Rjúpnaspeki.

Áttaviti fyrir veiðimenn

PISTILL 1 - BYRJUNARREITUR

Nýafstaðnar karratalningar gefa tilefni til bjartsýni fyrir rjúpnaveiðina á komandi hausti, varpstofninn er í ágætu standi og er við það að ná þeim hæðum sem gjarnan er horft til í samanburði milli ára. Rjúpnaumræðan á það til að snúast um samanburð við “gömlu tímana” og um væntingar að einhvern tíman muni stofninn ná sér á það strik, annaðhvort af sjálfsdáðum eða með einhverskonar aðgerðum. Stundum er horft til stofnhámarksins 1955 þegar stofninn er sagður í sögulegu hámarki, en sú kynslóð veiðimanna sem upplifði stofnhámarkið 1986 minnist þess tíma einnig með söknuði, nóg var af rjúpu (hauststofn um 1,5 milljónir fugla), leyfilegt að veiða 69 daga (15. október - 22. desember) og litlar hömlur á veiðunum.

En hversu raunhæfar eru væntingar þeirra sem láta sig málið varða, hvaða forsendur er miðað við og eru þær byggðar á skilningi og innsýn í eðli þeirra breytinga sem stofninn hefur tekið síðan 1955, hvaða þættir hafa þar mest áhrif og með hvaða hætti mætti breyta til að ná settum og raunhæfum markmiðum?

Samanburðarhæfar talningar hófust árið 1981, fyrsta hauststofnahámarkið í þeirri talningaröð var árið 1986 (1,5 milljónir fugla) sem síðan hafa farið lækkandi (1998: 1.0 milljónir fugla; 2005: 800.000 fuglar) og í ár stefnir í að stofninn geti orðið rúm 1 milljón fugla (m.v. varpárangur sumarsins verði 6,6 ungar/hænu). Samkvæmt reglugerð hefur 12 daga veiðitímabili verið úthlutað í ár (26. október - 18. nóvember) sem eru fáir dagar m.v. fyrri tíma og um fátt eitt er rætt meira en dagafjöldann og hvort eða hvernig veiðar hafa áhrif á rjúpnastofninn. Inní þessa umræðu blandast margir þættir sem nauðsynlegt er að kunna skil á til að geta tekið virkan þátt í nauðsynlegri umræðu um veiðistjórnun almennt og hvernig skuli haga rjúpnaveiðum m.v. stöðu stofnsins hverju sinni.

Djúp gjá er á milli þeirra sem vilja takmarka veiðarnar enn frekar, jafnvel banna og þeirra sem telja að þáttur veiða sé veigaminni en haldið er fram, jafnvel engin. Raunveruleikinn er að öllum líkindum einhverstaðar þarna á milli og uppi eru margar tilgátur sem því miður eru of fáar studdar gögnum sem þó er nóg af, þökk sé fjárframlagi veiðimanna til vöktunar- og rannsóknaverkerfa í gegnum veiðikortakerfið.

Náttúrufræðistofnun Íslands (NÍ) hefur haft veg og vanda að gagnasöfnun í gegnum vöktunaráætlunina og önnur rjúpnatengd verkefni (t.d. heilbrigðisrannsóknir), Umhverfisstofnun (UST) hefur svo haldið utanum gagnaöflun um veiðina sjálfa (veiðitölur eftir landshlutum og fjöldi sóknardaga). Upplýsingagildi gagnanna er þó talsvert meira en nýtt hefur verið í umræðunni til þessa, sem hefur skort breidd og mörgum steinum þarf að velta við eins og lesendur munu komast að. Veiðimenn sjálfir hafa fram til þessa ekki nýtt sér þessi gögn í málflutningi sínum nema að takmörkuðu leiti, enda er framsetning og túlkun þeirra upplýsinga sem gögnin framkalla engan vegin einföld og galopin fyrir túlkunum í sumum tilfellum.

Í sinni einföldustu mynd byggir umræðan á línuritum þeim sem sjá má á Mynd 1 og Mynd 2, þ.e. þar sem álykta má hversu varpstofninn er stór að vori og hvernig hauststofninn lítur út þegar tekið hefur verið tillit til nýliðunarinnar yfir sumarið.

Mynd 1

Mynd 1: Myndritið sýnir niðurstöður árlegra karratalninga, þ.e. mat á stærð varpstofnsins yfir landið allt. Gildin taka í raun einungis mið af talningum á norðausturlandi, sem eru helstu varpstöðvar rjúpunnar, sem er síðan margfaldað með stuðli fyrir allt landið.

Mynd2

Mynd 2: Myndritið sýnir reiknaðan hauststofn í nóvember fyrir allt landið þegar búið er að taka inní niðurstöður ungatalningar í júlí/ágúst. Einungis gildi af norðausturlandi eru notuð við útreikningana sjálfa, sem síðan eru “extrapoleruð” yfir landið, líkt og gert er fyrir útreikning á varpstofn að vori. Ferillinn er í grunninn eins útlítandi og fyrir varpstofninn, en magnast og dofnar í takt við varpárangur (unga/hænu), t.d. árin 1989 og 1991 er ungahlutfall talsvert hærra en í meðalári og lyfta upp hauststofninn. Öfugt gerist svo t.d. árið 2011, þegar ungahlutfall er undir meðallagi og dregur hauststofninn niður. 

Af þessum myndum sést að bæði varpstofn og hauststofn hafa í gegnum tíðina átt nokkuð í land að ná fyrri hæðum (1986), hámörkin hafa lækkað meðan botnarnir virðast stöðugir, en í ár eru ágætar líkur á að stofninn rjúfi 1 milljón fugla múrinn sem þykja stórfréttir miðað við það sem á undan er gengið. Undir yfirborði þessarar einföldu framsetningar er hinsvegar flókin atburðarás sem stýrir stofnstærðinni og séu gögnin rýnd kemur ýmislegt gagnlegt í ljós sem mun hafa áhrif á hvernig umræðan um ástand rjúpnastofninn og framkvæmd veiðanna (veiðistjórnunin) mun þróast á næstu árum.

Ekki verður hjá því komist að blanda fjölda leyfilegra veiðidaga, fyrirkomulagi veiðitímabila og heildarveiði inn í þessa umræðu. Mynd 3, 4, 5 sýna hvernig fjöldi veiðidaga hefur breyst , hvernig veiðitímabilum hefur verið stýrt og tölulegt yfirlit yfir heildarveiðina sem þetta fyrirkomulag hefur skilað í gegnum árin (þar sem gögn eru aðgengileg).

mynd3

Mynd 3: Myndritið sýnir hvernig fjöldi leyfilegra veiðidaga hefur tekið breytingum á s.l. 150 árum. Á fyrri hluta þessa tímabils er ólíklegt að rjúpnaveiðar hafi verið stundaðar allan ársins hring, sérstaklega þar sem rjúpan var aðallega veidd til útflutnings og þurfti að vera í hvítum ham þegar hún var seld. Einnig er líklegt að veiðitími hafi tekið mið af því hvenær skip sigldu frá Íslandi. Bent er á að fjöldi veiðidaga innan hvers veiðitímabils náði fram yfir áramót allt til ársins 1920 þegar veiðar voru bannaðar tímabundið og var síðan leyft frá 15. október til 31. Desember (77 dagar) fram til ársins 1954, þegar veiðitíminn var styttur til 22. desember (69 dagar). Frá árinu 2005 hefur veiðitíminn tekið endurteknum breytingum. 

mynd4

Mynd 4: Myndritið sýnir hvernig veiðitímabil hafa tekið breytingum á s.l. 150 árum, þar sem miðað er við “Rjúpnaárið” sem hefst 20. apríl (dagur 1) og markar veiðilaust tímabil fram á haust. Þá tekur við veiðitímabil, en frá 2007 hefur veiðitímabilið verið brotið upp. Að lokum tekur við veiðilaust tímabil fram að lokum “Rjúpnaársins” 19. apríl. 

mynd5

Mynd 5: Myndritið sýnir skráðar útflutningstölur annarsvegar og skáðar veiðitölur hinsvegar. Útflutningstölurnar ættu að gefa nokkuð góða mynd af umfangi veiðanna á þessu tímabili og staðfesta einnig eðli stofnbreytinga með reglulegum hámörkum og lágmörkum. Um kvart milljón fugla (250.000) voru veiddar um miðbik annars áratugar síðustu aldar en áætlað er að um 50.000 fuglar hafi veiðst 2017 (skv. síðustu staðfestu tölum). 

Til framtíðar er nauðsynlegt að veiðimenn átti sig á tilgangi, útfærslu og mikilvægi gagnasöfnunarinnar, öðlist skilning á innihaldi gagnanna, framsetningu niðurstaða og ályktana með gagnrýnu hugarfari, geri sig gildandi í umræðunni og sýna fræðimönnum bæði aðhald og stuðning við þeirra mikilvægu vinnu. Málflutningur veiðimanna verður að byggjast á skilningi á fyrirliggjandi gögnum og hvernig þau eru notuð til framsetningar á upplýsingum. Þá aðeins getur þekking veiðimanna nýst til fullnustu séu tilgátur þeirra studdar gögnum og því þurfa veiðimenn að staldra aðeins við og ná áttum áður en lengra er haldið.

Veiðimenn eru komnir lengra í þessarri rýni en menn kunna að halda, en fagráð SKOTVÍS hefur síðan 2011 unnið markvisst að því að varpa ljósi á upplýsingagildi fyrirliggjandi gagna og hefur birt greinar í Tímaritinu SKOTVÍS um niðurstöður sínar (2013 og 2015), þar sem er varpað skýrara ljósi á ástand rjúpnastofnsins og áhrifum vegna veiða. Aukinn skilningur og þekking er að skapast innan SKOTVÍS og á næstu vikum verða birtir vikulegir pistlar sem er afrakstur þessarar vinnu, um helstu atriði sem veiðimenn nútíðar og framtíðar þurfa að kunna skil á til að skilja til fullnustu grunn umræðunnar sem halda þarf uppi.

Í þessum pistlum verður leitast við að einfalda framsetningu á helstu niðurstöðum fræðimanna og setja túlkanir í samhengi við upplifun veiðimanna, ásamt nokkrum nýjum áhugaverðum og mikilvægum túlkunum sem hafa ekki ratað í sviðsljósið, en mun nú vonandi verða þess valdandi að umræðan um rjúpnastofninn auðgist frekar. Hugmyndin er að skapa forsendur fyrir veiðimenn og aðra áhugasama til að öðlast betri innsýn og yfirsýn yfir málaflokkinn, þeir taki virkari þátt í umræðunni og miðli af reynslu sinni næstu árin með sterkri tilvísun í sömu gögn og NÍ/UST notast við í sinni vinnu.

Áður en lengra er haldið vil ég þakka Ólafi K. Nielsen fyrir aðstoðina í þessu ferli fyrir að góðfúslega láta SKOTVÍS í té þau gögn sem lögð eru til grundvallar í þessum pistlum, fyrir óteljandi samtöl og lærdómsrík skoðanaskipti og sýnda þolinmæði við að útskýra aðferðafræði vöktunarplansins sem veita svo ómetanlega innsýn inní flókið ferli.

Í næsta pistli verður gefin innsýn í öflun vöktunargagna sem er grunnurinn að frekari umræðu. 

Pistill 2 - Vöktun rjúpnastofnsins, gagnasöfun

Í pistli 1 var undirstrikað mikilvægi þess að veiðimenn afli sér þekkingar á eðli stofnstærðarbreytinga rjúpnastofnsins. Birt voru tvö myndrit þar sem samband varpstofns og hauststofns var útskýrt í grófum dráttum og sjá má að stofninn rís og hnígur með reglulegu millibili (óreglulegu í seinni tíð).

Þessi einfalda framsetning á ástandi rjúpnastofnsins er þó engan vegin nægjanleg til að fóðra nauðsynlega umræðu um eðli stofnstærðarbreytinga og áhrifaþætti breytinganna. Nauðsynlegt er að rýna betur undir yfirborðið.

Í þessum pistli verður farið yfir hvernig gögnin verða til og í hvaða tilgangi, þ.e. vöktunarplanið sem hefur verið framkvæmt með sama hætti síðan 1981. Vöktunaráætlunin miðar að því að afla gagna með skilvirkum hætti um þætti sem nægja til að varpa ljósi á stofnstærðarbreytingar milli ára, þ.e. stofnstærð, ungahlutföll, sumarafföll, vetrarafföl, nýliðun, afrán o.s.frv. ... breytur sem hafa mikið upplýsingagildi.

Vöktunin fer fram með margvíslegum hætti og eru eftirfarandi tímapunktar mikilvægir fyrir vöktunaráætlunina:

  • 20. apríl - 20. maí Karratalning og aldursgreining (1.árs fuglar / eldri) 
  • Júlí/Ágúst Ungatalning (ungar/hænu)
  • Nóvember Aldursgreining innsendra vængja frá veiðimönnum

“Rjúpnaárið” hefst 20. apríl ár hvert, en um það leiti sest karrinn upp, er mjög sýnilegur að morgni og kveldi og því auðvelt að telja á þeim tíma. Talið er á rúmlega 40 skilgreindum talningarsvæðum (reitatalning, vegsnið, göngusnið) víða um land, en flest svæðanna hafa verið talin samfellt í mörg ár, sumhver í áratugi. Lagt hefur verið upp með að viðhalda sama fyrirkomulagi milli ára í þeim tilgangi að gera hverskyns samanburð mögulegan og því er nálguninni ekki breytt nema að mjög vel athuguðu máli. Áhugasömum er bent á árlega fréttatilkynningu NÍ um niðurstöður talningana , þar sem fram koma talningastaðir og helstu niðurstöður.

Fyrirkomulag karratalningar að vori hefur stundum sætt gagnrýni á þeirri forsendu að til séu betri aðferðir, t.d. að betra sé að nota hunda til að finna fleiri rjúpur, en hér er mikilvægt að hafa í huga að tilgangurinn er ekki sá að finna sem flestar rjúpur, heldur að viðhalda stöðugri aðferð sem getur mælt marktækan mun milli ára, þar sem búið er að taka burt sem flestar breytur, s.s. með því að telja alltaf á sama svæði við sömu skilyrði, sama árstíma, sama tíma dags, eftir sömu ferlum og helst með sama mannskap. Þessi aðferð hefur gefist vel og tryggt að gögnin sem safnast saman séu samanburðarhæf milli ára.

Félagmenn SKOTVÍS hafa tekið virkan þátt í þessum talningum um árabil og hafa haft umsjón með talningarsvæðinu í Fitjárdal síðan 2006 auk svæðis við Þingvelli. Með þátttöku í talningum gefst félagsmönnum tækifæri til að kynnast þessari aðferðafræði betur og vonandi munu fleiri félagsmenn taka þátt í þessu starfi þegar fram líða stundir.

Rétt er að halda til haga að þó talið sé á rúmlega 40 svæðum eru eingöngu talningagögn frá norðausturlandi lögð til grundvallar við stofnmatið, enda er þéttleiki varpstofnsins þéttastur í þeim landshluta og helsta útúngunarstöð rjúpunnar og mikil þekking sem hefur safnast upp um það svæði. Þessi nálgun er einnig útskýrð með þeim rökum að stofnþróun er nægilega lík milli landshluta til að halda líkanagerðinni einfaldari. Önnur svæði eru fyrst og fremst notuð til að sannreyna hvernig mismunandi landshlutar koma út úr talningum til samanburðar og sannreyna þessa forsendu.

Ungahlutföll (hlutfall 1.árs fugls) er afar mikilvæg breyta við meta tímasetningu vetraraffalla, sumarafföll (júni/ágúst) og vetrarafföll (ágúst-apríl). Þar sem rjúpan er mjög skammlífur fugl (3-4 ár), er stofninum skipt upp í tvo aldurshópa, 1.árs fugl annars vegar og eldri fugl hinsvegar.

 • Fyrsti tímapunktur ungahlutfallsmælingar er gert um mánaðarmótin júlí/ágúst, en þá er norðausturland og suðvesturland talið og fjöldi unga með hverri hænu talið (mynd 6) og ungahlutfall á varppar reiknað (mynd 7, heil græn lina). Tímgunarhlutfall rjúpunnar er almennt mjög hátt (90-95%) og eru ungalausar hænur teknar með í þetta meðaltal. Síðsumartalningin gefur því mynd af varpárangrinum (mynd 6) sem skiptir miklu máli fyrir margföldun varpstofnsins yfir í hauststofninn.
 • Annar tímapunktur ungahlutfallsmælingar er framkvæmdur á veiðitíma, en þá er gerð aldursgreining á innsendum vængjasýnum úr afla veiðimanna (október/nóvember) (mynd 7, brotin appelsínugul lína).
 • Þriðji tímapunktur ungahlutfallsmælingar er framkvæmdur samhliða karratalningunni árið efir (mynd 9, rauð punktalína). Mat á ungahlutfalli að vori er afar erfitt og tímafrekt í framkvæmd og því eingöngu framkvæmt á norðausturlandi af reyndu talningarfólki, og suðvesturlandi til samanburðar. Þúsundir ljósmynda í hárri upplausn eru teknar af körrum og þeir aldursgreindir út frá vængjum fuglanna, auk þess sem hræ eru aldursgreind. 
Mynd 6

Mynd 6: Myndritið sýnir hvernig nýliðunin hefur þróast frá 1981-2018. Gildi fyrir 2018 er áætlað 6,6 ungar/hænu sem er meðaltal s.l. 10 ára, en sjá má að meðaltal síðustu 10 ára er talsvert lægra en meðltal áratugana á undan.

Eins og sjá má á mynd 6 hefur varpárangri hrakað og á mynd 7 (heil græn lína) sést að lengst af hefur ungahlutfallið verið i kringum 80% en hefur lækkað umtalsvert frá árinu 2005. Eðlilegt er að stöku sumur fari illa vegna veðuraðstæðna, en samfelldur viðkomubrestur hefur afgerandi áhrif á margföldunaráhrifin yfir í hauststofninn (sérstaklega yfir lengri tíma) og svo aftur á varpstofninn árið eftir. 

Mynd 7

Mynd 7: Myndritið sýnir breytingu á ungahlutfalli milli þriggja tímapunkta á fyrsta ári ungfugla (1.árs fugla). Samanburðurinn sýnir glöggt hvernig afföll 1.árs fuglsins færast öll í aukana eftir að veiðitíma lýkur og fram á vor (desember-apríl), en lægra ungahlutfall segir til um hversu mikil afföll 1.árs fuglsins eru umfram eldri fugl.

ATH: Gildin fyrir ungahlutföll ad vori eru hliðruð um eitt ár þar sem t.d. ungahlutfall vor 2018 á við um árgang 2017. Af þessu sést að hlutfallið er sveiflukennt og gefur sterklega til kynna hvað afföll 1.árs fugls eru mikil umfram eldri fugl þegar haft er í huga mikil frjósemi rjúpunnar að sumri og ungahlutfallið er nærri 80%, en fellur undir 50% undir lok rjúpnaárs (19. apríl). Myndritið gefur einnig sterkar vísbendingar um að sveiflur í hlutfalli 1.árs fugls að vori hafi eitthvað með sveiflur rjúpnastofnsins að gera.

Á mynd 7 sést hvernig ungahlutfallið lækkar og tekur meiri sveiflum þegar líða tekur á “Rjúpnaárið”. Uppistaða stofnsins í sumarlok er um 75-80% 1.árs fugl og sé ungahlutfall þessarra þriggja tímapunkta borið saman fyrir hvert ár má sjá að lítill munur er á ungahlutfalli síðsumars og framyfir veiðitíma, sem gefur til kynna að afföll 1.árs fuglsins eru ekki mikil umfram eldri fuglinn, þ.e. 1.árs fuglinn er ekki að hríðfalla umfram eldri fuglinn á þessu tímabili. Mikil breyting verður hinsvegar á ungahlutfallinu eftir að veiðitíma lýkur og fram á vor (desember-apríl), sem staðfestir að mestu afföllin í stofninum (uppistaðan er 1.árs fugl) verða á þessu tímabili.

Þessi framsetning kollvarpar hugmyndum sem oft hefur verið haldið fram um að 1.árs fuglinn verði að jafnaði fyrir talsvert meiri afföllum en eldri fugl á frá sumri fram að veiðitíma. Ef mikil afföll eiga sér stað á þessu tímabili, þurfa þau að eiga sér stað samtímis hjá báðum aldurshópum.

Með hlutfallaútreikningi á aldurshlutföllum og mismun karratalninga milli ára má reikna vetrarafföll mismunandi aldurshópa (mynd 8) frá árinu áður. Ekki verður farið í þessa útreikningar hér, en áhugasömum er bent á eftirfarandi heimildir:

 1. Fjölrit NÍ 39 – Vöktun rjúpnastofnsins, ÓKN 1999

 2. Fjölrit NÍ 47 – Vöktun rjúpnastofnsins 1999-2003, ÓKN, JB, KM 2004 

Mynd 8

Mynd 8: Myndritið sýnir hvernig afföll mismunandi aldurshópa hafa þróast í gegnum árin. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að 1.árs fuglinn er um 80% hauststofnsins en einungis 50-70% varpstofnsins. (mynd 7).

Þó meira fari fyrir öfgum í afföllum eldri fugls í seinni tíð (mynd 8, blá lína), þá eru vetrarafföll 1.árs fugls (mynd 8, rauð lína) megindrifkraftur stofnsveiflna af þeirri einföldu ástæðu að afföllin eru ávallt hærri í þeim aldurshópi, auk þess sem sá aldurshópur telur 80% hauststofnsins .

Margar kenningar eru uppi um ástæður hárra affalla hjá báðum aldurshópum, en nýlegar rannsóknir á vegum NÍ benda til mikillar fylgni milli heilbrigðisástands rjúpunnar í október og þeirra affalla sem stofninn verður svo fyrir á tímabilinu desember-apríl. Því virðist nokkuð líklegt að heilbrigðisþættir séu helstu orsakavaldar sveiflna hjá stofninum (uppistaðan er 1.árs fugl, 75-80%). Afrán, þ.á.m. veiðar er ekki beinn sveifluvaldur líkt og heilbrigðisþættir, en hefur hinsvegar áhrif á mögnun/dempun sveiflna og getur fært til þann punkt þar sem umpólun úr niðursveiflu í uppsveiflu á sér stað og öfugt. Það er umhugsunarvert þegar litið er til þess hversu litlar breytingar á vetrarafföllum þarf til hjá 1.árs fuglinum til að uppsveifla snúist i niðursveiflu og öfugt. Nánar verður fjallað um þetta atriði í næsta pistli og farið verður dýpra í eðli sveiflanna, þ.e. sveifluvakann (vetrarafföllin) og sveiflumögnunina (nýliðun/afföll) og hvernig samband þessarra breyta hafa áhrif á sveiflurnar.

SAMANTEKT:

 1. 1.árs fugl er uppistaðan í hauststofninum, hefur verið um 80% á árunum 1981-2004, en hefur farið lækkandi síðan 2005.

 2. Afföll 1.árs fugls eru hærri en hjá eldri fugli.

 3. Vetrarafföll skýrast líklega af heilbrigðisþáttum sem eru mælanlegir snemma að hausti (október).

 4. Vetrarafföll 1.árs fugls stýra leitni sveiflunnar.

 5. Mestu vetrarafföllin hjá 1.árs fugli eiga ser stað a tímabilinu desember-april.

 6. Varpárangur/sumarafföll og afrán hafa áhrif á mögnun/dempun sveiflunnar. 

Pistill 3 - Sveifluvakinn … samband affalla og nýliðunar

Lífshlaup rjúpunnar er markað lágum lífslíkum þar sem náttúruleg öfl valda háum afföllum og ólíklegt er að rjúpan nái meiri en 3-4 ára aldri. Sveiflukennd vetrarafföll 1. árs fugls (77% hauststofnsins síðan 2005) er helsti drifkraftur stofnstærðarsveiflna og lifir engin rjúpa fulla sveiflu með bæði “hámörkum” og “lágmörkum”.

Afföll eldri fugla hafa tekið meiri sveiflum síðan 2003 en áratugina þar á undan og vetrarafföll beggja aldurshópa veturinn 2017/2018 hafa aldrei mælst lægri síðan vöktun hófst árið 1981.

Eins og gefið var í skyn í inngangi þessa pistils, drífa vetrarafföll 1.árs fugls öðrum þáttum fremur áfram sveiflurnar og reglulega verður vending í afföllum. Við vendinguna breytist jafnvægið milli vetraraffalla og nýliðunar sem veldur breytingum á leitni sveiflunnar. Í niðursveiflu hættir nýliðunin að halda í við vetrarafföllin og í uppsveiflu eru vetrarafföllin lægri en nýliðunin. Á myndum 9 og 10 má sjá hvernig þessir útreikningar hafa verið útfærðir í aðdragana 1986 hámarksins og við vendinguna í kjölfarið.  

Mynd 9

Mynd 9: Myndritið sýnir hvernig rjúpnastofn stækkar þegar “réttu skilyrðin” eru fyrir hendi (t.d. aðdragandi 1986 hámarksins). Meðalafföll 1.árs fugls voru að meðaltali 80% og nýliðunin um 8.3 ungar/hænu í sex ár samfellt. Á hverju ári varð því góð hlutfallsleg aukning - ATH. 1986 hámarkið var hærra vegna betri skilyrða en meðaltal 6 áranna (tæp 1.5 milljón fugla).

Mynd 10

Mynd 10: Myndritið sýnir hvernig rjúpnastofn minnkar þegar umpólun í vetrarafföllum á sér stað. Meðalafföll voru að meðaltali 89/62% og nýliðunin um 8.1 ungar/hænu í sex ár samfellt. Á hverju ári varð hlutfallsleg fækkun þar til botni var náð 1992.

Í gegnum tíðina hafa vendingar í vetrarafföllum 1.árs fugls verið megindrifkraftur sveiflubreytinga í rjúpnastofninum og sést vel á myndum 11a og 11b hvernig vetrarafföll þessa aldurshóps tekur stökkbreytingum með reglulegu millibili. Vetrarafföllin taka ekki smáum árlegum breytingum milli hámarka og lágmarka, heldur er eitthvað sem veldur snöggum breytingum sem keyrir stofninn upp og niður, en þessar vendingar eru háðar jafnvægi milli vetraraffalla og nýliðunar. Þetta mynstur gefur því sterka vísbendingu um tímasetningu á upphafi og lokum uppsveiflu/niðursveiflu.

Mynd 11b

Mynd 11a / 11b: Myndritin sýna greinilegar vendingar í vetrarafföllum 1.árs fugls fyrstu tvo áratugina, en myndin verður ekki eins skörp yfir eftir það. Athyglisvert er að skoða tímabilið 2007-2017, en líta má á það sem eitt langt uppbyggingartímabil, þar sem vetrarafföllin eru nánast öll í lægri kantinum með örfáum undantekningum - ATH. í þessarri túlkun eru ekki litið á einstök frávik sem upphaf sveiflubreytinga.

Á myndum 11a/11b er miðað við að vending eigi sér stað við 85% mörkin (afföll 1.árs fugls) og afföll haldist öðru hvoru megin við þessi vendimörk í nokkur samfelld ár meðan sveiflan líður hjá og leitni hennar breytist. Gert er ráð fyrir að einstök ár breyti ekki leitni stefnunnar fyrr en þau eru orðin samliggjandi 2 ár eða fleiri. Af myndum 11a/11b sést að skilin eru greinileg fram til 1998 hámarksins, þegar þetta mynstur verður ógreinilegra. Má með þessarri nálgun álykta sem svo að í raun hafi átt sér stað samfelld 11 ára uppsveifla (með tveimur ósamliggjandi undanteknignum). Uppsveiflan hafi í raun staðið tvöfalt lengur en í aðdraganda 1986 hámarksins og með álíka lágum meðalafföllum yfir allt þetta tímabil (79% m.v. 80% í aðdraganda 1986 hámarksins). Maður skyldi því ætla að 1986 hámarkinu skyldi náð fyrir alllöngu … og haldið áfram að slá ný met! En málin hafa flækst í seinni tíð, kerfislægar breytingar hafa átt sér stað sem hafa hægt á uppsveiflum og breytt vendimörkunum!

Í pistli 2 var minnst á þá þróun að nýliðun hafi farið hrakandi (sjá mynd 6) og ef vendimörkin á mynd 11b er notuð til viðmiðunar fyrir útreikning á meðalvarpárangri í aðdraganda hámarka og lágmarka má mun greinilegra hversu mikil sumarafföllin hafa aukist samellt síðan 2003 lægðinni lauk (mynd 12), eða úr 8.3 ungum/hænu í 6.6 ungum/hænu … eða um rúmlega 20%!

Mynd 12

Mynd 12: Myndritin sýna greinilegar breytingar á nýliðun til lækkunar.

Þó vetrarafföll séu nú á pari við aðdragana 1986 hámarksins, þá skekkist jafnvægi affalla og nýliðunar þegar nýliðunin versnar sem þessu nemur og vendimörkin lækka, þ.e. lægri afföll þarf til að venda leitni sveiflunnar (mynd 13).

Mynd 13

Mynd 13: Myndritið sýnir hvar vendimörkin liggja hjá 1.árs fuglinum þegar nýliðunin (ungar/hænu) er borin saman við vetrarafföll 1.árs fugls. ATH: Eldri fugl er um 25% af hauststofni og eru afföll hans öllu jafna lægri og hafa einhver áhrif á raunmyndina.

Af þessu sést að hærri afföll kalla á sterkari nýliðun og því lækka vendimörkin fyrir vetrarafföllin þegar nýliðunin veikist, m.ö.o. þarf lægri afföll til að snúa stofninum í niðursveiflu og þessi mörk hafa síðan 1986 lækkað úr 86% afföllum í 82% þar sem nýliðunin hefur lækkað úr 8,3 ungum/hænu í 6,6 unga/hænu. Á mynd 14 má sjá hversu nálægt meðalvetrarafföllin eru vendimörkum í aðdraganda hámarka/lágmarka.

Mynd 14

Mynd 14: Myndritið sýnir vendimörkin, þ.e. þau mörk affalla sem stuðla að sveiflubreytingum þegar búið er að taka tillit til styrks nýliðunarinnar. Af þessu sést að aðdragandinn að hámarki 2018 hefur verið hægur, enda meðalafföllinn rétt undir vendimörkum. Vöxturinn var mun hraðari í aðdraganda 1986, 1998 og 2005.

Af mynd 14 sést að þó vetrarafföllin á tímabilinu 2008-2018 hafa verið lág í sögulegu samhengi, þá dugar það ekki til vegna lélegs varpárangurs og slakrar nýliðunar. Þegar þetta tímabil er skoðað nánar og vendimörkin reiknuð nákvæmar, sést að sveiflurnar taka breytingum, verða reglulegar en styttri. Mynd 15 er endurgerð og nákvæmari en mynd 14.

Mynd 15

Mynd 15: Myndritið sýnir afstöðu vetraraffalla m.v. vendimörk (reiknuð útfrá nýliðun). Eftir því sem vetrarafföllin eru fjær vendimörkunum, þess öflugri verður mögnun/dempun sveiflunar, t.d. fyrir vetrarafföll veturinn 2017/2018.

Það er nokkuð ljóst að hærri afföll kalla á sterkari nýliðun og því lækka vendimörkin fyrir vetrarafföllin þegar nýliðunin veikist, m.ö.o. það þarf lægri afföll til að snúa stofninum í niðursveiflu og þessi mörk hafa síðan 1986 lækkað úr 86% afföllum í 82% þar sem nýliðunin hefur lækkað úr 8,3 ungum/hænu í 6,6 unga/hænu … eða sem nemur 4 prósentustigum í heildarvetrarafföllum og munar um minna.

Eins og sjá má, er hægt að lesa ýmislegt útúr vöktunargögnum, en í næsta pistli verður farið yfir hvernig megi meta áhrif veiða á rjúpnastofninn.