sjóðið saman rjóma og ost, þar til osturinn hefur bráðnað.
Skafið innan úr kartöflunum með skeið og bætið í pottinn.
Fyllið kartöfluhýðin með músinni og hitið í 180°C heitum ofni í 10 mínútur.

Hollráð
Best er að nota íslenskt blóðberg, hið villta timian, í þennan rétt – en einnig má nota þurrkað timian.

Wordpress Social Share Plugin powered by Ultimatelysocial